24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3233 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. gerði ítarlega grein fyrir sjónarmiðum meiri hl. fjh.- og viðskn. varðandi þau lánsfjárlög sem hér eru til umr. Vék hann mjög ítarlega í framhaldi af því nál., sem við höfum gefið út á þskj. 513, að einsökum efnisatriðum þessa frv. En mig langar til að bæta þarna örlitlu við, hverfa svolítið aftur í tímann og víkja að því, hvernig að þessum málum var staðið, og gera örlítinn samanburð á því og hvernig að þessum málum er staðið í dag af þeim mönnum sem gagnrýndu frumsmíði lánsfjáráætlunar á sínum tíma.

Það eru nú um það bil 20 ár síðan fyrstu lánsfjárlögin voru samþykkt á Alþingi. Það hét þá „erlendar lántökur til opinberra framkvæmda.“ Um var að ræða tiltölulega lágar upphæðir fyrstu árin, þ.e. á árunum 1963–1971, enda var það í samræmi við þá stefnu í fjármálum og efnahagsmálum sem þær ríkisstjórnir höfðu sem sátu það tímabil, þ.e. viðreisnartímabilið. En 1971 breytist þetta. Þá breytist ríkisstjórnin í þessu landi og við tók vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Þeir tóku við góðu búi, digrum sjóðum. Það mátti líka sjá það fyrstu mánuðina eftir að þeir tóku við og settust í ráðherrastólana. En það var ekki um að ræða endalausa uppsprettu fjármagns sem þeir hefðu not af. Auðvitað kom að því, að sjóðirnir, sem þeir tóku við með svo miklu fjármagni, urðu gjaldþrota og með einhverjum hætti varð að afla fjár til að standa undir framkvæmdum, standa undir eyðslu, sem þeir höfðu stofnað til. Á árunum 1971–1974 var í vaxandi mæli farið í erlendar lántökur til að fá fjármagn sem þurfti til að koma fram þeim áformum og óskum sem þeir komu sér saman um. á þessum tíma var framkvæmdaáætlun, þ.e. frv. um erlendar lántökur vegna framkvæmdaáætlana, ekki samþykkt fyrr en komið var fram á árið og pantanir höfðu borist í 2–3 mánuði frá þeim ráðh. sem þá sátu í ríkisstj. og hugðust nú gera mikið.

Þess vegna var það eitt af þeim atriðum sem bætta stjórn á efnahags- og fjármálum sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar ákvað á árinu 1974, að samhliða samþykkt fjárlaga skyldi gerð áætlun um erlendar lántökur, lánsfjármarkaðinn, og lánsfjáráætlun skyldi lögð fram svo snemma sem mögulegt væri, helst auðvitað með fjárlagafrv., en skilyrðislaust yrði það frv., sem heimilaði erlendar lántökur, samþykkt á sama tíma og fjárlög. Eðli málsins samkv. á að samþykkja það áður en atkvgr. við 3. umr. fjárlaga fer fram.

Á árinu 1975, um haustið, var unnið að fyrstu lánsfjáráætluninni, eins og hún hét þá, nú lánsfjár- og framkvæmdaáætlun, og hún var lögð fram í desember, á sama tíma og þm. fjölluðu um fjárlögin, og lögin voru samþykkt á nákvæmlega sama tíma. Þannig gerðist þetta síðla árs 1976. En á árinu 1977 tókst að leggja fram lánsfjáráætlun þegar 2. umr. fjárlaga fór fram. Höfðu þá fjvn.-menn haft lánsfjáráætlunina til skoðunar nokkra daga og gátu þess vegna gert sér grein fyrir hvert stefndi í þessum málum.

