16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Fyrsta spurning: „Hve margir geðveikir afbrotamenn hafa verið metnir ósakhæfir, en ekki dæmdir í öryggisgæslu?“

Svar: Ekki eru til neinar skýrslur um hve mörg slík tilvik eru, en þau munu vera nokkur.

„2. Eru mál öryggisgæslufanga endurskoðuð reglulega, eins og lóg gera ráð fyrir?“

Svar: Samkv. 62. gr. almennra hegningarlaga skal Hæstiréttur skipa tilsjónarmann þeim sem sýknaður er samkv. ákvæðum I5. gr., en ákveðið er í dómi að komið sé fyrir á viðeigandi hæli til varnar því að háski verði af manninum. Tilsjónarmaðurinn skal hafa eftirlit með því, að dvöl mannsins á hælinu verði ekki lengri en nauðsyn ber til. Samkv. greininni er það hlutverk héraðsdóms þess, þar sem hæli það er sem viðkomandi maður dvelur á, að meta hvort vistun hans á hælinu skuli teljast lengur nauðsynleg. Getur bæði dómsmrh. og tilsjónarmaður lagt málið fyrir dómstólinn, enda liggi fyrir umsögn læknis. Dómsmrh. getur lagt málið fyrir þegar ástæða þykir til, en tilsjónarmaður getur krafist þess, þegar ár er liðið frá dómsuppsögn eða síðasta dómsúrskurði, að dómstóll úrskurði um nauðsyn hælisvistarinnar. Það fer því eftir mati ráðh. eða tilsjónarmanns hversu fljótt og hversu oft mál viðkomandi er borið undir dómstól.

„3. Hefur dómsmrh. reynt að fá ósakhæfan geðsjúkling, sem lengi hefur dvalist í fangelsi, innlagðan á geðsjúkrahús til meðhöndlunar og aðhlynningar?“

Svar: Dómsmrn. hefur ekki s.l. þrjú ár reynt að fá vist fyrir slíkan sjúkling á geðsjúkrahúsi ríkisins, þar eð rn. er kunnugt um afstöðu stjórnenda sjúkrahússins til vistunar slíkra sjúklinga þar. Því til stuðnings vill rn. geta þess, að í bréfi yfirlæknis Kleppsspítalans, dr. med. Tómasar Helgasonar prófessors, sem dags. er 28. jan. 1976, segir m.a.:

„Eins og rn. er kunnugt getur Kleppsspítalinn ekki tekið að sér öryggisgæslu fanga og er því ekki unnt að taka við N.N. á spítalann meðan hún er dæmd til að sæta slíkri gæslu.“

Bréf þetta er svar við beiðni rn. í bréfi dags. 30. des. 1975, þar sem rn. fer þess á leit við Kleppsspítalann að spítalinn taki að sér umræddan sjúkling til vistunar og gæslu.

„4. Hvar fer geðrannsókn á afbrotamönnum fram og hvaða aðilar bera kostnaðinn af rannsókninni?“

Svar: Samkv. lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74 frá 1974, 75. gr., 2. mgr., 2. tölul. d, skal leggja sökunaut undir viðeigandi læknisrannsókn, ef ástæða þykir til til þess að kanna andlegan og líkamlegan þroska hans, heilbrigðisástand, bæði andlegt og líkamlegt, fyrr og síðar, og er það dómara að taka ákvörðun um hvort slík rannsókn fari fram. Undanfarin ár hefur sökunautur oftast verið vistaður í gæsluvarðhaldsfangelsi meðan slík læknisrannsókn hefur farið fram. Kostnaður við rannsóknina greiðist úr ríkissjóði, eins og annar kostnaður við rannsókn mála.

„5. Hversu oft hefur ákvæði 62. gr. refsilaga verið beitt um vistun ósakhæfra manna á viðeigandi stofnun?“ Svar: Um þessa spurningu er það sama að segja og þá fyrstu, að ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um hversu oft menn hafa verið sýknaðir samkv. ákvæðum 15. gr. eða refsing talin árangurslaus samkv. ákvæðum 16. gr. þannig að 62. gr. hafi komið til álita um hvaða ráðstafanir skuli gera til að varna því að háski verði af manninum.

„6. a) Til hvaða stofnana hefur verið leitað þegar slíkur úrskurður liggur fyrir?“

Svar: eins og fram kemur í svari við 3. spurningu hefur verið leitað til geðsjúkrahúss ríkisins, Kleppsspítala, en þar sem fyrir hefur legið nú síðustu ár að það sjúkrahús hefur ekki talið sér fært að vista menn, sem þannig hafa verið úrskurðaðir, hefur verið leitað til heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóð um vistun slíkra sjúklinga á heilbrigðisstofnunum þar í landi.

„6. b) Hafa stofnanir, sem til hefur verið leitað, synjað um slíkar vistanir?“

Svar: Hér má vísa til svars við 3. spurningu um afstöðu geðsjúkrahúss ríkisins.

„6. c) Ef svo er, geta yfirmenn heilbrigðisstofnana gengið í berhögg við úrskurð dómstólanna?“

Svar: Dómstólar geta ekki dæmt menn til vistunar á tiltekinni heilbrigðisstofnun.

Þessi svör læt ég nægja, að sinni a.m.k.