28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna orða hæstv. sjútvrh. þess efnis, að það væri erfitt að stöðva loðnuveiðar nú þrátt fyrir hinar svakalegu upplýsingar — ég vil orða það svo — fiskifræðinga um að loðnustofninn kunni að vera kominn niður í 150 þús. tonn.

Ég verð að segja það sem mína skoðun, að deilur um loðnuverð eru hjóm eitt miðað við hversu alvarlegar fréttir hér eru á ferðinni. Mín skoðun er sú, að þær upplýsingar, sem nú hafa borist frá fiskifræðingum, hljóti að vera af því tagi að það sé rökrétt ákvörðun í framhaldi af þeim upplýsingum að loðnuveiðar verði stöðvaðar þegar í stað, a. m. k. á meðan verið er að skera úr um hvort þessar upplýsingar eru réttar eða ekki.

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu. Mér er ljóst að það standa mörg spjót á hæstv. sjútvrh. þessa dagana af ýmsum tilefnum og vegna ýmissa mála. En þetta mál finnst mér alvarlegra en nokkuð annað sem hér hefur borist inn í þingsali í langan tíma. Menn verða að gjöra svo vel að gera sér það ljóst, að loðnan er undirstöðufæðutegund þorskfisksins í hafinu. Ef við erum að veiða upp þennan stofn eru svo alvarleg tíðindi á ferðinni að við því verður að bregðast af fyllstu hörku.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. taki þetta mál eins föstum tökum og honum er framast unnt. Ég vil minna á það, að menn töluðu hér á sínum tíma, þegar síldarstofninn var að hverfa úr hafinu, á svipaðan hátt og nú er gert. Menn trúðu ekki upplýsingum fiskifræðinga og tóku stundum meira mark á skipstjórum síldveiðibáta. Hvernig fór? Annar stofninn af tveimur var veiddur upp. Ég vil af þessari ástæðu eindregið mælast til þess, að hæstv. sjútvrh. taki þetta mál eins föstum tökum og hægt er.