23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

213. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Alexanders Stefánssonar aflaði ég mér upplýsinga um það hjá Húsnæðisstofnuninni, hvernig staðið hefði verið að því á hennar vegum að framkvæma þau lagaákvæði sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til. Ætla ég nú að fara yfir svör Húsnæðistofnunarinnar, dagsett 26. febr. 1982.

Í fyrsta lagi fjallar stofnunin um tækninýjungar.

Á fundi húsnæðismálastjórnar 12. maí 1981 var samþykkt að fara þess á leit við Iðntæknistofnun Íslands að hún vinni staðal fyrir stærðarmælingar á teikningum íbúðarhúsa. Jafnframt samþykkti húsnæðismálastjórn að greiða þann kostnað sem af því verki leiðir.

Á fundi húsnæðismálastjórnar 5. maí 1981 var tekið fyrir erindi frá Sturlu Einarssyni byggingameistara, Reykjavík, þar sem hann fór fram á fjárstuðning vegna tilrauna með nýjungar í uppsteypu veggja. Stjórnin samþykkti að veita honum fjárhagsfyrirgreiðslu að því tilskildu að nauðsynleg hönnunarvinna, sem á undan færi og hún greiddi kostnað af, leiddi í ljós að stefnt væri í rétta átt. Enn hefur ekki verið gengið eftir þessari fyrirgreiðslu af hálfu byggingameistarans.

Hannes Guðmundsson byggingameistari, Þorlákshöfn, Edgar Guðmundsson verkfræðingur, Reykjavík, og fleiri hafa leitað eftir og fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna tilrauna sinna með framleiðslu á verksmiðjuframleiddum innveggjum.

Magnús Thorvaldsson blikksmíðameistari, Borgarnesi, leitaði á s.l. ári eftir fjárhagslegum stuðningi stofnunarinnar vegna framleiðslu á uppistöðueiningum í innveggi. Stjórn stofnunarinnar samþykkti að veita honum umbeðna fyrirgreiðslu að því tilskildu að áður færi fram nauðsynleg hönnunarvinna sem leiddi í ljós að hér væri stefnt í rétta átt.

Á liðnu ári bárust enn fremur umsóknir um fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Reyni Sf., Akureyri, Brúnási hf„ Egilsstöðum, og þeim Hafsteini Ólafssyni og Halldóri Backman byggingameisturum, Reykjavík. Stjórnin lýsti yfir áhuga sínum á að fylgjast með framvindu þeirra mála sem þeir legðu fyrir stofnunina.

Einum aðila var synjað þar sem talið var að erindi hans ætti heima hjá Iðnlánasjóði.

Á fundi húsnæðismálastjórnar 16. des. 1981 var samþykki að stofnunin tæki þátt í kostnaði við rannsóknir vegna alkalískemmda. Samþykkt var að þessi kostnaðarhlutdeild mætti nema allt að 40% af kostnaðaráætlun Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins eða 800 þús. kr. Til þessa hefur Húsnæðisstofnunin greitt (við s.l. áramót) 409 078 kr. í þessu skyni.

Á árunum 1975 og 1976 tók Húsnæðisstofnunin ríkan þátt í umfangsmiklum rannsóknum á tvöföldu einangrunargleri sem notað hefur verið hérlendis. Rannsóknir þessar fóru fram á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og náðu jafnt til innlends sem innflutts einangrunarglers. Þessum rannsóknum mun nú að mestu eða öllu lokið. Stofnunin greiddi til þessara rannsókna 1500 þús. gkr.

Fyrir fáum árum veitti Húsnæðisstofnun umtalsverðar fjárhæðir til stuðnings steypuefnaleit í sjó fram bæði á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Nýlega hefur húsnæðismálastjórn haft forgöngu um stofnun starfshóps nokkurra aðila sem hefur það verkefni að rannsaka gæði og gerð einingahúsa sem byggð eru hér á landi. Á síðasta fundi sínum samþykki húsnæðismálastjórn að verja allt að 80 þús. kr. til þessa verks sem talið er að kosta muni samtals um 170 þús. kr.

Upp á síðkastið hefur ekki verið efnt til samkeppni um gerð íbúðarhúsa, en tillögur þar að lútandi eru til athugunar hjá Húsnæðisstofnun og í stjórn stofnunarinnar.

