11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mikið var að hæstv. iðnrh. skyldi mæla fyrir þáltill. þeirri sem hér er á dagskrá. Ég var farinn að halda að hæstv. ráðh. væri hættur við að tala fyrir þessari till. — og var það nema von. Þessi þáltill. var lögð fram hér á Alþingi 11. des. árið 1981. Síðan hefur ekkert spurst til þessarar till. fyrr en í dag, á þriggja mánaða afmæli tillögunnar, að hún er tekin hér til umr. Hvað hefur dvalið „Orminn langa“? Fyrirvarð hæstv. ráðh. sig fyrir þessa till.? Í því tilfelli væri hæstv. ráðh. ekki alls varnað. Slíkur er hráskinnaleikur hæstv. iðnrh. í þessu máli. A.m.k. hefur hæstv. ráðh. ekki talið mikið atriði að hraða meðferð þessarar þáltill. eða að hún fengi eðlilega þinglega meðferð.

Hæstv. ráðh. skuldar hv. Alþingi skýringu á seinlæti hans í þessu máli sem þrátt fyrir allt varðar hagnýtingu á einum af mikilvægustu auðlindum landsins. Orkulindir landsins eru ein þeirra gæða sem okkur eru verðmætust. Aðeins lítill hluti þessara auðlinda, sem þjóðin á í vatnsföllum og jarðvarma, hefur verið virkjaður, en í orkulindum landsins er að finna grundvöll að nýrri sókn til bættra lífskjara líkt og sjávarútvegurinn var í upphafi þessarar aldar. Bætt lífskjör og atvinnuöryggi landsmanna eru höfuðmarkmið þeirrar atvinnustefnu sem fylgja þarf. Er því meginverkefnið nú að hagnýta hin gífurlegu verðmæti sem fólgin eru í orkulindum landsins.

Umræðan um orkumálin í dag byggist á þessu sjónarmiði. Þess vegna eru orkumálin mál málanna. Hér er um slíkt stórátak að ræða að einbeita þarf vilja og atorku þjóðarinnar til að fást við það. Það þarf að sameina þjóðina til átaka í málum sem svo mjög varða gengi hennar og framtíð. Ríkisstjórnin, hver sem hún er á hverjum tíma, verður að hafa forustu um slík stórmál. En því miður er þeirri forustu ekki fyrir að fara í dag. Þess vegna er vegferð þjóðarinnar í þessum efnum reikul og ráðlaus, svo að ekki sé meira sagt.

Sjálfstfl. hefur í stjórnarandstöðu mótað stefnu og lagt fram tillögur til að mæta þeim þörfum sem hin viðamiklu viðfangsefni krefjast. Ríkisstj. hefur ekki viljað brjóta odd af oflæti sínu og ganga til samstarfs við Sjálfstfl. um þessi mál. Ríkisstj. hefur beitt meirihlutavaldi sínu á Alþingi til að svæfa þessi mál eða koma í veg fyrir að þau hlytu þinglega meðferð. Samt sem áður hefur málatilbúnaður Sjálfstfl. haft sín áhrif í þessu efni. Ríkisstj. hefur ekki séð sér annað fært en taka nokkurt mið af hugmyndum og tillögum flokksins í eigin tillögugerð. En seinlæti og tregða hefur einkennt allar aðgerðir ríkisstj. í þessum efnum. Veldur þar mestu tvískinnungsháttur eða bein andstaða í stóriðjumálunum.

Á síðasta þingi fluttum við sjálfstæðismenn frv. um ný orkuver. Frv. kvað á um framkvæmdir í virkjunarmálum. Gert var ráð fyrir heildaráætlun um tiltekin verkefni. sem að væri stefnt að lokið yrði á þeim áratug sem þá var að hefjast. Hér var um að ræða stærsta átakið sem enn hefur verið gert til að nýta orkulindir landsins til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Þannig átti að vera tryggt að fullnægt væri þörfum hins almenna notanda. Með þessari aukningu vatnsvirkjunar átti að leysa af hólmi innflutta olíu bæði til húshitunar og til raforkuframleiðslu. Bent var á að slíkar orkuframkvæmdir gætu skapað möguleika á nýtingu raforku til framleiðslu á nýjum orkugjöfum í stað þeirra sem við flytjum inn, svo sem til rekstrar skipa og bifreiða. Þá var haft í huga að möguleikar gætu skapast til að nota rafmagn beint til að knýja samgöngutæki. En umfram þetta allt áttu orkuframkvæmdir þær, sem hér var um að ræða, að geta lagt grundvöll að stóraukinni iðnvæðingu, stóriðju og gjaldeyrisöflun í formi útfluttrar iðnaðarvöru. Það voru slíkar framkvæmdir sem gátu verið besta tryggingin fyrir bættum lífskjörum og atvinnuöryggi landsmanna. Hverjar voru þær framkvæmdir sem frv. þetta fól í sér? Þær voru raforkuver allt að 130 mw. í Jökulsá í Fljótsdal, raforkuver allt að 180 mw. í Blöndu, raforkuver allt að 130 mw. við Sultartanga og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar um allt að 70 mw. Þessar framkvæmdir námu samtals 710 mw. og var það rúmlega 100% aukning frá uppsettu afli í núverandi vatnsaflsvirkjunum sem nema samtals 680 mw.

Þegar frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi hafði ríkisstj. ekkert haft fram að færa á Alþingi í þessu efni. Ég bið menn að hafa þetta hugfast. Í umr. um frv. gat iðnrh. ekki fett fingur út í þessar framkvæmdir, enda ýtti frv. svo undir hæstv. ráðh. að hann var kominn sjálfur tveim mánuðum síðar með frv. sem fól í sér sömu virkjunarframkvæmdir. Það eina, sem hæstv. iðnrh. í raun og veru þóttist geta hengt hatt sinn á, var að frv. okkar sjálfstæðismanna kvað ekki á um röð virkjunarframkvæmda. Það var það eina. Gert hafði verið ráð fyrir heildaráætlun um þessi verkefni sem að yrði stefnt að lokið yrði á einum áratug, og framkvæmdaröð réðist af hagkvæmni sjónarmiðum eftir því sem nauðsyn krefði til að ná þessu marki. Þessi áætlun, sem fól í sér tvöföldun á uppsettu afli í vatnsvirkjunum landsmanna, hafði verið byggð á þeirri forsendu, að komið yrði á fót stóriðju til að hagnýta orkuna frá þessum virkjunum. Röð virkjunarframkvæmda hlaut því að verða ákveðin með hliðsjón af framvindu stóriðjumálanna. Ríkisstj. varð ber að loddaraleik í tali sínu um röðun virkjunarframkvæmda á síðasta þingi. Þetta kom berlega í ljós þegar ríkisstj. lagði fram í maímánuði s.l. frv. sitt að lögum um raforkuver. Þar var ekki heldur að finna ákvæði um röð virkjunarframkvæmda, enda lá þá ekkert fyrir um fyrirætlanir ríkisstj. í stóriðjumálum. Hér var um að ræða sömu virkjanir og í frv. okkar sjálfstæðismanna og skyldi málið koma aftur til kasta Alþingis til að ákveða framkvæmdaröðina eins og þar var kveðið á um. Það er það sem gerst hefur með þeirri till. til þál. sem við nú ræðum. Ég mun koma nánar að því síðar.

