09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Á þskj. 382 hef ég leyft mér að bera fram tvær fsp. til hæstv. viðskrh. um verðlagningu á olíu.

Eftir fréttum að dæma hefur olíuverð ekki hækkað á heimsmarkaði á undanförnum mánuðum og á síðustu vikum jafnvel lækkað mikið. Ég hef heyrt að eftirtalið verð hafi verið á gasolíu á Rotterdam-markaði á s.l. ári: Í byrjun janúar 310 dollarar tonnið, í byrjun júní 265 dollarar tonnið og í lok desember 327.5 dollarar tonnið. Veruleg verðlækkun hefur því átt sér stað um miðbik s.l. árs, og einnig hef ég fréttir af því, að verðið hafi verið komið niður í 275 dollara tonnið á gasolíu í Rotterdam í lok febrúar s.l. Undanfarna daga virðist allt stefna í þá átt, að enn sé lækkunar að vænta, þar sem framleiðendur jarðolíu keppast nú við að tilkynna lækkanir, t.d. Bretar og Egyptar.

Ég leyfi mér að óska eftir áliti hæstv. viðskrh. á þróun þessara mála, og mín fyrri spurning er: „Hver hefur verið þróun olíuverðs á heimsmarkaði (Rotterdam) síðustu 12 mánuði, og hvernig er útlitið á verðlagningu á olíu á næstu árum að mati alþjóðlegra stofnana?“

Síðari spurningin er þannig: „Hvenær kemur lækkun fram í verði til neytenda hér á landi þegar olíuverð lækkar á heimsmarkaði, og hver er ástæðan fyrir því, að slík lækkun hefur ekki átt sér stað til neytenda hér?“ Þegar olíuverðshækkanir voru að koma yfir okkur hver af annarri á undanförnum árum fylgdi það oft þeim vondu fréttum, að svo illa hefði staðið á að litlar sem engar olíubirgðir væru til í landinu, hækkunin riði því strax yfir neytendur. Nú er um það spurt, hvort allar birgðageymslur íslensku olíufélaganna hafi verið fullar á s.l. sumri, meðan olíuverð í Rotterdam var 265 dollarar tonnið á gasolíu, eða hvort allir tankar hafi verið tómir í desember og þá fylltir þegar olíuverð var 327,5 dollarar tonnið í Rotterdam og þar af leiðandi sé nokkuð langt í land að hægt sé að notfæra sér núverandi verð.

Ég legg spurninguna svona fyrir vegna þess að gasolía hefur hækkað hér á landi úr 2.35 kr. í byrjun árs 1981 í 3.65 í dag eða um 55.32%. Ég tel að megi segja að vor- og miðsumarsverð hafi verið um 15% lægra í Rotterdam en í byrjun árs og ekki nema 6% hærra í lok desember en það var fyrir ári. Hvernig er verðlagningu olíunnar háttað ef út úr þessu kemur 55.32% hækkun? Trúlega verða nefnd verðbólguáhrif og gengisfellingar krónunnar til að láta dæmið ganga upp og réttlæta hækkunina, en mér finnst slíkt ekki trúverðugt. Á árinu 1981 féll gengi ísl. krónunnar gagnvart dollar um 31%. Sú hækkun kemur beint inn í olíuverðið. Hluti innlends kostnaðar í verðlagningu olíu, og þar með áhrif innlendrar verðþróunar á olíuverðið, getur ekki verið stór hluti nema sem jafnvirðishækkun við innkaupsverðið. Það er ekki líklegt að flutningsgjöld hafi hækkað á þessu tímabili, frekar að þau hafi lækkað vegna mikils framboðs og verkefnaskorts tankskipa. Gaman væri að fá upplýsingar hjá hæstv. viðskrh. um flutningsgjöldin ef ráðh. hefði þær upplýsingar á takteinum.

