08.03.1982
Neðri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

60. mál, lyfsölulög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lyfsölulögum frá 1963. Meginbreyting frv. gerir ráð fyrir að veita megi Háskóla Íslands lyfsöluleyfi.

Frv. þetta hefur áður komið til meðferðar hér á hv. Alþingi þó með nokkuð öðrum hætti sé, þ.e. sem hluti frv. til l. um lyfjadreifingu. Í frv., eins og það kemur nú til hv. Nd. frá hv. Ed., er gert ráð fyrir að óbreytt fyrirkomulag haldist varðandi lyfsöluleyfi í lyfjabúð Háskóla Íslands þar til núverandi lyfsali lætur af störfum, lyfsöluleyfið verði ekki auglýst laust þó að Háskólinn yfirtaki rekstur lyfjabúðar. Svipað ákvæði er í frv, til l. um lyfjadreifingu, sem er komið nokkuð áleiðis í meðferð Ed. Alþingis, en þar sem Háskólinn á nú í viðræðum við eigendur lyfjaverslunar hefur þótt rétt og nauðsynlegt að taka þetta sérstaka ákvæði út úr og óska eftir því við hv. Alþingi, að það flýti meðferð málsins svo sem kostur er.

Um mál þetta var samstaða í Ed. Alþingis, og ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.