Á síðasta þingi fluttum við sjálfstæðismenn þáltill. um stefnumótun í stóriðjumálum. Till. hlaut ekki afgreiðslu frekar en önnur stórmál okkar. Á þessu þingi höfum við sjálfstæðismenn borið fram svipaða þáltill. um hagnýtingu orkulinda landsins til stóriðju. Þessi till. gerir ráð fyrir að komið verði á fót. a. m. k. 3–4 nýjum stóriðjuverum á næstu 15 árum á þeim stöðum á landinu þar sem þess er þörf og staðhættir og aðrar aðstæður henta, enda sé hægt að flytja þangað nægilega orku á hagkvæman og öruggan hátt. Þá er gert ráð fyrir að stefnt verði að því að þau stóriðjuver, sem fyrir eru í landinu, verði stækkuð sem fyrst. Till. mælir svo fyrir, að forgöngu um hagnýtingu orkulinda landsins til stóriðju skuli hafa sérstök nefnd, stóriðjunefnd, sem Alþingi kjósi. Efni þessarar till. verður ekki rakið hér sérstaklega af mér. Mönnum má vera það í fersku minni, að hv. 1. þm. Reykv. gerði þessari till. rækileg skil þegar hann mælti fyrir henni í fyrradag. Eftir að sjálfstæðismenn á tveim þingum í röð hafa borið fram till. til þál. um stóriðjumálin rumskar ríkisstj. loks og lætur til sín heyra í þessum efnum, sem eru svo veigamikil og raunar forsenda fyrir því sem verið er að tala um varðandi hagnýtingu orkulinda landsins. Þetta gerist með till. þeirri sem nú er hér á dagskrá, og kem ég síðar nánar að því.

Á síðasta þingi bárum við sjálfstæðismenn fram frv. til orkulaga. Frv. þetta fól í sér tillögur um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Það var að stofni til það sama sem sérstök nefnd skipuð af þáv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh. Gunnari Thoroddsen, árið 1977 gerði tillögu um. Frv. þetta fól í sér margs konar nýmæli um hin veigamestu atriði. Það gerir t.d. ráð fyrir langtímaáætlun um orkubúskap þjóðarinnar sem gerð yrði til 10 ára og skyldi árlega leggja fyrir Alþingi skýrslu um framvindu áætlunarinnar. Frv. fól í sér breytingar á skipulagi Orkustofnunar sem miðuðu í meginatriðum að því að styrkja stjórn stofnunarinnar, hnitmiða verksvið hennar við rannsóknir á orkulindum landsins, áætlanagerð um orkubúskapinn og aðstoð og ráðgjöf við stefnumótun í orkumálum og að efla áhrifaval stofnunarinnar og þátt hennar í heildarstjórn orkumálanna. Þá var gert ráð fyrir að staða Landsvirkjunar yrði styrkt þannig að fyrirtækin hefðu á hendi orkuvinnslu hvar sem væri á landinu, þar sem landshlutafyrirtæki kæmu til greina, ef landshlutafyrirtæki gætu hvert á sinu veitusvæði reist og rekið orkuver. Hér verða ekki talin öll þau veigamiklu nýmæli eða rakið sérstaklega það efni sem frv. þetta hefur að geyma, en frv. náði ekki afgreiðslu á síðasta Alþingi. Hæstv. ríkisstj. sá um að svæfa þetta mál líka.

Þó að ekkert gerist í skipulagi orkumálanna virðast allir vera sammála um að eitthvað þurfi að gera. Meira að segja segir svo í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. að setja skuli lög um skipulag orkumála, um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning, þar sem m.a. verði ákveðin samræmd heildarstjórn þessara mála. En hvers vegna skeður ekkert í skipulagsmálunum?

Til þess að svara þessu verður að hafa í huga þann ágreining sem hefur verið um skipulag orkuvinnslunnar. Annars vegar er það sjónarmið, að meginorkuframleiðslan eigi að vera á einni hendi. Hins vegar er það sjónarmið, að þótt eitt aðalorkufyrirtæki verði í landinu skuli öðrum heimilt að setja á stofn og reka raforkuver ef vilji og geta er fyrir hendi. Hæstv. forsrh. hefur verið sporgöngumaður þessarar stefnu á undanförnum árum. Þess er skemmst að minnast, að þegar hann var iðnrh. setti hann á stofn orkunefndir fyrir hina ýmsu landshluta til að vinna að því að koma á fót landshlutafyrirtækjum sem hefðu m.a. með að gera raforkuvinnsluna. Þessi stefna komst í framkvæmd á Vestfjörðum með stofnun Orkubús Vestfjarða, svo sem kunnugt er, og þróun í þessa átt á eftir að halda áfram, sbr. þáltill. um Orkubú Suðurnesja sem hefur verið lögð fram á þessu þingi.

Hæstv. iðnrh. hefur aftur á móti verið sporgöngumaður fyrir þeirri stefnu, að meginraforkuvinnslan skuli öll vera á hendi eins aðila í landinu. Af þessari ástæðu er skipulag raforkumálanna í dag í sjálfheldu. Hæstv. iðnrh. kveinkar sér við að fylgja stefnu hæstv. forsrh. um skipulag orkumálanna og hæstv. forsrh. veigrar sér við að framfylgja undir sínu forsæti stefnu hæstv. iðnrh. Afleiðingin af skipulagsleysinu í orkumálunum er hörmuleg. Hún er bókstaflega hörmuleg. Skipulagsleysið hamlar í ýmsum efnum eðlilegum vinnubrögðum í orkumálum til trafala og stórskaða fyrir framvindu þessara mála og þjóðarbúið í heild. Ríkisstj. virðist stefnulaus og ráðlaus í þessum málum. Í bili virðist ríkisstj. hafa gefist upp við að koma á lögbundnu skipulagi í þessum efnum. Klórað er í bakkann í lögum um raforkuver frá síðasta þingi þar sem kveðið er á um að ríkisstj. sé heimilt að sem ja við Landsvirkjun um að reisa og reka Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, uns þeir samningar hafa tekist skuli Rafmagnsveitur ríkisins hafa með höndum rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir í nánu samráði við Landsvirkjun.

