02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en ég fer að ræða efnislega þá till., sem hér er á dagskrá, verð ég satt að segja að undrast það, hvernig umræður hafa verið í sambandi við þessa till. Menn hafa tekið þetta upp sem almennar pólitískar umr. og oft á tíðum reynt að forðast sem mest það efni sem á dagskrá er. Ég harma alveg sérstaklega aðra af ræðum hv. 3. þm. Vestf., þar sem hann veittist úr ræðustól þessarar hv. deildar að varaforseta Alþýðusambandsins, brigslar honum um að hann sé atvinnurekandi, og annað álíka hefur fylgt í kjölfarið. Ég held að það hafi verið á þessu hausti að ég las ágæta grein eftir þennan sama þm., — þetta er siðvæðingargrein sem kom í Morgunblaðinu, — þar sem hann fjallar um nauðsyn þess að forðast persónulegar svívirðingar í pólitískum umr. og er með ýmsar góðar siðvæðingarreglur í þeim efnum. En vart er nú liðinn mánuður þegar hann hefur gleymt þessari messu sinni í Morgunblaðinu og veitist hér að fjarstöddum varaforseta Alþýðusambandsins með ósmekklegum og ósæmilegum brigslyrðum, sem ég harma þótt pólitískur andstæðingur okkar hv. 3. þm. Vestf. beggja eigi hér hlut að máli. Nóg um það.

Frv. til l. á þskj. 18, sem hér er til umr., er að mínu mati dæmalaust plagg. Þó skal viðurkennt að grg. hv. þm. er að ýmsu leyti vel unnin og að mörgu leyti sögulega athyglisverð og sýnir að hv. þm. kann oft vel til verka þó sú hæfni vilji nýtast misjafnlega.

Fyrsta atriðið, sem ég er algerlega mótfallinn, er að innri málum verkalýðshreyfingarinnar á ekki að skipa með lögum. Það er rangt hjá hv. flm. að frv. sé aðeins breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur kveða ekki á um innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 kveða á um leikreglur í vinnudeilum, hvernig verkföll skuli boðuð, ákvæði um sáttastörf, valdsvið sáttasemjara o. s. frv. Það er mín persónulega bjargfasta skoðun, — og þar er ég nú ekki í slæmum félagsskap, þar eru skoðanabræður mínir allir sósíaldemókratískir flokkar á Norðurlöndum, — að verkalýðshreyfingin verði sjálf að leysa sín skipulagsmál. Ég held að þó að hv. þm. Vilmundur Gylfason leiti um öll Norðurlönd og reyndar víðar um Evrópu finni hann hvergi fordæmi að sósíaldemókratískur flokkur beri fram slíkar tillögur sem hér liggja fyrir.

Hv. þm. mótmælir þessu e. t. v. á þeim forsendum, að hann líti á sjálfan sig sem sérstakan sósíalískan flokk. Þetta hafa menn fengið að heyra frá miðju sumri og alveg fram á haustnætur. Þetta er heimilisböl Alþfl. sem ég leiði hest minn frá að leggja dóm á. Það er nú svo komið á landi hér að heimilisböl og flokkserjur stjórnarandstöðuflokkanna innbyrðis eru helsti sirkusinn í landspólitíkinni.

Flm. gagnrýnir mjög skipulag ASÍ og er þar persónulega haldinn einhverjum Messíasarkomplexum. Þetta skipulag má að sjálfsögðu gagnrýna. En það er í öllum megindráttum eins og skipulagið á danskri verkalýðshreyfingu. Þar með er ekki sagt að því megi ekki breyta. Ég hef aldrei heyrt að neinn danskur þm. sósíaldemókrata legði til að öllu skipulagi dönsku verkalýðshreyfingarinnar væri umturnað með lögum frá danska þjóðþinginu. Það er Glistrup einn í því landi sem leggur það til. Það er líka rétt að minna á að ýmis ákvæði um boðun verkfalla og fleira eru ekki í dönskum lögum, heldur er þar byggt á samningi milli aðila vinnumarkaðarins frá því um síðustu aldamót sem báðir aðilar hafa haldið.

