23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið við fsp. minni. Hann gaf þær upplýsingar, að það væri ekki nema hluti af lánunum, sem voru veitt 1978–1979 af Byggingarsjóði, sem væri með óhagstæðari kjörum en þau lán sem nú eru veitt, — þau lán, sem væru til skemmri tíma væru ekki með óhagstæðari kjörum. Ég vefengi að sjálfsögðu ekki þessar upplýsingar, en ég bendi á það, að þegar húsnæðislöggjöfin var sett 1980 og bráðabirgðaákvæði það, sem vitnað er til í fsp. minni, var gert ráð fyrir að um væri að ræða lán með óhagstæðari lánakjörum á tímabilinu 1974–1979. Hæstv. ráðh. sagði að hann hefði töflu eða útreikninga yfir árin 1978–1979. Það voru líka töflur og útreikningar yfir tímabilið 1974–1979 þegar húsnæðislöggjöfin var sett. Ég reikna með, að það hafi verið réttar tölur, og það þarf ekki að hrekja það sem hæstv. ráðh. var að segja. En ég bendi á þetta til þess að undirstrika mikilvægi þessa máls. Það var gaumgæfilega athugað þegar húsnæðislöggjöfin var sett 1980, og ég hygg að það hafi verið rétt með farið þá.

Hæstv. ráðh. gaf þær upplýsingar, að allmargir hefðu spurst fyrir um breytingar á þeim lánum sem hér um ræðir hjá húsnæðismálastjórn, en aðeins einn aðili hafi lýst sig fúsan að taka hið hagkvæmara lán. Ég fékk einhverjar svipaðar upplýsingar hjá húsnæðismálastjórn eða veðdeild Landsbankans. En þetta er mér ekki nægilegt. Eins og hv. 5. þm. Suðurl. tók fram er gert ráð fyrir því í lögum, að húsnæðismálastjórn skuli í samráði við veðdeild Landsbanka Íslands hlutast til um að þetta sé gert. Það hefur ekki verið gert. Fsp. mín er borin fram til þess að vekja athygli ekki síst á þessari staðreynd, í því trausti að hæstv. félmrh. láti ekki sitja við það ástand, sem er í þessum efnum, heldur gefi húsnæðismálastjórn bein fyrirmæli um að framkvæma þetta ákvæði laganna eins og ætlast var til þegar þau voru sett.

Hér hefur af öðrum verið komið inn á húsnæðismálin að öðru leyti. Ég tek undir það sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði um mikilvægi þess að aðstoða þá sem hafa ekki fengið nægileg föst lán til þess að standa undir byggingarkostnaði. Ég tek undir það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði um ástandið í húsnæðismálunum. En ég ætla ekki að fara að ræða það. Ég held ég láti nægja núna að vísa til þess sem ég hef sagt í mörgum ræðum á þessu þingi um þau mál.