23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

358. mál, áhrif tölvuvæðingar í skólakerfi landsins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Spurt er um hvað líði framkvæmd þál., sem samþykkt var á Alþingi 21. maí 1981, um áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins.

Því er til að svara, að af þessu tilefni skipaði ég á vegum menntmrn. vinnunefnd til að fjalla um tölvuvæðingu og reyndar aðra tæknivæðingu í skólum. Formaður þessarar vinnunefndar eða starfshóps er Oddur Benediktsson dósent í Háskólanum, en auk hans eru í starfshópnum Anna Kristjánsdóttir lektor, Halla Björg Baldursdóttir kennari, Jón Torfi Jónasson lektor og Karl Jeppesen fulltrúi.

Auk þess, sem segir í þál., á verksvið hópsins að vera eins og ég skal nú greina frá: 1) Að vinna að gerð stöðuyfirlits yfir tölvu- og aðra tæknivæðingu varðandi upplýsingamál í skólum. Enn fremur skal kanna hvort unnt sé að greina einhverja megindrætti í þeirri þróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum. 2) Könnun líklegra áhrifa umræddrar tæknivæðingar á námsefni og kennsluaðferðir svo og menntun og þjálfun nemenda vegna notkunar þessarar tækni í daglegu lífi. Í þessu sambandi skal sérstaklega hugað að menntun kennara. 3) Gerð tillagna um aðgerðir innan skólakerfisins til þess að bregðast við þessari nýju tækni og nýta hana í þágu menntunar og skólastarfs eins og unnt er.

Gert er ráð fyrir að framangreind verkefni nái til grunnskólastigs, framhaldsskólastigs og háskólastigs eftir því sem við verður komið og við á.

Starfshópurinn er kominn vel á stað með þetta verk og mun hann hafa samstarf og á að hafa samstarf við marga aðila. M.a. hefur hann skipulagt fundaröð þar sem fjallað yrði um einstaka þætti málsins, og á fundina er boðið ýmsum aðilum sem á einhvern hátt tengjast þessu máli. Þá er á döfinni könnun á tækjabúnaði og öðrum aðstæðum í skólum sem skipta máli í þessu sambandi.

Ég vil geta þess, að ekki er gert ráð fyrir að neinar sérstakar niðurstöður fáist af þessu starfi fyrr en á haustdögum á þessu ári.

Ég vænti þess, að þessar upplýsingar nægi sem svar við fyrirspurninni.