02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

14. mál, jarðalög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að hér er í sjálfu sér ekki um stórt mál að ræða eða flókið. Hér er flutt frv. til l. um breytingu á jarðalögum, um það að flytja meðferð jarðeigna ríkisins frá landbrn. yfir til fjmrn. Út af fyrir sig getur vel komið til greina að ástæða sé til þess að gera breytingar á meðferð hinna ýmsu málaþátta stjórnkerfisins á milli rn. eða gera breytingu á því, hvaða rn. fer með einstaka málaþætti. En ef hv. þm. ætlar að gera það, þá væri eðlilegra að flytja um það frv. til l. um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands frá 1969.

Ég get sagt það, að auðvitað eru ýmis atriði sem orka tvímælis og kynni að vera ástæða til að endurskoða í þeim lögum. Það frv. sem hér er á ferðinni og fjallar aðeins um þennan þátt málsins, þ. e. að færa jarðeignir ríkisins yfir til fjmrn., sýnist mér á hinn bóginn ekki munu leiða til bóta. Ef það væri meiningin að færa allar fasteignir ríkisins í hendur fjmrn. næði það auðvitað einnig yfir jarðeignir. Hér er hins vegar ekki gerð till. um það að flytja meðferð annarra fasteigna ríkisins yfir til fjmrn., eins og t. a. m. fasteigna á vegum Vita- og hafnamálastofnunarinnar, svo að nokkuð sé nefnt. Það má nefna fyrirtæki eins og sementsverksmiðjuna, lönd og lóðir sem eru í umsjá einstakra fyrirtækja sem heyra undir önnur rn. stjórnarráðsins en fjmrn. Út af fyrir sig má segja að það gæti skoðast sem stefna að efla mjög fjmrn. og hafa eitt stórt fjmrn. í ótal deildum og rýra önnur rn. að sama skapi að verkefnum. Ég dreg hins vegar mjög í efa að það verði í öllum tilvikum til bóta.

Sá þáttur mála sem hér er um fjallað, jarðeignir ríkisins, er vitaskuld í eðli sínu landbúnaðarmál. Meðferð þessara mála er tengd öðrum lögum sem heyra undir landbrn., bæði jarðalögum og ábúðarlögum, svo og ýmissi annarri löggjöf sem varðar landbúnaðarmál og er í höndum landbrn. að fjalla um. Enn fremur tengjast meðferð þessara mála fjölmörg önnur svið landbúnaðarmála, svo sem í tengslum við lánamál, leiðbeiningaþjónustu o. fl., o. fl. sem ekki er þörf á að telja upp.

Ég get lýst því hér, að ég er andvígur þessu frv., og sé ekki ástæðu til að rökstyðja það mörgum orðum umfram það sem hér hefur verið sagt. Ég sé ekki efni til þess, að þessi breyting sé gerð.

Í framsöguræðu sinni sagði hv. þm. að það væri engar upplýsingar að hafa um jarðir í ríkiseign og það væru engar samræmdar reglur til um leigu á þessum fasteignum. Nú er það svo, að hér er um viðamikið mál að tefla að gera skrá yfir þessar eignir og tekjur af þeim. Slík skrá hefur þó verið gerð. Hún er til frá 1978 og liggur fyrir í landbrn. og var á þeim tíma, að ég hygg, send Alþingi sem svar við fsp. frá fyrrv. hv. þm. Nú er verið að endurvinna þessi gögn öll þannig að innan tíðar ættu að liggja fyrir upplýsingar um meðferð þessara eigna ríkisins, hverjir hafa þær á leigu og hverjar leigutekjur eru.

Út af fyrir sig er rétt að það mætti samræma betur en gert er leigu fyrir eignir ríkisins, þ. á m. jarðir. Það er þó vissum vandkvæðum háð. Ég get þó sagt hv. þm. það, að þetta hefur verið samræmt að verulegu leyti á undanförnum árum. Nú er það yfirleitt regla, að lóðir eru leigðar fyrir sem svarar 1% af fasteignamati og bújarðir fyrir sem svarar 3% af fasteignamati. Þetta gildir þó ekki þar sem til eru eldri ábúðarsamningar. Þeir ábúðarsamningar eru smám saman að falla úr gildi þannig að þá er unnt að endurnýja í samræmi við nýjar reglur. Það er hægt að segja það, að rétt væri að taka upp þá reglu að leiga á jarðeignum væri sama prósenta af fasteignamati hvað sem liður eldri samningum. En það þyrfti þá að rifta eldri samningum með lagaboði ef ekki væri samkomulag. Ég tel að það sé vafasöm aðferð og það hefur ekki verið gert í öðrum málaflokkum að taka af slíka samninga með lögum. Ég tel að það sé heppilegt að fara varlega í þær sakir.

Ég tel að það sé ekki alls kostar rétt, sem hér hefur verið sagt, að hvorki séu fyrir hendi upplýsingar um meðferð þessara mála af hálfu landbrn., né heldur hitt, að ekki hafi verið samræmdir að nokkru leigumálar fyrir þessar eignir ríkisins.

Ég skal svo ekki fjalla um þetta efni í lengra máli, tel þess ekki þörf. Ég vil aðeins ítreka þá skoðun mína, að samþykki þessa frv. væri lítt til bóta, og ég er því andvígur frv.