03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

1. mál, fjárlög 1982

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það sem mér fannst athyglisvert við ræður stjórnarandstæðinga, herra forseti, var í fyrsta lagi það, að talsmaður Sjálfstfl. sagði að þetta væri vont fjárlagafrv. (Gripið fram í: Er það ekki alveg hárrétt?) Talsmaður Alþfl. sagði á hinn bóginn að þetta væri dæmigert Matthíasar Á. Mathiesenfjárlagafrv. Ekki gengur nú stjórnarandstaðan í takt að því er varðar álit á fjárlagafrv.

Hæstv. fjmrh. hefur gert ítarlega grein fyrir fjárlagafrv. og einstökum þáttum þess. Ég vil í upphafi máls míns gera grein fyrir þeirri almennu stefnu sem felst í fjárlagafrv. og snertir efnahagsmálin.

Meginmarkmið ríkisstj. kemur fram í upphafi aths. í frv. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Meginmarkmiðið er að draga úr verðbólgu, jafnhliða

því sem áhersla er lögð á að halda uppi viðunandi kaupmætti almennra launa, tryggja afkomu atvinnuveganna og fulla atvinnu um allt land.“

Fyrsta atriðið er að mínu mati meginatriðið, þ. e. að draga úr verðbólgunni. En vandinn er meiri þegar að því kemur að svara því, hvernig eigi að gera það. Á yfirstandandi ári hefur það gerst, að verulegur árangur hefur náðst í baráttunni við verðbólguna. Ef ekki hefðu verið gerðar neinar efnahagsráðstafanir um s. l. áramót, þá töldu a. m. k. stjórnarandstæðingar að verðbólgan á þessu ári mundi verða 70–80% og sumir aðilar spáðu meiri verðbólgu.

Nú deila menn um hvað verðbólgan sé mikil. Ég vil benda á það, að Seðlabankinn hefur sagt sína skoðun um það, hvað verðbólgustigið hafi verið hátt í ágústmánuði s. l., að það hefði verið 40.2%. Var það þá reiknað með þeim aðferðum, sem Seðlabankinn hefur notað í því sambandi undanfarna áratugi, er óhætt að fullyrða.

En í hverju hafa þær aðgerðir verið fólgnar sem hafa haft þessi jákvæðu áhrif á þróun verðbólgunnar? Fyrst og fremst í niðurtalningu verðbólgu og aðhaldi í peningamálum, ríkisfjármálum og fjárfestingu. Niðurtalningin hefur verið fólgin í ákveðnum áfangaákvörðunum um verðlag á vöru og þjónustu, niðurtalningu verðbóta á laun, lækkun skatta á lágtekjum, lækkun aðflutningsgjalda, lækkun vaxta og aðhaldi í ákvörðunum um fiskverð, landbúnaðarvöruverð og í gengismálum. Stjórnarandstaðan hefur deilt á ríkisstj. fyrir að hún sé að safna upp vanda, hún hafi t. d. í verðlagsmálum haldið allt of þétt um verðlagið og það hafi komið niður t. d. á rekstri opinberra fyrirtækja á þann veg, að það hafi safnast þar upp vandi. Það er rétt, að beitt hefur verið stífu aðhaldi í verðlagsmálum á þessu ári. Ég er þó þeirrar skoðunar, að gætt hafi verið að því, að hægt væri að reka fyrirtæki með eðlilegum hætti. Gagnrýni á verðlagningu á opinberri þjónustu kom m. a. fram í umr. hér áður. Voru nefnd alveg sérstaklega í því sambandi Hitaveita Reykjavíkur og Landsvirkjun og sagt að ríkisstj. hafi legið á verðlagstöxtum þessara fyrirtækja. Ég vil þess vegna upplýsa það, að á árinu 1980 hækkaði gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur um 72.9% og á yfirstandandi ári mun hún hækka um 36%. Samtals er hækkunin á tveimur árum um 135%. Ég hef ekki trú á að safnast hafi upp vandi af þessum ástæðum hjá Hitaveitu Reykjavíkur á árunum 1980 og 1981, enda er augljóst að svo hefur ekki verið.