Það var ekki laust við að sá sem gegndi embætti fjmrh. þessi ár fengi að heyra það frá þeim Alþb.-mönnum, að allt of seint væri að lánsfjáráætlun væri lögð fram við 2. umr. fjárlaga, hvað þá 3. umr. Lánsfjáráætlun yrði að leggja fram með fjárlögum og þannig að hægt væri að ganga frá henni, samþykkja lánsfjárlög á sama tíma og fjárlög. Þetta hafði að vísu verið gert. Enda þótt skammur tími væri til að vinna þessi mál tókst þetta. En ég minnist þess, að hæstv. núv. fjmrh. hreyfði einhverjum athugasemdum. Formaður Alþb. á þeim tíma hreyfði aths. Ég man eftir að fulltrúi Alþb. í fjvn., núv. hv. formaður fjvn., gerði aths., og ég held að ég muni eftir því, að hv. 6. landsk. þm. hafi vikið að því hér, að þetta þyrfti að verða örlitið fyrr á ferðinni. Það var allt saman hárrétt. Það voru aths. sem voru réttar og þess vegna létu menn sér detta í hug, þegar mynduð var ríkisstjórn á miðju árið 1978, að nú yrðu viðhöfð önnur vinnubrögð og nú skyldi ekki vera neitt sem hægt væri að komast fram hjá, það gerðu ekki aðeins loforð eða yfirlýsingar, ekki bara stjórnarsamningur, heldur yrði sett í lög að lánsfjáráætlunin skyldi lögð fram á sama tíma og fjárlög og afgreidd á sama tíma. Þetta var gert. Að vísu tókst þeim ekki haustið 1978 að ljúka gerð lánsfjáráætlunar né heldur leggja fram á Alþingi frv. til l. um lánsfjárlög, eins og þó hafði tekist á árunum á undan. Til þess að þetta endurtæki sig ekki voru sett ákvæði í lög, sem nefnd hafa verið Ólafslög, þar sem þetta var neglt niður og nú skyldu menn ekki komast hjá því. Hvað hefur gerst síðan? Lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 var ekki til og lánsfjárlög ekki samþykkt fyrr en komið var langt fram á vetur og fyrir 1980 ekki heldur. Þá afsökuðu menn sig með því, að það væru nýorðin stjórnarskipti. 1981 gerðist nákvæmlega hið sama. Og nú erum við komnir fram á árið 1982, bráðum liðinn fjórðungur af árinu, og enn erum við að ræða um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög.

Þeir, sem gagnrýndu frumsmíði lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga á sínum tíma, hafa fengið tækifæri. Þetta er fjórða tækifærið sem þeir fá til að framkvæma lánsfjárlagagerðina, eins og þeir töldu í upphafi að hana skyldi framkvæma og negldu það niður með lagasetningu á árinu 1979.

Það er ástæða til að rifja þetta upp og vekja athygli á þessu því að í raun og veru er hér um að ræða örlítið sýnishorn af stjórn landsins allan þennan tíma. Það stenst ekkert af því sem sagt hefur verið, ég tala nú ekki ef menn taka upp úr pússi sínu stefnuskrá flokka þeirra sem nú sitja í ríkisstj. frá því fyrir kosningar og bera saman. Það var gert hér í dag af hv. 1. þm. Vestf. Þá sjá menn best með hvaða háttalagi núv. ríkisstj. starfar.

Það liggur ljóst fyrir, að setning lánsfjárlaga og gerð lánsfjáráætlunar er ekki síður þýðingarmikið atriði en gerð fjárl. og setning fjárlaga. Svo stór þáttur er fjármögnun opinberra framkvæmda með erlendu fé að það er ekki síður ástæða til að menn geri sér í upphafi árs grein fyrir hvert skuli stefnt í þeim efnum. Þegar um 20–25% af því fjármagni, sem ríkið tekur til sín, er lánsfjármögnun, þá er ekki síður ástæða til að hyggja að þegar lánsfjáráætlun er gerð. Það liggur í augum uppi hvers vegna. Það, sem ríkissjóður hefur í beinar tekjur, er skattféð frá borgurunum. Það er það sem við, sem lifum á líðandi stund, leggjum í sameiginlegan sjóð. En lántökur eru víxill á framtíðina. Þar eru víxill á þá sem síðar koma til með að greiða til ríkisins. Með þeirri stefnu, sem höfð hefur verið þau tvö ár sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið, sjáum við hrikalegri lántökur og niðurstöður en við hefðum e.t.v. látið okkur detta í hug.

