24.03.1982
Efri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið til meðferðar frv. það sem hér er á dagskrá. Nefndin gerir till. um að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá sem flutt er á sérstöku þskj.

Þetta frv. fjallar að sjálfsögðu um hið mikilvægasta mál þar sem um er að ræða breytingar á sveitarstjórnarlögum. Með tilliti til þessa sendi nefndin frv. til umsagnar vítt og breitt um landið, til sýslumanna, bæjarfógeta og landshlutasamtaka og Sambands ísl. sveitarfélaga. Í umsögnum þeirra kennir margra grasa. Þar er lýst óánægju eða andstöðu við ýmis efnisatriði frv., jafnframt er lýst stuðningi við önnur. En hjá sumum aðilum, einkum er það hjá sýslumönnum, er lagt til að málið verði ekki afgreitt að sinni þar sem ekki hafi gefist tími til að leggja málið fyrir sýslunefndarfundi sem eru venjulega að vor eða sumarlagi, skilst mér. Þá hefur í ýmsum umsögnum verið bent á að sveitarstjórnarlögin séu í endurskoðun. Svo er ástatt að stjórnskipuð nefnd vinnur að heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Benda sumir á að ekki sé eðlilegt að afgreiða frv. meðan á þessari endurskoðun stendur.

Með tilliti til þessa, hæstv. forseti, hefur nefndin lagt fram till. um rökstudda dagskrá eins og ég gat um áðan. Þessi till. er lögð fram á þskj. 494 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að stjórnskipuð nefnd vinnur nú að heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga og rétt þykir að tillögur hennar liggi fyrir áður en efnisleg afstaða er tekin til þessa frv. tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“