16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. viðskrh., að það er kaupmátturinn sem skiptir máli. En hvernig er staðan í kaupmætti nú? Ef við berum saman kaupmátt launafólks í febr. 1981 og aftur í febr. 1982, þá hefur hann minnkað samkvæmt nýjustu skýrslum. Þetta ætti hæstv. viðskrh. að kynna sér. Dettur hæstv. viðskrh. eða félmrh. í hug að í flóði þeirra verðhækkana á öllum nauðsynjavörum almennings í landinu, sem nú hafa riðið yfir og eru enn að ríða yfir, sé um að ræða kjarabætur til handa launafólki miðað við það ástand sem þessir annars ágætu menn, hæstv. ráðherrar, skapa í efnahagsmálum og efnahagskerfi þjóðarinnar? Það er staðreynd, að 7% kjaraskerðing varð um áramótin 1980–1981. Um það þarf ekki að deila. Á því ári versnuðu kjör launafólks í landinu, ekki síst láglaunafólksins. Það mega þeir þó eiga, hæstv. ráðherrar Alþb„ að þeir sömdu alltaf fyrst og best fyrir hálaunafólkið í landinu, sbr. læknasamningana á sínum tíma, þegar læknarnir fengu allt upp í 40% kjarabætur á sama tíma og hæstv. ráðherrar Alþb. telja nægjanlegt fyrir láglaunafólkið innan Alþýðusambands Íslands að fá 3.25%. Þetta er þeirra saga í þróun kjarabaráttu og efnahagsmála á þeim tíma sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið við völd. Það eru þeir sem hafa ráðið ferðinni í þessum efnum.

Það er annað hljóð, sem verið hefur ríkjandi hjá þessum hæstv. ráðherrum í forustusveit Alþb.. frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum en meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. En það virðist vera að koma a.m.k. einhver vottur af sama hljóði í hæstv. félmrh. núna eins og var á þeim tíma sem hann var utan ríkisstjórnar með sitt lið. „Alþingi götunnar“ skal kallað til. Nú eru taldar líkur á því — eða a.m.k. er svo að sjá — að brestur sé kominn í stjórnarsamstarfið. Og það er á þeirri stundu sem hæstv. félmrh. ákallar „Alþingi götunnar“ til liðs við sig, að koma nú eins og áður hafði gerst. Ég er viss um að almenningur í landinu er farinn að sjá í gegnum þennan blekkingavef hæstv. félmrh. og annarra pólitískra forustumanna Alþb. að því er varðar a.m.k. kjaramálin. Menn láta ekki endalaust draga sig á asnaeyrunum þó að hæstv. félmrh. eigi í hlut.