Það liggur ljóst fyrir hjá hverjum einstakling, hjá hverri fjölskyldu, hjá hverju fyrirtæki, hverju þjóðfélagi, að greiðslubyrði er það sem skoða verður mjög gaumgæfilega þegar erlendar lántökur eru annars vegar, til þess einfaldlega að menn geri sér grein fyrir því, hvort þeir hafi efni á því, sem þeir eru að gera, eða ekki. Lánsfjáráætlunin fyrir árið 1981 og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 eru með sama markinu brenndar. Hér er fyrst og fremst verið að safna saman óskum pólitískra gæðinga. Hér er verið að stofna til erlendrar lántöku og ekkert hirt um hvað við erum í raun og veru að gera og hvert stefnir á næstu árum. Sem greiðslubyrði af þjóðarframleiðslu eru erlend lán nú að nálgast 20%. Þegar lánsfjárlagafrv., sem hér er á ferðinni, er komið til framkvæmda nálgast hlutfall erlendra skulda í heild 40%. Árið 1977 voru þessar tölur 14% í greiðslubyrðinni og erlendar skuldir voru 31% af þjóðarframleiðslu. Það er því fullkomlega ljóst að núv. hæstv. ríkisstj. stefnir þessu í hreinan voða.

Þegar lánsfjárlögin voru samþykkt 1977 og 1976 var um að ræða frv. til l. með sex greinum árið 1976 og í sams konar frv. 1977 voru sjö greinar. Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982 er komið upp í hvorki meira né minna en 29 greinar. Hvað segir þetta okkur? Jú, þegar frv. er skoðað liggur í augum uppi að hér er ekki eingöngu um að ræða frv. til l. um heimild til erlendrar lántöku. Hér er um að ræða frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og um að ræða það sem við köllum hér í þingsölum bandorm. Hér er um að ræða hreinar breytingar á ótalmörgum lögum. Hér er um að ræða breytingar á fjárl. sjálfum sem nýbúið er að samþykkja. Hér er um að ræða ábyrgðarheimildir vegna framkvæmda sem alls ekki hafa verið teknar ákvarðanir um. Hér er um að ræða niðurskurð á framlagi til fjölmargra stofnsjóða og þannig mætti lengi telja — 29 greinar, eins og ég sagði áðan. Frv. er ekki lengur frv. til lánsfjárlaga. Hér er um að ræða einn bandorm í sambandi við efnahagsráðstafanir sem núv. ríkisstj. telur sig þurfa að gera.

Frv. var lagt fram í nóvembermánuði. Forsendur þess eru hinar sömu og fjárl. Það er ákveðin tala sem fundin er og reiknað út frá henni. Þegar frv. verður samþykkt eru forsendurnar í efnahagslífinu orðnar gerbreyttar og frv. verður því pappírsgagn og ekkert annað en pappírsgagn þegar það hefur verið samþykkt. Það er pappírsgagn að því leyti, að allar tölur, sem í því eru, eru rangar. Þær eru ekki í neinu samræmi við það sem er að gerast. Þær eru ekki einu sinni settar fram í neinu samræmi við það sem var að gerast þegar frv. var lagt fram, hvað þá að það sé í nokkru samræmi við það sem hefur gerst síðan og er enn að gerast. Og enn þá breytist frv. Fram koma brtt. frá minni hl. sem eru fyrst og fremst brtt. sem ríkisstj. hefur óskað eftir við stuðningsmenn sína að fluttar yrðu, og enn hækka erlendar lántökur. Enn er verið að leggja nýja pinkla á ríkið í einu eða öðru formi. Það er verið að samþykkja viðbótarvíxla fram í tímann og það meira að segja svo að menn hafa ekki hugmynd um hvaða tölur standa á þeim víxlum. Þannig eru þessi vinnubrögð.

Það liggur í hlutarins eðli að svo er komið sem ég vék að áðan. Ríkið tekur meir og meir til sín. Fólkið hefur minna hjá sér. Við erum með miklum meiri erlendar lántökur en talið er forsvaranlegt. Greiðslubyrðin er orðin miklu meiri en talið er hægt að rísa undir, að ég tali nú ekki um að engar þær tölur, sem hafa verið nefndar í þessu sambandi, eru í samræmi við það, sem stjórnarsamningur núv. hæstv. ríkisstj. segir til um, eða það, sem fram hefur komið hjá stjórnarflokkunum þegar þeir á sínum tíma gengu til kosninga, gagnrýndu það, sem gert hafði verið á árunum 1974–1978, og sögðu fólki, hvernig þeir hygðust nú gera þetta allt öðruvísi.