Allt ber þetta vott um ráðleysi og fálm í svo þýðingarmiklum málum sem hér er um að ræða. Þetta er ástand sem ekki er viðunandi. Það dugar ekki að skipulagið sé innbyggt í iðnrh. Það er a.m.k. ekki varanleg skipan því að ráðherrar hljóta að koma og fara. Skipulagsmálunum verður að koma í höfn. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn flutt á ný á þessu þingi frv. okkar til orkulaga til að freista þess að ráða hér bót á. Hins vegar er ekkert að finna um skipulagsmálin í þeirri þáltill. sem hér er á dagskrá. Bendir það til þess, að ágreiningur hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. um skipulagsmálin sé enn óleystur.

Jafnframt því sem við sjálfstæðismenn höfum gert tillögu í virkjunarmálunum höfum við ítrekað lagt fram till. til þál. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar. Þar var gert ráð fyrir að ríkisstj. fæli Orkustofnun að gera áætlun um framkvæmdir í orkumálum vegna húshitunar. Skyldi áætlunin gerð til næstu fjögurra ára og miðað að því að innlendir orkugjafar kæmu í stað olíu, ódýrari innfluttir orkugjafar verði nýttir í stað dýrari og orkunýting verði bætt. Áætlun þessari var ætlað að ná til tiltekinna verkefna, svo sem jarðhitaleitar, framkvæmda við hitaveitur, lagningar aðalháspennulína rafmagns, styrkingar rafdreifikerfisins, lúkningar sveitarafvæðingar og orkusparandi aðgerða. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta efnislega hér, en nefni það aðeins sem dæmi um verkefni sem ríkisstj. leggur kollhúfur við. Slíkar tillögur okkar sjálfstæðismanna hafa ekki náð fram að ganga.

Frammistaða ríkisstj. við að létta byrðar þeirra, sem hita hús sín með olíu, er kapítuli út af fyrir sig. Á næstsíðasta þingi höfðum við sjálfstæðismenn forustu um flutning frv. til l. um niðurgreiðslu olíu til upphitunar húsa. Meðflm. voru úr öllum flokkum. Hefði því mátt ætla að málið næði fram að ganga. Frv. þetta var nýflutt þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Einn flm. frv. var þá — hvað haldið þið? — viðskrh. sem fer með þessi mál. Þar með átti málinu að vera tryggður framgangur þar sem það heyrði undir þennan ráðh. Því var ekki að heilsa. Þó að menn væru viðmælandi í orkumálunum áður en þeir fóru í hæstv. núv. ríkisstj. umhverfðust þeir þegar þangað var komið. Það er ekki nóg með að þeir hlaupi frá góðum málum, heldur gerast þeir dragbítar í þeim sömu efnum, eins og glöggt hefur mátt marka af framferði hæstv. viðskrh. varðandi niðurgreiðslu olíu til upphitunar húsa, svo sem einkar glöggt kom fram hér á Alþingi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1982. (Viðskrh.: Við vorum sammála.) Þess skal þó getið, hæstv. viðskrh., og það ætlaði ég að segja þó að hæstv. viðskrh. gerði ekki vart við sig, að þess ber að geta sem til bóta er. Hæstv. viðskrh. hefur nú loks látið til leiðast að hækka olíustyrkinn. Það er til bóta og því hef ég lýst áður hér á hv. Alþingi og vil ekki á neinn hátt draga úr því. Ekki veitir af að láta hæstv. ráðh. njóta sannmælis.

Í till. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, sem við nú ræðum, er vísað til 2. gr. laga nr. 60 frá 1981, um raforkuver. Það verður því ekki komist hjá því að víkja nokkuð að þessum lögum.

Meginatriði þessara laga voru fólgin í Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun sem þáltill. þessi fjallar líka um og hæstv. iðnrh. skýrði frá í ræðu sinni áðan. Auk þess var í lögunum heimild til stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar sem þegar hefur verið framkvæmd og er því eðlilega ekki að finna í þeirri þáltill. sem við nú ræðum. Þannig fjalla lögin um raforkuver um sömu virkjunarframkvæmdir og gert var ráð fyrir í frv. okkar sjálfstæðismanna á síðasta þingi um ný orkuver. Það er ekki nema gott um það að segja, að ríkisstj. taki upp tillögugerð okkar sjálfstæðismanna í þessum efnum. Ekki verður hún ásökuð fyrir það. En auðvitað hefði verið eðlilegra að styðja frv. okkar sjálfstæðismanna þannig að það hefði getað orðið lögfest án allra vafninga. En ríkisstj. fór þá leið að koma seint og síðar meir með eigið frv. með látbragðaleik sem átti að dreifa athyglinni frá forustu okkar sjálfstæðismanna í þessu efni. Þess vegna eru í lögunum um raforkuver ýmis atriði sem eru fullkomin sýndarmennska — ég endurtek: fullkomin sýndarmennska.

Þar er t.d. að finna ákvæði sem heimilar Landsvirkjun að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Þetta þurfti ekki að setja í lög vegna þess að í lögum um Landsvirkjun nr. 59/1965 er heimild að finna fyrir Landsvirkjun til að gera það sem hér er tíundað. Það er heimild í Landsvirkjunarlögunum. Auk þess er nokkuð vafasamt að vera að gera því skóna, að Landsvirkjun hafi ekki haft heimild áður til að hagnýta sér ákvæði um þessi efni sem eru í gildandi lögum um Landsvirkjun. En sýndarmennskan ríður ekki við einteyming í þessu efni. 1. tölul. í þeirri þáltill., sem hér er á dagskrá, fjallar einmitt um þetta sama atriði, þar sem segir að samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjunum verði unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.

