23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar umr., sem hér fer fram, langar mig að skjóta nokkrum orðum að hæstv. landbrh. og öðrum þeim sem hlut eiga að máli. Í fyrsta lagi er auðvitað mjög alvarlegt mál hvernig staða Bjargráðasjóðs er orðin. Það kemur æ oftar fyrir að sjóðurinn er fullkomlega vanmegnugur að bjarga málum af þeim toga sem hér um ræðir. Auðvitað gengur það ekki lengi, að sjóðurinn taki erlend lán til þess að bjarga í horn þegar svo stendur á sem nú. En liður af þessu máli er það, að í ljós hefur komið að undanförnu æ betur að lán úr Bjargráðasjóði — eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi með nokkrum orðum — og önnur aðstoð við bændur vegna uppskerubrests eða harðæris hvers konar er ekki undanskilin við útreikning til verðbreytingarfærslu í framtali. Það hefur því gerst — það er sannað mál — að skuldaaukning vegna harðæris hefur verið skattlögð. Það jafngildir því í stuttu máli, að skaðinn hafi verið skattlagður. Þetta gengur auðvitað ekki heldur.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. landbrh. hvort hans ráðuneyti hefði eitthvað kannað þetta mál eða hvort von væri á einhverjum lagfæringum, sem kæmu í veg fyrir að bændur hlytu enn alvarlegri skell en sjálft tjónið gefur til kynna, með því að fá aðstoð frá sjóðum eins og Bjargráðasjóði.

Ég vil enn fremur, af því að ég er hingað kominn, geta þess — og skal vera stuttorður, herra forseti — að landbrh. minntist á tjón sem varð vegna kalkskemmda. Ég lagði fram á þingi fyrr í vetur tillögu um sérstakan stuðning vegna kalrannsókna að Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem við eigum tvímælalaust einn hæfasta sérfræðing landsins í kalrannsóknum. Ég er dálítið hissa á að þessi till. virðist hafa dagað uppi í nefnd hér á þinginu. A.m.k. hefur hún ekki komið á borð þm. aftur frá nefnd þrátt fyrir það að Búnaðarþing hafi lýst yfir fyllsta stuðning við þessa till.