Ég skal ekki, herra forseti, fjölyrða meira um þetta frv. Ég hef vikið að þeim atriðum sem ég vildi undirstrika og bæta við það sem frsm. meiri hl. n. sagði í ræðu sinni í dag. En ég vil að lokum leyfa mér að mæla fyrir tveimur brtt. sem meiri hl. flytur á þskj. 516 og 517.

Á þskj. 516 leggjum við til að upphaf 28. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Fjmrh. skal leita samninga við þá lífeyrissjóði, sem lögbundnir eru eða njóta viðurkenningar fjmrn., sbr. 1. tölul. D-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að þeir verji á árinu a.m.k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum með fullri verðtryggingu til langs tíma af ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins, Byggingarsjóði verkamanna, Framkvæmdasjóði Íslands og fjárfestingarlánasjóðum o.s.frv.“

Við teljum að þessum málum sé best komið með samkomulagi við þessa aðila. Þannig var það þegar sjálfstæðismenn fóru með þessi mál, og við teljum að þannig eigi það að vera.

Á þskj. 517 flytjum við brtt. við 6. tölul. í brtt. minni hl. á þskj. 503, þar sem gert er ráð fyrir heimild til handa ríkisstj. að lækka ríkisútgjöld um 120 millj. kr. Skömmu eftir að fjárlög eru samþykkt sækir ríkisstj. um heimild til að lækka ríkisútgjöldum. Þetta er að sjálfsögðu vegna þess að lánsfjáráætlun og ákvarðanataka í efnahagsmálum eru ekki gerðar á þeim tíma sem þær skal gera. Ákvarðanir um fjárlög, lánsfjáráætlun og ráðstafanir í efnahagsmálum fyrir árið 1982 átti að taka allar í desembermánuði. Ef það hefði verið gert þyrfti ríkisstj. ekki hér að sækja um heimildir til að lækka ríkisútgjöldin um 120 millj. kr. En það, sem okkur sýnist þó öllu verra, er að Alþingi fær ekki vitneskju um með hvaða hætti eða hvernig þessi lækkun ríkisútgjalda skuli eiga sér stað. Við óskuðum eftir því í fjh.- og viðskn., að við fengjum sundurliðun á þeirri lækkun ríkisútgjalda sem hér er áformað, en ekki var möguleiki að fá þær upplýsingar. Fjárlögin höfðu gert ráð fyrir 50 millj. kr. lækkun. Hér er bætt við 70 millj. í 6. brtt. minni hl. samkv. beiðni ríkisstj. Okkur í meiri hl. finnst eðlilegt og sjálfsagt að slík lækkun ríkisútgjalda fari ekki fram öðruvísi en það sé að fengnu samþykki fjvn. Hér á Alþingi vinna menn margar vikur í sambandi við fjárlagagerð að því, hvernig þeir geti skynsamlegast nýtt það fjármagn sem til ríkissjóðs rennur. Svo er komið og ætlað að lækka ríkisútgjöldin með einu pennastriki um 120 millj. kr. án þess að þingið fái nokkuð um það að vita. Við teljum því eðlilegast og flytjum brtt. á þskj. 517 við brtt. minni hl., 6. tölul., að upphaf hinnar nýju greinar, sem þar er lagt til að verði 11. gr., orðist svo: „Þrátt fyrir ákvæði fjárlaga ársins 1982 er ríkisstj. heimilt að fengnu samþykki fjvn. að lækka ríkisútgjöld um 120 millj. kr.“ Við viljum freista þess að fá þessari till. breytt þannig, enda þótt hún sé ekki þannig orðuð í brtt. minni hl. á þskj. 503.

Ég vil svo ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að vinnubrögð þeirra, sem nú fara með fjármálastjórnina, eru ekki í samræmi við þá gagnrýni sem þeir létu koma fram þegar frumsmíði lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga var til meðferðar á Alþingi, enda er framkvæmd mála öll í samræmi við það.