Ef við athugum hvaða meðferð Landsvirkjun hefur hlotið í þessu sambandi, þá hækkaði gjaldskrá Landsvirkjunar á árinu 1980 um 90.7% og á þessu ári verður hækkunin 66%, eða samtals hækkun á tveimur árum um 193%. Ég held að það verði ekki með neinu móti hægt að halda því fram með fullum rökum, miðað við þær verðlagshækkanir sem hafa orðið að öðru leyti á þessum tveimur árum, að safnast hafi upp vandi vegna þess að legið hafi verið á verðlagsákvörðunum þessara tveggja stofnana sem oft og tíðum eru tilgreindar í þessu sambandi.

Þrátt fyrir árangur í verðbólgumálum þarf að tryggja mun betur en nú er rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Ríkisstj. vinnur markvisst að því máli. Þessari stefnu niðurtalningar á að halda áfram, þ. e. að draga úr kostnaði við framleiðslu og beita almennu aðhaldi í efnahagsmálunum.

Það, sem þyrfti að gera, er m. a. að telja niður eftirtalda þætti: Í fyrsta lagi að setja ákveðin verðlagsmörk sem eru í aðalatriðum við það miðuð að draga hlutfallslega jafnmikið úr verðbólgu á næsta ári og á þessu ári. Í öðru lagi með lækkun skatta á atvinnuvegunum, með lækkun launaskatts og aðstöðugjalds, svo að dæmi séu nefnd, og e. t. v. fleiri skatta. Þetta og fleira þarf að gera til að tryggja fulla atvinnu í landinu. Þá verði áfram lögð áhersla á byggðastefnu og jöfnun lífskjara án tillits til búsetu manna. Í þriðja lagi með niðurtalningu verðbóta á laun án þess að ganga á kaupmátt ráðstöfunartekna og spyrna með því gegn víxlhækkun kaupgjalds og verðlags til þess m. a. að auka kaupmátt lægri launa. Það er staðreynd, að láglaunamenn fara meir halloka en aðrir í viðskiptum við verðbólguna. Þegar af þeirri ástæðu er það í hag láglaunamönnum og efnalitlu fólki að berja verðbólguna niður. Þá álít ég einnig að rétt sé að athuga möguleika á skattalækkunum. Í fjórða lagi með lækkun vaxta. Í fimmta lagi með aðhaldi um ákvörðun fiskverðs og landbúnaðarvöruverðs. Og í sjötta lagi með aðhaldsstefnu í gengismálum, en þess verður þó að gæta, að gengisskráningu sé hagað á þann veg að tryggja eðlilegan rekstur útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar og samkeppnisiðnaðar. Að lokum verður að gæta aðhalds í ríkisfjármálum, peningamálum og fjárfestingu.

Þetta er í meginatriðum sú leið sem æskilegt væri að fylgja á næsta ári, en að sjálfsögðu verður að útfæra hana miklu nánar en ég hef gert hér í örfáum orðum.

Ríkisstj. hefur lagt fram hér á Alþingi auk fjárlagafrv. bæði þ jóðhagsáætlun og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Í öllum þessum gögnum koma fram margvíslegar staðreyndir um ástand í efnahagsmálum. Þar er að finna upplýsingar um þjóðarframleiðslu, þar eru áætlanir um horfur í viðskiptakjörum þjóðarinnar út á við og ýmsar fleiri upplýsingar um stöðu hagkerfisins sem verður að hafa hliðsjón af þegar heildarákvarðanir eru teknar, t. d. um kaup og kjör.

Það er ákaflega áríðandi að áfram fari fram samráð milli ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um kjaramálin og afkomu atvinnuveganna. Þeim mun meiri sem þessi samráð eru, þeim mun meiri líkur eru á að allir þeir aðilar, sem máli skipta, átti sig á bláköldum staðreyndum efnahagslífsins sem verður að taka tillit til við ákvarðanir í efnahagsmálum. Ef menn loka augunum fyrir þeim staðreyndum er ekki von að vel fari. Nú er verið að ganga frá meðferð þessara samningsmála milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins í samræmi við ákvæði Ólafslaga.

Kjaramálin eru auðvitað mjög gildur þáttur efnahagsmála þar sem talið er að laun nemi a. m. k. 70–75% af þjóðarframleiðslunni. Raunhæf stefna í kjaramálum verður að byggjast á möguleikum fyrirtækja til að greiða hærri laun, þjóðarframleiðslu, viðskiptakjörum þjóðarinnar og öðrum þeim atriðum sem máli skipta. Það getur oft verið gagnlegt fyrir okkur að líta til annarra landa um meðferð mála og stefnumörkun, ekki síst Norðurlandanna, og athuga hvernig þær þjóðir hafa leyst sín efnahagsvandamál þegar svipað hefur staðið á hjá þeim eins og stendur á hjá okkur um þessar mundir.

