16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði að það hefði orðið kauplækkun um 7% 1. mars, og hv. þm. Magnús H. Magnússon endurtók þessa fullyrðingu. Ég er ekki alveg viss um að þetta þoli dóm reynslunnar, vegna þess að það voru gerðar ýmsar hliðarráðstafanir jafnhliða þeirri ákvörðun að skerða vísitölu um 7% 1. mars á fyrra ári. Það voru t.d. lækkaðir skattar, það voru lækkuð aðflutningsgjöld, það voru tvisvar lækkaðir vextir og það var gert ýmislegt fleira til þess að halda niðri verðlagi. Þegar upp var staðið í árslok, stóðum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að kaupmáttur launa á síðasta ári var meiri og það talsvert miklu meiri en hann hefði orðið ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. (Gripið fram í: Hver segir það?) Það segir Hagstofa Íslands, það segir Þjóðhagsstofnun og allir þeir aðilar sem hafa fjallað um þessi mái. (Gripið fram í: Alþýðusambandið?) Ég skal ekki segja um hvað Alþýðusambandið segir. En þetta segja þær stofnanir sem hafa látið frá sér fara skýrslur um þessi mál, að kaupmáttur launa jókst meira — eða minnkaði minna öllu heldur — á síðasta ári en hann hefði gert ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Og það er kaupmáttur launanna sem gildir. Það eru ekki krónurnar í umslaginu. Það er auðvitað kaupmátturinn og það er mergurinn málsins.

Mér finnst athyglisvert og það meira en lítið, að á sama tíma sem verðbótavísitala var skert um 7%, þ.e. á síðasta ári, þá gerist það að kaupmáttur launa minnkar minna og það talsvert minna en verið hefði ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Um þetta er ekki deilt. En það koma þarna fleiri atriði til eins og ég minntist á áðan. Einnig verður að taka með í reikninginn, það viðurkenni ég, þróun viðskiptakjara á síðasta ári. Kauplækkun og kaupmáttur eru tvö hugtök sem þarf að skýra með eðlilegum hætti. Og það er kaupmáttur launanna sem hefur gildi fyrir launafólk, en ekki krónurnar í launaumslaginu.