11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3026 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Mér finnst satt að segja verið að drepa þessu máli á dreif þegar hæstv. viðskrh. kemur í ræðustól og ber það, sem hér er verið að ræða, saman við það þegar verið var að fjalla hér um fyrirgreiðslu til Flugleiða. Þetta eru algjörlega óskyld mál og ekkert þar sambærilegt. Ég verð sömuleiðis að segja að mér þótti ræða hæstv. samgrh. með nokkuð undarlegum hætti, þar sem hann drap málinu mjög á dreif með því að ræða hér almennt um flugmálastefnu, og gjörsamlega eru mér óskiljanlegar þær röksemdir hæstv. ráðh. að með því að skipta flugleyfum milli flugfélaganna sé verið að efla samkeppnina. Ég sé ekki betur en við blasi hið gagnstæða. Það er verið að skipta leyfunum til að koma í veg fyrir samkeppni á sömu flugleiðum. Þetta finnst mér ekki koma alveg heim og saman.

Það var alveg rétt sem hv. 9 þm. Reykv. vitnaði til áðan, að þau ummæli samgrh., að hann tryði ekki öðru en Flugleiðir hf. sýndu samningalipurð í ljósi þeirrar fyrirgreiðslu sem væri búið að veita fyrirtækinu, þau eru með endemum. Hugsum þetta aðeins lengra, að Flugleiðir sýni samningalipurð um hvað? Um að sleppa leiðum, sem þær hafa flogið lengi, og afhenda þær öðrum aðila.

En tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst það, að ég skildi ekki alveg hv. 3. þm. Reykv. sem kom í þennan ræðustól og talaði sem formaður bankaráðs Útvegsbanka Íslands, flutti hér langa ræðu sem slíkur, en fyrtist síðan mjög þegar hann var ávarpaður sem slíkur. Ég skildi ekki alveg og vil biðja hann að skýra svolítið nánar hvað hann átti við með því, að þarna hefði verið um að það ræða að afstýra því að 7–8 einstaklingar eða fjölskyldur — mér er ekki alveg ljóst hvort hann átti við — yrðu öreigar. Ég óska eftir að hann skýri þessi ummæli sín nánar. Hvað var þarna á seyði? Hvaða björgunarstarfsemi var bankaráðið þarna með?

En það sem er megintilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er að þær ásakanir, sem hér hafa verið bornar fram í dag, eru svo alvarlegar að það hlýtur að verða að fara fram rannsókn á þessu máli, — rannsókn sem miði að því að leiða sannleikann í ljós, hvort það er rétt, sem hér hefur verið haldið fram og fleiri en einn og fleiri en tveir hafa gert, að flugrekstrarleyfi hafi verið notuð sem verslunarvara eða skiptimynt. Þetta er svo alvarleg ásökun á hendur samgrh. að hann hlýtur að krefjast þess, að fram fari ítarleg rannsókn á málinu, og það hlýtur sömuleiðis að vera krafa þingsins að slíkar ásakanir hangi ekki í lausu lofti, heldur fari fram ítarleg rannsókn á þessu máli þar sem sannleikurinn komi í ljós.