Á árunum 1967 og 1968 var mjög mikil verðbólga í Finnlandi og samkeppnisstaða útflutningsatvinnuveganna því slæm. Þá var alveg ljóst að nauðsyn bæri til að lækka finnska markið mjög verulega eða yfir 30%. Öllum ábyrgum aðilum í þjóðfélaginu var ljóst að ef slík gengisfelling yrði að veruleika, með þeim víxlverkunaráhrifum á verðlag og laun sem af henni leiddi, mundu efnahagsmál Finna gjörsamlega fara úr böndum. Eftir langar og mjög ítarlegar viðræður milli ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins var á árinu 1968 gert samkomulag sem var samþykkt í þinginu og fól m. a. í sér afnám vísitölubindingar á laun. Voru allir aðilar sammála þeirri ákvörðun, en verkalýðssambandið hafði þann fyrirvara á, að þetta væri til reynslu. Í kjölfarið tókst að koma í veg fyrir kollsteypu í efnahagsmálum og verðbólgan minnkaði verulega á næstu árum á eftir. Viðmælendur í Finnlandi voru sammála um, að afnám vísitölubindingarinnar hefði verið til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi aðila, og töldu að rauntekjur hefðu aukist meira næstu árin á eftir en ella hefði orðið.

Í Finnlandi er kjarasamningum háttað svipað og er í Svíþjóð. Launaviðmiðun er endurskoðuð í ljósi verðlagsþróunar, en ekki sjálfvirk tenging á milli launa og verðlags. Tekið er tillit til stöðu atvinnuveganna og þjóðarbúsins og möguleika á kaupmáttaraukningu án aukinnar verðbólgu. Í Noregi er laun ekki vísitölubundin. Og í Danmörku hefur um langan tíma gilt skert verðbótakerfi. Virðast Danir stefna í þá átt að hverfa frá sjálfvirku verðbótakerfi, enda hafa þeir slæma reynslu af því. Þannig er launamálum hagað á Norðurlöndum og gætum við e. t. v. eitthvað lært af þeirra reynslu þó að aðstæður séu ekki að öllu leyti þær sömu hér og þar.

Eitt er þó alveg víst, að gífurleg hætta er á ferðum ef nú verður reist ný verðbólgualda í landinu. Hvernig fara t. d. atvinnuvegirnir og húsbyggjendur að því að standa undir hærri verðbótum lána en nú eru?

Það er deginum ljósara, að nánast engin skilyrði eru í okkar hagkerfi eins og sakir standa til að hækka laun þegar á heildina er litið, e. t. v. lítillega í einstökum greinum og lægstu laun ef slíkt gengur ekki í gegnum allt launakerfið.

Ég held að enginn, sem þekkir t. d. til rekstrargrundvallar sjávarútvegs og iðnaðar, láti sér koma til hugar að mögulegt sé að hækka rauntekjur í þessum atvinnugreinum svo að neinu nemi. Þjóðhagsspá fyrir árið 1982 gerir ráð fyrir að þjóðartekjur aukist um 1/2%. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa versnað um 15% á 3 árum. Þetta þýðir í almennum orðum tekjurýrnun fyrir þjóðina vegna utanaðkomandi ástæðna sem enginn ræður við.

Á næsta ári er spáð 1–2% rýrnandi viðskiptakjörum. Ekki verður hægt að ætlast til að Íslendingar taki á sig gífurlega olíukreppu eins og ekkert hafi gerst. Það, sem mestu máli skiptir nú, er að verja kaupmátt ráðstöfunarteknanna í stað þess að gera óraunhæfar kröfur sem ekki er hægt að uppfylla nema með meiri verðbólgu og upplausn í efnahagslífinu. Það er mjög hætt við að aukin verðbólga við núverandi aðstæður mundi valda vaxandi rekstrarerfiðleikum atvinnulífsins og samdrætti sem hæglega gæti valdið atvinnuleysi, en atvinnuöryggi er þýðingarmeira flestu öðru í kjaramálum. Það er kaupmáttarstefnan sem skiptir öllu máli, en ekki krónutölustefnan.

