16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Áður en ég vík að því máli sem hér hefur verið hreyft utan dagskrár langar mig til að gera í örstuttu máli að umræðu hvernig hér er að staðið og af hverju mér finnst að virðingu Alþingis sé ekki samboðið hvernig málsmeðferðin er hér nú.

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hefur verið mikill ágreiningur á milli ráðh. í sambandi við framkvæmd á þáltill. frá 21. maí 1981 um lausn á vandamálum vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins. Að því, hvort búið sé að jafna þann ágreining eða ekki, kem ég síðar. Þá hefur það verið svo, að við höfum hvorki opnað blöð, opnað fyrir útvarp né sjónvarp öðruvísi en þar hafi verið til svara ráðherrar. Það, sem eftir þeim hefur verið haft, hefur verið m.a. um störf einstakra ráðh, og hafa það verið brigslyrði og svívirðingar. slíkt heyrðum við í sjónvarpinu í gærkvöld, útvarpi í morgun. En þegar svo alþm. óska eftir að fá ráðh. á Alþingi til að gera grein fyrir hvernig þessi mál standa, þá hafa þeir ekki tíma til að vera á þingfundum til að svara eða gefa skýrslu.

Ég held, herra forseti, að hér sé um að ræða atriði sem þm. verði að taka rækilega til skoðunar og forsetar Alþingis þurfi mjög að gefa gaum. Það er ekki bara þegar þarf að mynda ríkisstj. að menn verða að muna eftir virðingu Alþingis. Það verður að muna eftir virðingu Alþingis hvern einasta dag. Og ég segi: Það háttalag, sem við höfum þurft að horfa upp á hér í dag, er ekki til þess að auka á virðingu Alþingis. Ráðherrar bera ábyrgð fyrir Alþingi. Það er þar sem þeir eiga að gera grein fyrir málum. En svo koma alþm. til þingfundar kl. 2. Það er búið að óska eftir umr. vegna þess sem ráðherrar hafa sagt í fjölmiðlum. Þá er svarið: Því miður. Þeir hafa ekki tíma. — Þetta held ég að við verðum að taka mjög til skoðunar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanni þingflokks Framsfl., en það kom fram áðan að ekki stóð á honum ásamt með formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar að fá það fram, að þessar umr., sem auðvitað áttu að fara fram strax kl. 2 í dag, gætu hafist eins fljótt og mögulegt var. Ég held einmitt að það sé hlutverk formanna þingflokka, hvort sem það eru þingflokkar stjórnar eða stjórnarandstöðu, að sjá svo um að alþm. þurfi ekki að koma hér til fundar, hlusta í einhvern tíma á ekki neitt, fara svo heim til sín og jafnvel heyra, þegar fréttirnar byrja, einhverjar umsagnir ráðh. — manna sem sögðu ekki orð þegar þingfundir voru. Ég veit ekki hvort alþm. tóku eftir því, að þegar hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, hafði lokið máli sínu stóð forseti upp og sagði: Ekki eru fleiri á mælendaskrá. — Það var einfaldlega vegna þess að þm. höfðu átt von á að ráðherrar kæmu hér og gerðu grein fyrir þeim málum sem þeir hafa verið að gera grein fyrir í fjölmiðlum að undanförnu. Það var ekki fyrr en þm. var ljóst að þeir ætluðu ekki að láta í sér heyra, að þm. báðu um orðið.

Ég vildi í upphafi koma þessu hér að vegna þess að mér er ekki sama um hvernig að þessum málum er staðið. Ég veit að þeir, sem hér eru inni, eru mér allir sammála, og ég vonast til að menn láti slíkt ekki henda aftur.

Það er verið að leita álits hæstv. forsrh. á ágreiningsmáli sem uppi hefur verið í ríkisstj. undanfarna daga og á sér kannske mun lengri aðdraganda en menn gera sér grein fyrir. Hann er spurður um hvernig með skuli fara. Hér er um að ræða mjög þýðingarmikið mál fyrir byggðarlögin á Suðurnesjum. Um þá till., sem ágreiningurinn hefur verið um, var samstaða á Alþingi og hæstv. utanrrh. falið fullt og ótakmarkað umboð til að framkvæma það sem þar segir. Það hefur svo verið allt annað uppi á teningnum hjá ýmsum ráðherrum í þessum efnum. Ég ætla ekki að hafa eftir hér þau orð sem þeir hafa sagt. Það hafa verið skipaðar nefndir, og það er öllum ljóst, sem fylgst hafa með þessum málum, að hér hefur annars vegar hæstv. utanrrh. verið að tryggja forræði sitt á þessu máli og aðrir ráðh. að koma í veg fyrir að hæstv. utanrrh. geti komið fram vilja Alþingis sem skýrt kemur fram í þeirri þáltill. sem samþykkt var á Alþingi 21. maí 1981.