Hins vegar verður að segja að ríkisstj. sé ekki alls varnað í þessum efnum því að í þáltill., sem við hér ræðum, er ekki að finna öll sýndarmennskuákvæðin sem eru í lögum um raforkuver frá síðasta þingi. Þannig er í lögunum ákvæði um að ríkisstj. geti heimilað Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun og Orkubúi Vestfjarða að reisa varastöðvar með allt að 50 mw. afli á næstu 10 árum í því skyni að tryggja viðunandi öryggi notenda gagnvart bilunum. Þetta er sett í lögin þrátt fyrir að ekki hefur viðgengist að setja í lög frá Alþingi ef einhver orkuveita keypti dísilvél til að koma sér upp varaafli. Hins vegar er í orkulögum ákvæði um að lagaheimild þurfi til þess, eins og það er orðað þar, að reisa og reka orkuver sem er stærra en 2 mw. Ég veit ekki til að þessu ákvæði hafi verið beitt nema þegar um vatnsaflsvirkjanir er að ræða, en þá þarf að reisa mannvirki eins og við vitum. Þessu ákvæði hefur ekki verið beitt til að koma upp varaafli í formi dísilstöðva. Þegar talað er um varaafl í þrengri merkingu, og ég held að það verði að leggja þá merkingu í þetta, er átt við varaafl sem er að jafnaði á staðnum eða þéttbýlisstöðunum og fengið er með vélum sem þar eru settar upp. Það er með tilburðum sem þessum sem ríkisstj. taldi sig vera að leggja til meiri framkvæmdir með lögum um raforkuver en við sjálfstæðismenn höfðum áður gert tillögur um í frv. okkar um ný orkuver. Það verður að segja ríkisstj. til hróss, að allar sýndarmennskutillögur sínar endurtekur hún ekki í þessari þáltill. sem hér er á dagskrá og ekki er hér heldur að finna málamyndartillöguna um Villinganesvirkjun, stækkun Sigölduvirkjunar og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar.

Eins og ég gat um áður fól frv. okkar sjálfstæðismanna á síðasta þingi um ný orkuver ekki í sér röðun virkjunarframkvæmda. Þetta kom til af því, að ekkert lá þá fyrir um fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir í landinu. Virkjunarframkvæmdir hlutu að verða ákveðnar með hliðsjón af framvindu stóriðjumála. Með tilliti til þessa lögðum við sjálfstæðismenn fram á síðasta þingi till. okkar til þál. um stefnumótun í stóriðjumálum, eins og ég áður gat um. Með því að ríkisstj. hafði ekkert gert í stóriðjumálunum var hún ekki heldur þess umkomin að leggja til röðun framkvæmda í frv. um raforkuver sem hún lagði fram í maí s.l. Iðnrh. hefur nú upplýst á Alþingi — hann gerði það á síðasta hausti — að mál þetta hefði verið á borði ríkisstj. síðan um miðjan okt. s.l. Ætla má að ríkisstj. hafi sýnt málinu einhverja hugsun, a.m.k. allt frá því að við sjálfstæðismenn fluttum frv. um ný orkuver í mars s.l., ef ekki hefur örlað á hugsun um þetta efni fyrr. Alla vega hefur ríkisstj. átt að hafa ærinn tíma til að fást við þau viðfangsefni sem sérstaka áherslu skyldi leggja á samkv. stjórnarsáttmálanum. Það hefði því mátt vænta fullburða niðurstöðu þegar ríkisstj. hefur sig nú loks upp í að kveða upp úr um framkvæmdaröð þeirra virkjana sem hér um ræðir. En því er ekki að heilsa vegna þess að ríkisstj. hefur ekki sýnt raunhæfa tilburði til undirbúnings því að koma upp stóriðju til að skapa grundvöll að þessum virkjunum. Þess vegna hefði ríkisstj. eins getað ákveðið röðun virkjunarframkvæmda á s.l. vetri þó að hún hefði þá ekkert aðhafst í stóriðjumálunum. Sú ákvörðun hefði að vísu verið byggð á sandi, en það er einmitt það sem nú er að gerast. Þessi þáltill., í því formi sem hún er núna, er byggð á sandi.

Í lögum um orkuver var tekið fram, að áður en ákveðin yrði framkvæmdaröð virkjana skyldi liggja fyrir greinargerð frá Landsvirkjun, Orkustofnun og Rafmagnsveitum ríkisins um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Greinargerðir liggja fyrir og niðurstöður þeirra fylgja þáltill. þeirri sem við nú ræðum. Með tilliti til þess, að lögin um raforkuver gera ráð fyrir að ríkisstj. semji við Landsvirkjun um að reisa og reka þær vatnsaflsvirkjanir sem hér um ræðir er forvitnilegast að líta á niðurstöður Landsvirkjunar um röðun virkjunarframkvæmda. Við skulum nú gera það örlítið.

Niðurstöður Landsvirkjunar bera vott um hve röðun virkjunarframkvæmdanna er óraunhæf þegar ekki liggur meira fyrir um stóriðjuframkvæmdir til hagnýtingar orkunnar en raun ber vitni. Um þetta segir í yfirliti og niðurstöðum Landsvirkjunar, eins og það er þar orðað, að þar sem mikil óvissa ríki í markaðsþróun hafi verið valið að lýsa því orkusölusvigrúmi umfram þarfir hins almenna markaðar sem skapa megi með mismunandi hraðri uppbyggingu orkuöflunarkerfisins. Sé þá einungis reiknað með þeim hraða sem að mati Landsvirkjunar liggi innan þeirra marka sem ráða megi við með innlendu vinnuafli og á fjárhagslega viðunandi grundvelli. Þetta þýðir á venjulegu máli að Landsvirkjun sé að meta hvað séu mögulegar miklar framkvæmdir í virkjunarmálunum af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum ef forsendur framkvæmdanna séu fyrir hendi. „Forsendur framkvæmdanna eru, “segir í niðurstöðum Landsvirkjunar, „að tryggð sé hagnýting orkunnar með stóriðju, en ekkert liggur fyrir um stóriðjuframkvæmdir til þess að byggja á í þessu efni.“ Þetta segir í niðurstöðum Landsvirkjunar.