Þm. gerist býsna djarftækur í rökstuðningi sínum þegar hann telur lagafrv. sitt styðjast við álit milllþinganefndar ASÍ sem samþykkt var á ASÍ-þingum sem stefnuskráratriði 1958 og 1960. Í tillögum hv. 9. þm. Reykv. er lagt til að hver vinnustaður, sem hafi 25 launþega eða fleiri, skuli stofna starfsgreinafélag og heimilt sé, ef samkomulag er um það, að stofna slík félög þó færri séu á vinnustað. Þetta skal framkvæma með lögum sem taki gildi um næstu áramót. M. ö. o.: um næstu áramót skal þorri íslenskra verkalýðsfélaga leystur . upp með lögum og með lögum skulu upp rísa frá næstu áramótum önnur verkalýðsfélög, og þetta skal gert til að koma skipulagi á verkalýðsfélögin.

Hvernig yrði þetta í reynd? Eigum við að bera niður við Reykjavíkurhöfn þar sem hv. þm. telur sig eiga bæði fylgi og vera býsna kunnugur? Hjá hverju skipafélagi hjá Reykjavíkurhöfn risi upp starfsgreinafélag á vinnustað. Það verða a. m. k. 5–7 verkalýðsfélög við Reykjavíkurhöfn, jafnvel mun fleiri, ef t. d. pakkhúsmenn og skipaafgreiðslumenn væru í sérfélögum. Í byggingariðnaði og hjá verktökum risu upp sérstök vinnustaðafélög með fullum samningsrétti. Hvernig mundi þetta verka ef atvinnuleysi gengi í garð og undirboð færu að berast? Hvað yrði um samstöðuna? Hvað yrði um samhjálpina? Mundi þetta styrkja aðstöðu verkalýðsfélaga?

Athugum nú landsbyggðina. Hvert eigum við að fara? Eigum við að fara til Sauðárkróks? Þar yrði eitt verkalýðsfélag fyrir sambandsfrystihúsin. Þar yrði annað verkalýðsfélag fyrir frystihús Sölumiðstöðvarinnar. Hvað yrði um þá sem ynnu annars staðar? Hv. þm. Karvel Pálmason gerði reyndar þessa fsp.: Hvað yrði um þá sem ynnu annars staðar en á tveimur yfirgnæfandi stærstu vinnustöðunum? Þeir gætu stofnað sín verkalýðsfélög. Á þessum gróna og indæla stað, Sauðárkrók, gætu verið komin 10–20 verkalýðsfélög og allt til að bæta skipulagið! Dagsbrún gæti skipst upp í tugi, jafnvel hundrað verkalýðsfélög. Uppáhaldsverkalýðsfélag hv. þm., Verslunarmannafélag Reykjavíkur, mundi ekki skiptast í tugi, heldur sennilega nokkur hundruð verkalýðsfélaga.

Dettur nú nokkrum heilvita manni í hug að slíkt skipulag yrði til að styrkja verkalýðshreyfinguna eða kæmi til með að bæta hag þeirra lægst launuðu eða koma betra skipulagi á vinnumarkaðinn? Sér ekki hver maður að þetta býður upp á algera upplausn og glundroða og mundi auk þess styrkja aðstöðu atvinnurekenda? Hvergi í frv. er lagt til að skipulagi atvinnurekenda sé breytt. Þeir kæmu til með að halda áfram sem ein heild, a. m. k. þar sem þeim væri það þóknanlegt. Hefur hv. þm. ekki lesið of margar greinar í breskum íhaldsblöðum, þar sem birtast daglega heiftúðugar árásir á breska verkalýðshreyfingu, en hins vegar lítið um gagnrýni á breska atvinnurekendur?

Tillögur mþn. Alþýðusambandsins gengu hins vegar út á það, að vinnustaðurinn skyldi vera undirstaða skipulags og hliðstæðir vinnustaðir, t. d. Reykjavíkurhöfn. skyldu vera í sama félagi og sama starfsgreinasambandi, og frystihús í sama byggðarlagi svo að fleiri dæmi séu tekin, skyldu vera í sama félagi og það væri bundið að þau væru öll í sama starfsgreinasambandinu. Það var algert skilyrði að sömu atvinnugreinar og hliðstæðar atvinnugreinar væru í sama starfsgreinasambandi. Tillögur þm. eru því ekki tillögur mþn. ASÍ, heldur beinlínis andstæða þeirra.