Ég hef hvorki upplýsingar um birgðastöðu olíufélaganna fyrri hluta árs 1981 né verð á gasolíu í Rotterdam 1980. Staða þessara þátta getur vissulega haft áhrif á verðlagningu olíu árið 1981. Hitt virðist þó ljóst, að um mitt ár 1981 var veruleg lægð í olíuverði í Rotterdam, eins og ég gat um áðan, þ.e. verðið fór þá niður í 265 dollara tonnið úr 310 dollurum í janúar. Þessi verðlægð virðist hafa nýst íslensku olíufélögunum illa. Ef nú væru fyrir hendi miklar olíubirgðir í landinu, öfugt við það sem oftast var þegar verðið var að hækka, hver borgar þann verðmismun sem er á birgðum og nýrri olíu? Kannske olíufélögin geri það? Mér finnst það frekar ótrúlegt. Líklegast er að nýtt verð komi ekki inn í myndina fyrr en birgðir eru uppseldar. Þá eru það væntanlegir notendur sem borga og þá er spurningin: Til hvers eru t.d. gasolía og svartolía notaðar hér á landi? Í fyrsta lagi til upphitunar íbúðarhúsnæðis og annars húsnæðis, í öðru lagi sem orkugjafi til fiskiskipaflotans og sem orkugjafi fyrir verksmiðjur og farartæki, og í þriðja lagi sem orkugjafi til rafmagnsframleiðslu þegar vatnsforða þrýtur við virkjanir eða þegar bilanir eiga sér stað á veitum.

Nú er sagt að innan við 10% þjóðarinnar búi við olíuupphitun í húsakynnum sínum. Þessi 10% eru nokkuð afmarkaður hópur þjóðarinnar. Hann er allur saman kominn þar sem bein grunnframleiðsla á sér stað. Það eru íbúar fiskframleiðslustaðanna á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og Austfjörðum ásamt með drjúgum hluta íbúa sveitanna, þ.e. bænda, sem búa við þessi skilyrði. Þetta fólk, sem stendur að stórum hluta að frumframleiðslu þjóðarinnar, býr við þau óbærilegu kjör að þurfa að kynda húsnæði sitt með olíu. Stærsti notandi gas- og svartolíu er fiskiskipaflotinn. Aðstaðan er mismunandi eftir því, hvort um svartolíu- og gasolíubrennslu er að ræða, en í báðum tilfellum er olían stór þáttur í rekstri útgerðar og þar með fiskverðs. Þriðji stórnotandi olíu, sem ég nefndi, er raforkuframleiðslan. Þessi notandi er orðinn lítill núna sem betur fer, en það er ekki það sem skiptir máli, heldur þáttur hans í þeim birgðum sem nú eru til í landinu af olíu. Ég læt mér detta í hug og geng út frá því sem vísu, að hin ábyrgu olíufélög hafi búið sig undir að geta útvegað drjúgan skerf af olíu til raforkuframleiðslu ef eins færi í ár, eins og reyndar blasti við í janúar, og fór á s.l. vetri, að virkjanir nýttust illa hér á suðvesturhálendinu sökum vatnsskorts, ef upp kæmi sú staða að grípa þyrfti til dísilvéla til raforkuframleiðslu til að afstýra því t.d. að álverið í Straumsvík stöðvaðist.

Nú þegar við blasir að olíuverð fer ört lækkandi á heimsmarkaði og jafnframt að hér á landi séu birgðir af olíu, sem ætlaðar voru til annarrar notkunar en þeirrar sem kemur til með að vera næstu mánuði, liggur í augum uppi að það verði að vera aðrir en þau 10% þjóðarinnar, sem enn búa við olíukyndingu á íbúðum sínum, sem greiða niður þær olíubirgðir sem nú eru í landinu. Ekki má það heldur koma fram í hækkuðu fiskverði til útgerðar ef olíufélögin liggja með olíubirgðir sem ætlaðar voru til að tryggja að nægjanleg raforka væri til staðar fyrir álverið í Straumsvík. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég hef rétt lokið máli mínu.

Það kemur ekki til mála að íbúar á köldu svæðunum, sem þurfa að kynda upp með olíu og búa jafnframt við hæsta raforkuverð bæði til hitunar og annarra nota, verði látnir borga niður olíubirgðir sem aldrei hafa verið ætlaðar þeim nema að mjög litlum hluta. Þessir aðilar þurfa þá að vita um hvernig verðlagningu olíunnar er háttað, hvernig og hvenær verðbreyting kemur fram hér miðað við hækkun eða lækkun erlendis. Ég vil því í lokin endurtaka aðra spurningu á þskj. 382, en hún er þannig: „Hvenær kemur lækkun fram í verði til neytenda hér á landi þegar olíuverð lækkar á heimsmarkaði, og hver er ástæðan fyrir því, að slík lækkun hefur ekki átt sér stað til neytenda hér?“

Að lokum skaðar ekki að geta þess, að bensín hefur hækkað hér á landi frá 2. janúar 1981 til dagsins í dag úr 5.95 kr. í 9.45 kr. eða um 58.85%.