Í niðurstöðum í skýrslu Landsvirkjunar segir enn fremur að hagkvæmast virðist tvímælalaust vera að næstu aðgerðir í raforkuöflun landsmanna verði stíflugerð við Sultartanga, vatnaveitur til Þórisvatns, þ.e. Kvíslaveita, og stækkun Þórisvatnsmiðlunar. Um þetta hygg ég að geti naumast orðið ágreiningur. Um þetta efni er kveðið á í 1. tölul. þáltill., eins og ég hef áður raunar vikið að. En í skýrslu Landsvirkjunar segir að samhliða þessum aðgerðum eða í beinu framhaldi af þeim sé nauðsynlegt að auka uppsett afl á Þjórsársvæðinu. Hvað þýðir það? Skýrsla Landsvirkjunar gefur skýringu á því. Þar segir að stækkun Búrfellsvirkjunar virðist vera mun hagstæðari kostur en stækkun Sigölduvirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar sem gert er ráð fyrir í lögum um raforkuver frá síðasta ári. Komi þar einkum til að stækkun Búrfellsvirkjunar bæti aflmisvægið, sem nú ríkir milli þessara virkjana, og gefi auk þess aukna orkuvinnslugetu, sem út af fyrir sig geti réttlætt þá fjárfestingu sem til þarf. Þess megi og geta, að stækkun Búrfells kosti mjög ámóta upphæð og stækkanir Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana sem ekki skili aukinni orkuvinnslu inn á hið samtengda landskerfi. Landsvirkjun leggur því eindregið til að aflað verði lagaheimildar fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar að afli allt að 140 mw. Ég leyfi mér nú að spyrja hæstv. iðnrh. hvort þetta þýði að Landsvirkjun leggi til að næsta stórvirkjun verði reist á Þjórsársvæðinu, að vísu ekki Sultartangavirkjun með allt að 130 mw. afli, heldur Búrfellsvirkjun með allt að 140 mw. afli.

Ég held áfram með skýrslu og niðurstöður Landsvirkjunar. Segir í skýrslu Landsvirkjunar að þegar á heildina sé litið bendi athuganir fyrirtækisins til þess, að Blönduvirkjun, þ.e. tilhögun 1, sé hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem næsta stórvirkjun fyrir landskerfið. Ráði þar fyrst og fremst lægri framleiðslukostnaður, auk góðrar staðsetningar í landskerfinu. Tekið er fram að Blönduvirkjun gæti hafið orkuframleiðslu í fyrsta lagi árið 1987, en bætt er við að tímasetning virkjunarinnar að öðru leyti hljóti að ráðast af markaðsaðstæðum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvað það þýði, að tímasetning Blönduvirkjunar ráðist af markaðsaðstæðum. Er það ætlun Landsvirkjunar að ekki verði ráðist í Blönduvirkjun fyrr en séð sé fyrir orkunýtingunni með stóriðju?

Í skýrslu Landsvirkjunar skín alls staðar í gegn — bókstaflega alls staðar — að hún tetur sig vera að vinna óvinnandi verk þegar henni er ætlað að.gera tillögur um röðun virkjunarframkvæmda þar sem ekkert liggi fyrir um stofnun og staðsetningu stóriðjufyrirtækja til hagnýtingar orkunnar. Þannig segir m.a. í skýrslunni að Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun virðast, eins og það er þar orðað, auk stækkunar Búrfellsvirkjunar, vera hagkvæmar frá tæknilegu og fjárhagslegu sjónarmiði, en röðun þessara virkjana og tímasetning lengra fram í tímann í framhaldi af aðgerðum á Þjórsársvæðinu og Blönduvirkjun sé hins vegar fyrst og fremst háð uppbyggingu markaðarins og staðsetningu nýrrar stóriðju. Fyrr en fyrir liggi ákveðnar forsendur um stærð og hagkvæmni aukins iðnaðarmarkaðar sé varla hægt að gera marktækan samanburð á því, hver þessara virkjana ætti að koma næst á eftir Blönduvirkjun.

Loks segir í skýrslu Landsvirkjunar að athuganir fyrirtækisins bendi að öllu samanlögðu eindregið til þess, að hröð uppbygging í orkuöflun sé fjárhagslega og þjóðhagslega hagkvæm. En Landsvirkjun hefur fyrirvara um þessa niðurstöðu. Hann er að viðunandi iðnaðarmarkaður verði fyrir hendi, eins og það er orðað í skýrslunni. Landsvirkjun leggur svo áherslu á að áhætta virkjunarframkvæmda verði því meiri sem ráðist er í meiri virkjunarframkvæmdir, ef þessar forsendur bregðist.

Hér erum við komnir að því sem skiptir meginmáll. Virkjunarframkvæmdir fara eftir því, hver þörfin er fyrir þær. Samkvæmt orkuspá nægir sú raforka, sem við ráðum yfir frá eldri virkjunum, til að fullnægja fram á næsta áratug þörfum okkar til almennrar notkunar, heimilisnotkunar, almenns iðnaðar svo og til þeirrar stóriðju sem við höfum í landinu í dag. Meiri háttar nýjar vatnsaflsvirkjanir þurfa því ekki að koma til á þessu tímabili nema nýjar þarfir komi til. Allar umræður og fyrirætlanir um meiri háttar vatnsaflsvirkjanir nú byggjast því á þeirri forsendu, að nýjar þarfir komi til. Nú er gert ráð fyrir að þessar þarfir komi til í formi orkufreks iðnaðar eða stóriðju. Þegar meta á gildi þáltill. þeirrar, sem hér er til umr., skiptir því meginmáli að gera sér grein fyrir hvernig staðan er í stóriðjumálunum í dag. Auðvitað skiptir það meginmáli.

Það var fyrir forgöngu Sjálfstfl. sem landsmenn fóru inn á braut stóriðju við stofnun álversins í Straumsvík og byggingu járnblendiverksmiðjunnar við Grundartanga. Þess gerist ekki þörf að rifja þetta upp hér. Ég ætla ekki heldur nú að fara að ræða sérstaklega þær deilur og ágreining sem voru á sínum tíma um framkvæmdir þessar. En við skulum hafa í huga, að allt frá byrjun stóriðju hér á landi voru annars vegar bjartsýnismenn og raunsæismenn í þessum efnum og hins vegar úrtölumenn og afturhaldsseggir. Meðan Sjálfstfl. átti aðild að ríkisstjórn var unnið markvisst og skipulega að stóriðjumálunum. Hins vegar verða þáttaskipti í þessum efnum þegar vinstri flokkarnir taka völdin árið 1978. Síðan, í tíð núv. hæstv. iðnrh., hefur brugðið til hins verra.