Ég hafði búist við að hæstv. félmrh. væri viðstaddur á þessum fundi, því að ýmislegt hefur hann látið frá sér fara í þessu máli. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti vildi láta athuga hvort hæstv. félmrh. er í húsinu. (GHelg: Hann er ekki í húsinu. Hann er á framkvæmdastjórnarfundi Alþb.) Hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 8. landsk. þm., tilkynnir að hæstv. félmrh. sé á framkvæmdastjórnarfundi hjá Alþb. Má vera að hann sé að gera þar grein fyrir því máli sem hann er ekki reiðubúinn að gera Alþingi grein fyrir. En ég skal ekki tefja umr. með því að bíða eftir hæstv. félmrh.

Ég vek athygli á því, sem hæstv. forsrh. sagði í upphafi síns máls, að engar ástæður hefðu verið hingað til til að kveða upp úrskurð um ágreining á milli ráðh. um valdsvið þeirra. Það má vel vera að það, sem hæstv. forsrh. segir hér, sé staðreynd þegar komið er fram yfir hádegi á þessum degi. En þeir, sem hlustuðu í útvarpi á hæstv. utanrrh. í morgun, gerðu sér grein fyrir að það var uppi ágreiningur um hvert væri valdsvið utanrrh. og félmrh. En af því, sem hæstv. forsrh. hefur sagt í sinni ræðu sem svar, og af því að hæstv. utanrrh. hefur ekki heldur séð ástæðu til að taka til máls, hæstv. félmrh. ekki séð ástæðu til að taka til máls og ekki séð ástæðu til að sitja hér á þingfundi þegar umr. fara fram um þetta mál, þá skil ég það svo að búið sé að jafna þann ágreining sem öllum landslýð er ljóst að hefur verið á milli þriggja ráðh.: annars vegar hæstv. utanrrh. og hins vegar hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh. Engu að síður hafði ég átt von á að hæstv. utanrrh., sem veit að hann nýtur stuðnings mikils meiri hl. Alþingis, meiri hl. utanrmn„ að einum hv. þm. þar undanskildum, — hann nýtur stuðnings þriggja þingflokka til að framkvæma þá þál. sem ég gat um áðan, — að hann gæfi skýrslu og gerði þingheimi grein fyrir því, að nú væri búið að jafna þennan ágreining, það þyrfti engan úrskurð hæstv. forsrh., hefði ekki komið til hans, og utanrrh. hefði óskorað forræði til að framkvæma vilja Alþingis, um það væri enginn ágreiningur lengur. Ég átti von á að hæstv. utanrrh. gæfi þó ekki væri nema örstutta skýrslu hér á Alþingi einmitt nú, eftir að hæstv. forsrh. lýsti yfir að ekkert tilefni hefði verið til þess í ríkisstj. að kveða upp úrskurð um ágreining á milli ráðh. Ég vil nú mælast til þess við hæstv. utanrrh., að hann staðfesti það sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að ágreiningurinn væri enginn, sem þyrfti að kveða upp úrskurð um, og hann færi því með óskorað vald til að framkvæma vilja Alþingis.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að hann óskaði eftir að hæstv. utanrrh. gæfi skýrslu um þetta mál síðar. En ég vil undirstrika það sem ég sagði áðan, að vissulega væri þýðingarmikið fyrir okkur að heyra frá hæstv. utanrrh. að hann vissi ekki til að neinn ágreiningur væri hér á ferðinni. Það þýddi að búið væri að jafna það sem tvímælalaust var ágreiningur annars vegar á milli hans sem utanrrh. og hins vegar starfsbræðra hans.

Ég hefði viljað spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta væri ekki rétt skilið og ekki væri af hans hálfu neinn ágreiningur lengur. Hæstv. iðnrh. gekk í salinn áðan, en út úr honum jafnfljótt aftur. Það væri sjálfsagt að spyrja hann hvort þetta mál væri ekki úr heiminum. Hann hafði tekið ákvarðanir sem geta haft viss áhrif til að draga á langinn það þýðingarmikla mál sem hér hefur verið til umfjöllunar.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um það mál sem vakin var hér athygli á og er til umræðu utan dagskrár. Ég undirstrika það, sem fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum um fullan stuðning við störf utanrrh. um framkvæmd þessarar þál., og vonast til að hugleiðingar mínar eftir svar hæstv. forsrh. séu réttar, að hæstv. utanrrh. hafi fullt og óskorað umboð, það sé enginn ágreiningur lengur og þess vegna hafi ekki verið ástæða til að kveða upp neinn úrskurð samkv. þeirri reglugerð sem gildir um Stjórnarráð Íslands.