17.03.1982
Neðri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mun flytja þrjár brtt. við þetta frv.

Í fyrsta lagi mun ég flytja brtt. sem gengur út á að kosið verði síðasta laugardag í júnímánuði í öllum sveitarfélögum. Ég sé enga ástæðu til að vera með tvo kjördaga fyrir sveitarfélög. Það er í reynd flokkun á þeim í æðri og óæðri sveitarfélög. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég hefði alveg eins getað hugsað mér maí, en ýmsir sveitarstjórnarmenn í litlu hreppunum telja að það sé óheppilegt vegna sauðburðar. Þess vegna mun ég leggja til að kosið verði síðasta laugardag í júní. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það sé sami dagur og kosið er til Alþingis, jafnvel þó að sú staða komi upp að meðaltali 16. hvert ár að kosningar geti verið á sama degi til Alþingis og sveitarstjórna.

Í öðru lagi mun ég flytja brtt. um að kosningarréttur miðist við 18 ár. Ýmsir hafa lýst yfir að þeir séu sammála þessu, en vilji bíða með þetta þangað til búið sé að breyta lögum um alþingiskosningar. Það er stjórnarskrárbreyting. Ég sé ekki að neitt sé því til fyrirstöðu, að lögin séu að þessu leyti frjálslyndari að því er snertir sveitarfélög en Alþingi.

Þriðja efnisbreytingin, sem ég mun leggja til, er að í staðinn fyrir upptalninguna „danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar“ komi: erlendir ríkisborgarar. Þannig er þetta í Svíþjóð. Danir voru með þetta eins og hér er lagt til, en þeir eru að breyta því. Þeim finnst að það hafi reynst illa. — Ég vil vekja athygli á að ég sé ekki að það sé nem ástæða til þess að finnskir ríkisborgarar fái þessi réttindi sérstaklega, þó að mér sé mjög vel við Finna og allt það. Þeir eru ekki mjög skyldir okkur. Mér er síður en svo illa við þá, en af hverju eru t.d. kanadískir ekki nefndir þó að þeir séu jafnvel synir Íslendinga og tali reiprennandi íslensku? Ég legg til að allir erlendir ríkisborgarar fái þennan rétt, miðað við að þeir hafi búið hér í þrjú ár, eins og stendur að öðru leyti í þessu frv. Þeir hafa borgað sína skatta og skyldur í þrjú ár. Þá sé ég ekki að það standi nein efni til þess, að þeir fái ekki kosningarrétt til sveitarstjórna.

En ég tek undir með hæstv. félmrh. að það liggur á að afgreiða þetta mál. Vona ég að það fái skjóta afgreiðslu hér í þinginu.