Þegar árið 1978 vann hæstv. núv. iðnrh. það óhappaverk að leggja niður viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Síðan hefur hæstv. iðnrh. ungað út nefndum, hvort sem það heitir orkunýtingarnefnd, staðarvalsnefnd, kísilmálmnefnd eða eitthvað annað, allt eftir því hvaða möppur er verið að fylla af pappírsgögnum á hverjum tíma. Allt er þetta látið heita „undirbúningur undir stóriðjuframkvæmdir í landinu.“ Árangurinn af þessu er ekki annar en sá, að segja má að í besta tilfelli sé um hagkvæmniathugun að ræða, svo sem talað er um í 4. tölul. þáltill. þeirrar, sem við nú ræðum. Hér er því ekki hægt að festa hendur á neinu sem gæti verið forsenda eða grundvöllur fyrir orkunýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem þáltill. fjallar um. Til þess að svo hefði verið hefði nú a.m.k. þurft að vera komið til samræmdra samningsviðræðna um stóriðjufyrirtæki varðandi eignaraðild, orkukaup, staðsetningu stóriðjuvera, markaðsmál og fleira. En engu af þessu er fyrir að fara. Í raun og veru liggur ekkert fyrir um stóriðjufyrirtæki til grundvallar þeim vatnsaflsvirkjunum sem þáltill. fjallar um, hvað þá til ákvörðunar um röðun framkvæmdanna.

Skýringin á þessu er sú, að hæstv. iðnrh. dregur fæturna í stóriðjumálunum. Hæstv. ráðh. er fulltrúi afturhaldsseggjanna í stóriðjumálunum. Hann er fulltrúi úrtöluaflanna. Hann er fulltrúi þeirra sem vilja tefja og þvælast fyrir í þessum efnum. Andstæðingar stóriðju geta verið harla ánægðir með hæstv. iðnrh. Það fer ekki hjá því. En ég spyr: Er þá hæstv. iðnrh. ánægður með sjálfan sig? Ég spyr ekki að ástæðulausu. Ég spyr vegna þess að hæstv. iðnrh. segist vilja stóriðju. Hann var að segja það rétt áðan. En það er eitt að vilja og annað að framkvæma. Við viljum hagnýta þau náttúruauðæfi sem land okkar hefur að bjóða. Við viljum hagnýta orkulindirnar til að efla hagsæld og atvinnuöryggi landsmanna. Þess vegna tölum við um þær stórvirkjanir sem þáltill. þessi fjallar um. Við viljum tvöfalda uppsett afl í orkuverum landsins á næstu 10–15 árum. Þess vegna viljum við á þessu tímabili reisa þær vatnsaflsvirkjanir sem þáltill. fjallar um. En það er meira en að segja það. Vandinn er að koma þessu í framkvæmd, og spurningin er um fjármögnun þessara framkvæmda. Spurningin er um fjármögnunina, og þar skilur á milli feigs og ófeigs í afstöðunni til stóriðju.

Þegar við tölum um fjármögnunina í þessu sambandi verðum við að hafa í huga að fjármagnsins er þörf bæði vegna fjárfestingar í orkuverunum sjálfum og fjárfestingar í stóriðjuverunum. Talið er að fjárfestingin í sjálfum stóriðjuframkvæmdunum. Í þeim vatnsvirkjunum, sem þáltill. þessi fjallar um, og tilsvarandi stóriðjuverum er um gífurlega fjárfestingu að ræða á okkar mælikvarða. Ég held að allir hljóti að vera sammála um þetta. Ætla má að ein álbræðsla álíka stór og álbræðslan í Straumsvík og vatnsvirkjun, sem reisa þarf til að sjá henni fyrir orku, geti kostað samtals álíka mikið og nemur nú öllum erlendum skuldum landsins. En það er um að ræða meira en eina álbræðslu og eina vatnsaflsvirkjun.

Við erum að tala um nokkrar virkjanir og nokkrar álbræðslur eða samsvarandi stóriðjuver í öðrum greinum sem reist verða á 10–15 árum. Það er ærið viðfangsefni að fjármagna vatnsaflsvirkjanirnar, sem hljóta að vera í eigu landsmanna, með erlendum lánum þó að ekki komi til að fjármagna stóriðjuverin að fullu á sama veg. Þegar af þeirri ástæðu hlýtur að verða að fjármagna verulegan hluta stóriðjuveranna í formi eignaraðildar útlendinga að fyrirtækjunum. Það eru takmörk fyrir því, hvað fært er og hyggilegt að stofna til mikillar skuldasöfnunar erlendis. Auk þess hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað er réttlætanlegt fyrir okkur Íslendinga að taka mikla áhættu í slíkum stórrekstri sem hér er um að ræða, miðað við okkar aðstæður. Okkar andsvar við slíkum vanda hlýtur að vera fólgið í því að leita í fyrstu eftir áhættufjármagni í formi erlendrar eignaraðildar að stóriðjuverunum.

Það, sem ég hef hér sagt um fjármögnun og eignaraðild útlendinga í stóriðjufyrirtækjum, tekur mið af því mikla átaki sem um er að ræða með tvöföldun á uppsettu afli í orkuverum landsins, ef reistar eru þrjár vatnsaflsvirkjanir samkv. þessari þáltill. á næstu 10–15 árum. Ef það er ætlunin — ég legg áherslu á það: ef það er ætlunin verður það ekki framkvæmt nema með miklu áhættufjármagni í formi eignaraðildar að stóriðjufyrirtækjum. Ef mönnum er alvara með þáltill. þessa verða þeir að gera ráð fyrir mikilli þátttöku útlendinga í stóriðju hér á landi til að byrja með. Ef hafnað er erlendri eignaraðild er tillagan, sem við nú ræðum, hrein sýndarmennska, yfirskin og loddaraleikur af verstu tegund. Annað mál er ef ætlunin er að fara hægar í sakirnar svo að stóriðjuframkvæmdir nemi ekki meira en erlend skuldasöfnun leyfir og áhætta verði ekki meiri en þjóðin ræður við. En þá er líka um aðra stefnu að ræða í stóriðjumálunum en þáltill., sem hér er á dagskrá, er miðuð við. Ef við ætlum að miða þetta við eigin getu er það önnur stefna en hæstv. iðnrh. er hér að mæla fyrir, ef hann meinar eitthvað með því sem hann er að segja. En þá þarf ekki að ræða tvöföldun á uppsettu afli í orkuverum landsins, það er allt önnur stefna.