Tækninýjungar, sem stuðlað gætu að lækkun byggingarkostnaðar, hafa verið kynntar eftir því sem tök hafa verið á. Hefur það t.d. verið gert með eftirtöldum hætti:

Með aðild að starfsemi Byggingarþjónustunnar vill stofnunin leggja sitt af mörkum til þess að koma sem mestri kynningu á framfæri. Aðrir eignaraðilar að Byggingarþjónustunni eru Arkitektafélag Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Húsnæðisstofnun er aðili að störfum starfshóps hennar sjálfrar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins varðandi orkusparandi aðgerðir í húsbyggingum. Iðnrn. skipaði þennan starfshóp og eru í honum fulltrúar þess, Orkustofnunar, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Húsnæðisstofnunar ríkisins. Framkvæmdaaðilar og einstaklingar eiga kost á margvíslegri ráðgjöf á þessu sviði eftir því sem eftir er leitað.

Hér hef ég, herra forseti, lesið upp það svar sem mér barst frá Húsnæðisstofnun ríkisins við fyrirspurn hv. þm. Alexanders Stefánssonar. Af því kemur fram að fjölmargir aðilar hafa leitað til stofnunarinnar um stuðning og fyrirgreiðslu. Þó tel ég að sjálfsögðu víðs fjarri að nægilega hafi verið að gert í þessum efnum. En ég minni á að á því sviði, sem hér er um að ræða, er það ekki einungis Húsnæðisstofnunin sem hefur lagaskyldur. Það á einnig við um Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Herra forseti. Í tilefni af því, að þessi mál ber hér á góma, vil ég leyfa mér að geta þess, að fyrir nokkru fóru hér fram umræður um alkalískemmdir í húsum og ráðstafanir vegna þeirra á vegum opinberra aðila. Það hefur verið mat félmrn. og Húsnæðisstofnunar ríkisins að ekki væri rétt að taka ákvörðun um tegund fyrirgreiðslu vegna viðgerða á alkalískemmdum fyrr en fullnaðarrannsóknir hefðu farið fram á slíkum skemmdum og því, hvaða leið væri heppilegust til að gera við þær. Þær fullnaðarrannsóknir liggja nú senn fyrir, og strax og um það er að ræða mun Húsnæðisstofnunin taka ákvörðun um það, með hvaða hætti hún, undir flokki viðgerðarlána, kemur til móts við þá sem hafa orðið fyrir tjóni á húsum sínum vegna svokallaðra alkalískemmda.

Ég vænti þess, herra forseti, að fsp. hv. þm. sé svarað Helgi Seljan: Herra forseti. Mér þykir fsp. mjög svo þörf og vil þakka hv. fyrirspyrjanda að hún skuli koma hér á dagskrá. Hins vegar er enginn tími til þess í fsp.tíma að ræða þetta mál sem skyldi, en verður trúlega gert síðar á öðrum vettvangi.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að þrátt fyrir þann upplestur, sem hæstv. félmrh. las hér frá húsnæðismálastjórn eða Húsnæðisstofnun, þá sé öllum ljóst að þessu máli er engan veginn nógu góður gaumur gefinn. Hér er í raun um eitt þýðingarmesta atriði að ræða, að því er ég tel., í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins og þjóðhagslega mikilvægasta alveg tvímælalaust. Það atriði, er snertir tækninýjungar sem geta orðið til þess að lækka byggingarkostnað okkar, er vitanlega eitt af höfuðverkefnum þessarar stofnunar og stjórnar hennar. Ég tel því að það þyrfti að stuðla miklu betur að þeim nýjungum, sem að gagni gætu komið, og setja enn skýrari fyrirmæli um það fyrir þessa stofnun, að hún verði hvetjandi aðili í þessum efnum, ekki hlutlaus, að ég ekki tali um letjandi, þó að ég sé ekki að væna hana um slíkt.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar nú, enda ekki tími til þess. Ég vil taka undir það, að kynning á öllum þessum málum þarf að vera miklu gleggri og betri. Það er ekki nóg að nýjungum sé komið fram, að nýjungin sé viðurkennd. Fólk þarf að vita af henni. Fólk þarf að vita af kostum hennar og því, hvað hún hefur í för með sér.

Að lokum varðandi þá ályktun, sem hér var samþykkt í fyrra frá okkur nokkrum þm., um sérstaka rannsókn á aðferð við útveggjagerð. Ég hefði talið að Húsnæðisstofnunin hefði eftir þá samþykkt Alþingis tvöfalda ástæðu til að sýna hinar jákvæðustu undirtektir og hreinlega hvetja til aðgerða í þá átt sem þar var fyrir mælt.