09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að upplýsa hv. þm. Tryggva Gunnarsson. Hann lýsti því yfir að hann væri ókunnugur í þingsölum. Ég vil alls ekki láta það vera í huga hans að við séum samflokksmenn, ég og hæstv. viðskrh. (Gripið fram í: Nei, ég er búinn að átta mig á því.) Þú ert búinn að átta þig á því. (Gripið fram í.) Hitt vil ég endurtaka, að ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir hans svör. Þau voru greinargóð þó þau féllu ekki alveg í þann farveg sem ég hefði talið æskilegt, og ég tek reyndar undir það sem hv. þm. Tryggvi Gunnarsson sagði.

En í sambandi við það sem viðskrh. sagði nú síðast um að það væri í stjórnarsáttmála, að olíubirgðir skyldu auknar sem öryggisþáttur, sem ég tek vitaskuld undir, er alveg fráleitt, þó að reynt sé að tryggja olíubirgðir í landinu, að slíkt bitni á ákveðnum hópum, eins og nú blasir við ef ekki verða gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir í sambandi við olíuverð gagnvart bæði fiskiskipaflotanum og þá fyrst og fremst þeim notendum sem nota olíuna til upphitunar húsa. Mér finnst alveg fráleitt að kostnaður við olíubirgðir sem eru í landinu til að tryggja raforkuframleiðslu og til að tryggja að loðnufloti, sem ekki getur farið á sjó, geti komist í gang svo og verkfallsflotinn, sá kostnaður eigi að bitna á þeim sem þurfa að kynda hús upp með olíu.

Aðeins í lokin: Það var merkilegt að heyra það sem síðasti ræðumaður, hv. 5. landsk. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði, að olíuþjónustan í landinu væri 15–20% óhagstæðari. (Gripið fram í: Innflutningurinn.) Ætli það? Ég hef ekki beint aðstöðu til að mótmæla því með innflutninginn, en við vitum hitt náttúrlega, að þjónustan er 15 og jafnvel 30% óhagstæðari vegna þess fyrirkomulags sem er í landinu, þrefalt olíukerfi, og að einn aðalarmurinn af því er í eignarþátttöku formanns Sjálfstfl.