Þó að við Íslendingar höfum nú þegar nokkra reynslu af stóriðju, sem er ómetanleg, verðum við að gera ráð fyrir að áfram þurfum við að leita samvinnu við útlendinga í þessum efnum. Hér hlýtur ýmislegt að koma til greina. Gæti það verið á sviði tækni þar sem við höfum ekki áður aflað okkur nægilegrar reynslu. Það gæti verið nauðsynlegt að koma á samvinnu við erlenda aðila um sölu- og markaðsmál. Eignaraðild Íslendinga að stóriðjufyrirtækjum og samstarfssamningar við útlendinga um önnur atriði hljóta að ráðast af eðli máls og aðstæðum á hverjum tíma. Margvíslegir kostir geta því komið til greina. Hvort og að hve miklu leyti við viljum eiga samvinnu við erlenda aðila að þessu leyti mun því eingöngu fara eftir mati manna hverju sinni á því, hve mikla áhættu við viljum taka og hvort hagkvæmt geti verið af öðrum ástæðum. Þar sem þetta val er algerlega í okkar höndum ættu menn að geta rætt það fordómalaust með raunsæissjónarmið ein að leiðarljósi.

Rétt er að stefna að því með samningum að Íslendingar eignist stóriðjufyrirtækin í landi sínu eftir því sem tímar líða og möguleikar eru fyrir hendi. Hafa verður jafnan í huga að farsælast hlýtur að vera að atvinnureksturinn hér á landi sé að sem mestu leyti í höndum innlendra aðila. Ætla mætti að allir þeir, sem í raun og veru vilja stóriðju á Íslandi, gætu verið sammála um þessi vinnubrögð og þessa stefnu. Annað mál er það, að þeir, sem hampa nú mest íslenskri eignaraðild að stóriðju hér á landi, eru einmitt þeir sem hafa verið mestu dragbítarnir og svarnir andstæðingar stóriðjuframkvæmda í landinu. Þessir menn, með flokk hæstv. iðnrh. í fararbroddi, hafa raunar ekki viljað neina eignaraðild útlendinga í stóriðju hér á landi. Ef farið hefði verið að ráðum þessara manna væri engin stóriðja eða stórvirkjanir enn í landinu, og ef farið hefði verið að ráðum þessara manna hefðu ekki verið sköpuð skilyrði og grundvöllur fyrir stóriðju Íslendinga sjálfra í landinu. Þannig hefur leiðin til ótvíræðs íslensks forræðis í orkufrekum iðnaði legið í hagnýtingu erlends áhættufjármagns.

Hafa verður í huga að þegar hafist var handa um fyrsta áfangann í orkufrekum iðnaði hér á landi með byggingu álbræðslunnar við Straumsvík var þátttaka erlendra aðila óhjákvæmileg, enda skorti Íslendinga bæði fjármagn, tækniþekkingu, markaðsaðstöðu og aðgang að hráefni til að geta einir lagt út í slíkan rekstur. Með því hefði verið tekin meiri fjárhagsleg áhætta en verjandi hefði verið, og er reyndar mjög ósennilegt að erlendar lánastofnanir hefðu fengist til að hætta fé sínu í slíkt fyrirtæki. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég legg áherslu á þetta: Margs konar óvissa, sem hlaut að vera fyrir hendi þegar fyrstu skrefin voru stigin, hefur vikið fyrir traustri þekkingu og reynslu okkar sjálfra og annarra á skilyrðum og hagkvæmni þessa iðnaðar hér á landi. Eftir að fyrsti ísinn hafði verið brotinn með byggingu álbræðslunnar, sem er algerlega í erlendri eigu og rekin án nokkurrar fjárhagsáhættu Íslendinga sjálfra, treystum við okkur til þess að ráðast í nýtt fyrirtæki, járnblendiverksmiðjuna, þar sem íslenska ríkið er meirihlutaaðili og verulegur hluti áhættunnar á okkar herðum. Samt byggjum við þar enn á samningum um tækniþjónustu erlends samstarfsaðila og treystum á markaðskerfi hans til að tryggja sölu framleiðslunnar. Þannig mun aðstaða okkar til að taka á okkur vaxandi hluta af fjármögnun, áhættu og stjórnun þessa iðnaðar batna með hverju skrefi sem stigið er fram á við. Þannig hefur stefna þeirra manna, sem bornir hafa verið þeim sökum að vilja leiða útlendinga til öndvegis í atvinnumálum landsins, verið í raun og veru skilyrði þess og eina færa leiðin að því marki að ná frumkvæði og íslensku forræði í stóriðjumálunum.

Umræðan um stóriðju á Íslandi er nú frábrugðin því sem fyrrum var. Nú kveða menn ekki upp úr um andstöðu sína við stóriðju eins og áður var. Nú hafa menn ekki hátt um slíkt. Þar kemur margt til. Reynsla okkar af stóriðju hefur þegar afsannað stóryrði og hrakspár þeirra sem voru á móti því, að álverið í Straumsvík yrði reist. Það er erfitt að mæla gegn því, að hagnýting orkulinda landsins feli nú í sér mestu möguleikana til bættra lífskjara og atvinnuöryggis landsmanna. Það er erfitt að neita því, að vaxtarbroddur íslensks efnahagslífs sé nú fólginn í hagnýtingu orkulinda landsins. Það er ekki sigurstranglegt að berjast gegn þeirri stefnu okkar sjálfstæðismanna að gera nú stórátak til hagnýtingar orkulinda landsins. Ef menn játa í orði réttmæti þessarar stefnu stoðar ekki að segjast vera andvígir stóriðju í landinu.

Eins og nú stendur á er tómt mál að tala um stórvirkjanir án stóriðju. Þegar við sjálfstæðismenn leggjum til að á næstu 10 árum verði reistar stórvirkjanir í landinu samtals með jafnmiklu uppsettu afli og nú er fyrir hendi vill hæstv. iðnrh. og flokkur hans ekki vera minni. Tveim mánuðum eftir að við sjálfstæðismenn leggjum fram frv. okkar um þetta efni á síðasta þingi hefur ríkisstj. sig upp í að leggja fram eigið frv. um sama efni. Til þess að þetta verði ekki of augljós skrípaleikur að þeirra mati eiga þeir ekki annars úrkosti en að segja að þeir vilji stóriðju eins og við sjálfstæðismenn. Auk þess kemur til að forusta Alþb. verður vör við það eins og aðrir, að stöðugt er almennari áhugi og skilningur á nauðsyn þess að efla atvinnulíf landsmanna með aðferðum í stóriðjumálunum. Hjá mörgum almennum stuðningsmönnum flokksins er ekki að finna þá fordóma gegn stóriðju sem hrjáir flokksforustu Alþb. Þeir finna þrýstinginn frá einstaklingum og samtökum um að skynsemin fái að ráða í þessu máli. Er þess skemmst að minnast, að af hálfu Alþýðusambands Íslands voru gerðar á s.l. sumri og hausti ályktanir um stuðning við stóriðju á Íslandi. Með tilliti til þessa hafa andstæðingar stóriðju breytt um starfsaðferðir. Í orði er nú Alþb. með stóriðju, en í verki situr það við sinn keip. Framsókn er milli vita í þessum málum sem öðrum. Starfsaðferðir hæstv. iðnrh. í stóriðjumálunum bera þessu glöggt vitni. Allt er dregið á langinn svo lengi sem kostur er. Hugsanlegir aðilar til samvinnu við Íslendinga og fyrirtæki þeirra eru gerðir tortryggilegir. Stillt er upp sem stóriðjukostum óraunhæfum hugmyndum eða ótímabærum framleiðslugreinum. Útilokaðir eru fyrir fram ýmiss konar möguleikar til fjármögnunar. Ýktir eru tímabundnir erfiðleikar í ýmsum framleiðslugreinum. Sérstakur kapítuli er svo framferði hæstv. iðnrh. í hinu svokallaða súrálsmáli.

