16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

324. mál, opinber stefna í áfengismálum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil enn vekja athygli á ummælum hæstv. ráðh. sem hér hafa komið fram. Ég vil sérstaklega vekja athygli á orðum lögfræðingsins, hæstv. dómsmrh., sem talaði hér áðan og lýsa auðvitað í hnotskurn því sem hefur verið að gerast hjá hæstv. ríkisstj. á undanförnum misserum. Hann sagði hérum bil orðrétt að ég megi segja: Að sjálfsögðu má ræða um verðbólguna frá ýmsum hliðum og beita ýmsum reikningsaðferðum. — Þetta er einmitt það sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að fást við frá því að hún tók við völdum, að beita ýmsum reikningsaðferðum. Þetta er kurteislega mælt af fyrrv. dómara, hæstv. dómsmrh., sem hefði alveg eins getað notað sömu orð og ég notaði áðan: að beita blekkingum, svikum og fölsunum í sambandi við þau hugtök sem hér hefur verið um að ræða. Það er ekki nóg að halda því fram, eins og hæstv. viðskrh., að kaupmátturinn hafi haldist vegna aðgerða ríkisstj. Hins vegar undirstrika ég þau orð hans, að kaupmáttur launa er meiri að sjálfsögðu vegna nokkurra aðgerða ríkisstj. En hann hefur ekki haldist eins og lofað var, og hann er minni en ætla mætti. Kaupmátturinn, eins og hann er í dag, er m.a. vegna krafna og samninga verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur í landinu, ekki vegna neins sem ástæða er til að þakka ríkisstjórnarskömminni fyrir. Nei, það er langt frá því.

En það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. viðskrh., að það er ekki sama hvað upp úr umslaginu kemur. Kaupmátturinn segir til um hvað við fáum fyrir þá peninga, hvernig afkoma heimilanna í heild verður þegar búið er að borga skatta til þjóðfélagsins og þær nauðsynjar sem heimilið þarf til að lifa af. Og ég fullyrði við ykkur, hæstv. ráðherrar, að það er ekki sama stig lífskjara hjá almennu launafólki í dag og var áður en þið tókuð við völdum, því miður, vegna þess að ég efa ekki að undir því ágæta forsæti, sem þið búið við, munuð þið hafa viljað betur en ykkur hefur tekist. Ykkur hefur aðeins mistekist á þessu sviði.1618