Ég tek það fram, að ég tel tillögur ASÍ frá 1958 og 1960 að ýmsu leyti úreltar. En það breytir engu. Þessi starfsgreinasambönd mundu síðan mynda uppistöðuna í Alþýðusambandinu. Ég efast ekki um, og það er reyndar vitað, að einstakir vinnustaðir hafa mjög sterka verkfallsaðstöðu, aðrir vinnustaðir hafa veika verkfallsaðstöðu. Dettur nú hv. flm. í hug að þeir, sem hafi veikustu verkfallsaðstöðuna, eða við skulum snúa því við og segja: þeir, sem hafi sterkustu verkfallsaðstöðuna, séu þeir sem lægst hafa launin? Mér er nær að halda að það sé oft og tíðum alveg það gagnstæða. Hugsun ASÍ var ekki sú að þeir, sem hefðu sterkustu verkfallsaðstöðuna, gætu brunað fram hjá öðrum og þá ekki síst þeim vinnustöðum sem hefðu veika verkfallsaðstöðu, en brýnustu þörfina fyrir kjarabætur. Ég hélt að stefna sósíaldemókrata í öllum löndum væri sömu laun fyrir sömu vinnu og að styrkja samhjálpina og samstöðuna, en ekki farið eftir því, hvaða verkfallsaðstöðu hver og einn einstakur vinnustaður hefði. Skyldan með þátttöku í starfsgreinasambandi með aðild að ASÍ átti að tryggja, eftir því sem unnt væri, þessa samhjálp og samstöðu, þennan þátt sem sósíaldemókratískir flokkar um allan heim leggja ríka áherslu á. En hv. þm. leggur til að á vinnumarkaðinum ríki lögmál markaðarins, lögmál frumskógarins. Það er uppistaðan í tillögum sósíaldemókratans Vilmundar Gylfasonar.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt um tillögur hv. þm. Ég get rætt þær betur við seinni umr. En mér þykir rétt að skýra þróunina innan ASÍ.

Frá 1960 hafa verkalýðsfélög mjög víða sameinast í stærri einingar. Má þar nefna Eyjafjarðarsvæðið sem nú er allt sameinað í einu sterku verkalýðsfélagi, þar sem áður voru 5–6 félög og sum þeirra vart með lífsmarki. Fjöldi verkamanna- og verkakvennafélaga hafa sameinast í eitt félag, enda víða á landinu, eins og t. d. í frystihúsum, að bæði kynin vinna á sama vinnustað og við sömu störf. Einn þátturinn í því er sá, að á þessum vinnustöðum ríkt mun meira launajafnrétti en t. d. tíðkast hjá því opinbera. Það er fróðlegt að segja frá því og það eru góð tíðindi, að meðallaun kvenna í frystihúsum, meðallaun fyrir unna klst., eru hærri en meðallaun karla. Gætu skrifstofur ríkisins stært sig af þessu? Gætu bankar á Íslandi stært sig af þessu, sem vaða þarna fram fyrir skjöldu í misrétti í launum milli kynja? Þarna hefur á mörgum stöðum tekist ákaflega góð samstaða. Á öðrum stöðum, eins og hér í Reykjavík, vinna félög eins og Verkakvennafélagið Framsókn og Verkamannafélagið Dagsbrun ákaflega vel saman hvað sem líður öllum pólitískum ágreiningi milli einstakra stjórnenda. En ég legg áherslu á að þetta er ekki hægt að gera með valdboði, hvorki frá Alþingi né ASÍ. Þetta verður að koma frá félögunum sjálfum, félagsmönnunum sjálfum. Það er ekki til farsældar að leggja niður með valdboði rótgróin, gömul félög. Verkafólkið verður sjálft að átta sig á nýjum tímum og breyttum atvinnuháttum.

Annað atriði vildi ég benda á. Árið 1960 og um það leyti voru félögin komin í ákveðna hættu á ýmsum sviðum. T. d. voru á ýmsum kaupskipum allt að 12 stéttarfélög og fræðilegur möguleiki var að verkföll gætu staðið allt árið, sinn hvern mánuðinn hjá hverju félagi. Lagabreytingar vofðu yfir, og því var margyfirlýst hér á Alþingi, að lagabreytingar þyrfti til að hindra þetta. Nú minnist enginn á slíkt. Þessu hafa verkalýðsfélögin sjálf breytt og komið sér saman um það, og nú eru öll lög óþörf því að það hefur í öllum meginatriðum tekist að samræma uppsagnarfrest og samningstíma þessara félaga. Sama hefur tekist í ríkisverksmiðjum, álverksmiðjunni, virkjunarframkvæmdum hjá Landsvirkjun. Það hefur tekist að gera sameiginlega samninga á fjölda þessara staða. Sjálfsagt gæti starfsfólk á einhverjum þessara staða klofið sig frá verkalýðsfélögunum, stofnað eigið verkalýðsfélag og sem slíkt haft hagnað af fyrir sig, en það mundi veikja verkalýðssamtökin í heild. Án starfsgreinasambands mundi það e. t. v. hagnast sjálft í bili, en veikja samhjálpina og samstöðuna.