Í því máli er um tvennt að ræða, eins og ráðh. hefur á því haldið. Annaðhvort hefur ráðh. vitandi vits verið að gera samvinnu okkar við útlendinga í stóriðjumálum tortryggilega í þeim tilgangi að torvelda og bregða fæti fyrir stórátak nú í stóriðjumálunum eða hæstv. ráðh. telur í raun og veru að við höfum rétt að sækja á hendur Alusuisse. Hann er þó ekki maður til að halda honum til laga, sem honum ber að gera, í stað þess að lyppast niður fyrir útlendingunum sem hefðu þá brotið á okkur samninga. Hvorugur kosturinn er góður, enda ber þetta allt frekar vott um áróðursherferð gegn stóriðju en eðlilega gæslu íslenskra hagsmuna.

Herra forseti. Það er hart að þurfa að búa við slíka yfirstjórn í orkumálum þjóðarinnar. Frá því að sjálfstæðismenn létu af stjórn þessara mála árið 1978 hefur tíminn farið fyrir litið. Á þessu tímabili væri mest um vert ef unnið hefði verið markvisst og skipulega að stóriðjuverkefnum. Það hefðu þegar þurft að liggja fyrir einhverjir stóriðjukostir sem nú hefði verið hægt að byggja á. Þannig hefðu nú þegar átt að vera hafnar framkvæmdir við næstu stórvirkjun og tryggð hagnýting orkunnar frá henni. Slík vinnubrögð voru nauðsynleg til að hefja það risaátak sem við höfum verið að ræða um, að tvöfalda raforkuframleiðslu landsins á einum áratug. Með slíkum vinnubrögðum hefði ekki frestast að óþörfu sá hagur sem þjóðarbúið hefur af hagnýtingu orkulindanna. Við hefðum síður verið vanbúnir að hagnýta þau tækifæri sem gefast og m.a. eru fólgin í þeirri staðreynd, að álverum er nú lokað víðs vegar um lönd þar sem skilyrði eru óhagstæðari til framleiðslunnar en hér á landi.

Menn velta því stundum fyrir sér, af hverju andstaðan gegn stóriðju í landinu hefur verið svo mögnuð hjá þröngum hópi öfgamanna. Það er ekki að ófyrirsynju því að ástæður fyrir þessari afstöðu hafa vissulega verið léttvægar fundnar. En það er sjálfsagt borin von að fá skýringu á þessu. Hér er um að ræða hreinræktað afturhald og raunar eindregnasta afturhaldið sem fyrirfinnst í þessu landi. En jafnvel í svartasta afturhaldi getur stundum verið einhver skíma. Ég hefði viljað vona að einhverri glætu væri fyrir að fara hjá hæstv. iðnrh. En það er ekki nægilegt ef menn þora ekki, ef menn eru ekki menn til að taka ákvarðanir. Því verður þess vegna ekki á móti mælt, að besta framlag til orkumálanna í dag væri að hæstv. iðnrh. léti af meðferð þessara mála. Þegar slíkt heyrist ítrekað úr röðum stuðningsmanna ríkisstj. hér á Alþingi skal engan undra þó að við stjórnarandstæðingar kunnum eigi betra ráð — nema það að ríkisstj. öll, sem ber ábyrgð á ósómanum, láti af völdum.

En hvað sem liður hæstv. iðnrh. og ríkisstj. liggur fyrir Alþingi að afgreiða þáltill. sem nú er á dagskrá. Ég andmæli ekki þeirri röðun virkjunarframkvæmda sem þar er gert ráð fyrir, svo framarlega að röðunin sjálf tefji ekki eða komi í veg fyrir að allar virkjanir verði reistar á þeim áratug sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Engan tíma má missa. Framkvæmdir verða að hefjast strax. Í þáltill. er ekki kveðið á um slíkt eða hvenær framkvæmdir skuli hefjast. Þarf því að fá samþykkja brtt. sem kveður á um þetta efni, en jafnframt þarf að fá þá breytingu á þáltill., að fram sé tekið að framkvæmdir megi ekki hefjast í virkjunarmálunum fyrr en séð hefur verið fyrir eða tryggð hagnýting orkunnar frá þessum virkjunum. Þetta þýðir að ákveðnar hafi verið stóriðjuframkvæmdir eftir því sem virkjunarframkvæmdum miðar áfram. Slíkar breytingar á þáltill. fela því ekki einungis í sér hröðun virkjunarframkvæmda, heldur og hröðun framkvæmda í stóriðjumálunum. Þetta er í samræmi við tillögur okkar sjálfstæðismanna samkv. frv. okkar um ný orkuver sem við lögðum fram á síðasta þingi. Það eru einmitt þessi atriði sem þurfa til að koma til að gefa þessari till. til þál., sem við nú ræðum, raunhæft gildi. Það er það sem við þurfum að gera: gefa þessari till. raunhæft gildi. Eins og till. er úr garði gerð er hún vottur þeirrar sýndarmennsku og ráðleysis sem einkennir hæstv. iðnrh. og ríkisstj. í heild í þessum málum.

Alþingi getur ekki sætt sig við slíkt. Það er útilokað að Alþingi geti sætt sig við slík vinnubrögð í svo mikilvægu máli sem hér er um að ræða. Þess er því að vænta, að það muni takast að fá þessa þáltill. afgreidda á þann veg að raunhæft gildi hafi og Alþingi hafi sóma af.