Stefnuyfirlýsingin frá 1958 er að gera vinnustaðina að grunneiningu, en ekki vinnustaðina að sjálfstæðu verkalýðsfélagi. Þessi stefnuyfirlýsing hefur líka komið í veg fyrir meiri ringulreið og sniðið af ýmsa vankanta, eins og ég hef nefnt hér dæmi um. Hitt má segja með réttu, að það megi gagnrýna verkalýðsfélög fyrir að hafa ekki unnið af meira krafti að breytingum á skipulagi sínu. Þó hafa býsna margar breytingar verið gerðar. En það var ekki grundvöllur 1960, þrátt fyrir þingsamþykkt ASÍ, að knýja fram þessar breytingar vegna mjög sterkrar andstöðu innan félaganna sjálfra. Ég vil minna á að enn eru þessar hugmyndir uppi, og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér samþykkt síðasta ASÍ-þings um skipulagsmál. Þetta var þing sem haldið var í nóvemberlok 1980. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„34. þing ASÍ telur það ástand sem nú ríkir í skipulagsmálum verkalýðssamtakanna, bæði hvað snertir innra skipulag ASÍ og gagnvart öðrum launþegasamtökum, með öllu óviðunandi. „ — Og ég geri hér innskot: Vissulega var það rétt sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um ágreining milli launþegasamtakanna undir hvert félag hver hópur eigi að falla. Ég held þá áfram lestri samþykktar um skipulagsmál: „Þingið ítrekar enn á ný þá meginstefnu, að grundvöllur skipulags sambandsins skuli vera vinnustaðurinn og landssambönd sem taki yfir helstu starfsgreinar. Þingið felur skipulagsnefnd í samráði við miðstjórn að hafa forgöngu um viðræður milli núverandi landssambanda innan ASÍ um nauðsynlegar aðgerðir sem leiði til þess, að landssambönd verði í reynd starfsgreinasambönd. Þessum viðræðum skal lokið fyrir reglulegan sambandsstjórnarfund ASÍ 1982 og leggi skipulagsmálanefnd fyrir þann fund greinargerð um niðurstöður sínar. Leiði störf nefndarinnar í ljós, að nauðsyn beri að hennar mati til breytinga á gildandi samþykkt um skipulagsmál, skal nefndin jafnframt gera tillögur um breytingar til sambandsstjórnar sem kynni þær aðildarsamtökum og leggi síðan fyrir 35. þing ASÍ 1984. Enn fremur felur þingið skipulagsmálanefnd í samráði við landssambönd, félög með beinni aðild og miðstjórn að hafa forgöngu um viðræður um skipulagsmál við önnur launþegasamtök og hlutaðeigandi viðsemjendur með það markmið í huga að allir launþegar á samningssviði aðildarsamtaka ASÍ séu félagsmenn í aðildarfélögum þess. Niðurstöður af þessum viðræðum skulu liggja fyrir eigi síðar en á sambandsstjórnarfundi 1982.“

Svo mörg voru þau orð. Ég skal spara tíma og lesa ekki hér umsögn frá ASÍ um frv. hv. þm. sem lagt var hér fram í fyrravetur, þar sem því er mjög eindregið mótmælt samhljóða af öllum miðstjórnarmönnum Alþýðusambandsins.

Að sjálfsögðu fer þetta mál til nefndar og að sjálfsögðu verður leitað umsagnar verkalýðshreyfingarinnar, og þar munu margir eiga kost á að láta til sín taka og ljós sitt skína. En undirtektir undir frv. hv. þm. hafa látið á sér standa og ég er smeykur um að hann sé einfari í þessum tillögum sínum. Er ekki heillavænlegra að láta ASÍ sjálft leysa sín innri skipulagsvandamál, eins og síðasta Alþýðusambandsþing leggur áherslu á að gert verði, heldur en hlaupa eftir tillögum eins misviturs sósíaldemókrata sem gengur með þá Messíasarkomplexa að hann sé heill stjórnmálaflokkur?