Þegar fjárlagafrv. var til meðferðar í ríkisstj. gerði ég grein fyrir því, að Framsfl. vildi athuga nokkru nánar skattamál atvinnuveganna. Sérstaklega nefndi ég þar til skatta eins og launaskatt, aðstöðugjald og e. t. v. fleiri skatta — og alveg sérstaklega skattstofn söluskatts á vörur, en það mál er sérstakt byggðamál og varðar hreinlega jafnrétti á þá leið, að menn greiði ekki hærri söluskatt af vörum þótt þeir búi úti á landi.

Enn fremur vísa ég til ræðu minnar við fjárlagaumræðuna á s. l. vetri varðandi skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Auðvitað dettur engum í hug að leggja til skattalækkun, hvort sem er á atvinnulíf eða skattborgara, án þess að það skapi tekjuvandamál fyrir ríkissjóð. Það er augljóst mál og þarf ekki að ræða. Það er ekki nóg að heimta skattalækkun án þess að gera sér fulla grein fyrir því — og gera öðrum grein fyrir því — að annaðhvort verða aðrar tekjur að koma í staðinn eða það verður að skera niður útgjöld á fjárlögum að sama skapi.

Það leiðir hreinlega af inngöngu okkar í EFTA og fríverslunarsamningnum við Efnahagsbandalag Evrópu, að við verðum að taka rekstrarskilyrði íslenska iðnaðarins sérstaklega til rækilegrar endurskoðunar. Við höfum fengið langan aðlögunarfrest í þessum efnum þó að hann hafi e. t. v. ekki verið nægilega langur, og nú verður að taka til hendinni í þessum málum. Því verður ekki frestað nema með alvarlegum afleiðingum og samdrætti útflutningsatvinnuveganna. Þetta er kjarnaatriði sem stjórnmálamenn verða að gefa gaum að.

Menn hafa talsvert misjafna afstöðu til atvinnuveganna og hvernig eigi að byggja þá upp og þróa. Ég álít að fara þurfi saman hófleg stjórn og stuðningur að ofan og góður jarðvegur fyrir atvinnulífið. Ef jarðvegurinn er ekki góður þrífst þar ekkert, hvorki atvinnurekstur né annað. Atvinnureksturinn í landinu festir ekki rætur í stjórnarráðinu, heldur í hagstæðum jarðvegi úti á meðal fólksins í hinum ýmsu héruðum landsins. Hins vegar má og á að hlúa að atvinnuvegunum úr stjórnarráðinu. En fyrst og seinast verður að skapa atvinnulífinu vaxtarskilyrði. Atvinnuvegirnir bera miklar byrðar. Ég endurtek að nauðsyn beri til að endurskoða álögur á atvinnulífið.

Starfsskilyrðanefnd hefur unnið að þessum málum og hefur þegar skilað bráðabirgðaskýrslu sem verið er að vinna úr. Við verðum að hafa það fast í huga, að með inngöngu í EFTA og samningum við Efnahagsbandalag Evrópu hefur skapast nýtt viðhorf í mörgum atvinnugreinum, sérstaklega þó í iðnaðinum. Við lifum ekki lengur í lokuðu hagkerfi, heldur erum þátttakendur í stærri viðskiptaheild sem býður vissulega upp á mikil tækifæri, en þó leynast þar vissar hættur sem ber að varast. Það fer ekkert á milli mála, að við höfum haft mikið hagræði af þátttöku okkar í EFTA og af samkomulaginu við Efnahagsbandalag Evrópu. Heilbrigður grundvöllur og hagstæð rekstrarskilyrði eru sú eina aðferð sem tryggir atvinnulífinu vaxtarmöguleika í hinum nýja frjálsa viðskiptaheimi og hefur þegar skilað gífurlega miklum árangri eins og kunnugt er.

Það hefur verið bent á hve sparnaður þjóðarinnar minnkaði hættulega mikið á seinasta áratug eða sem svaraði innlögum í innlánsstofnanir úr 40% niður í 21.5% af þjóðarframleiðslu árið 1978. Með setningu Ólafslaga varð hér á grundvallarbreyting þegar upp var tekin stefna verðtryggingar inn- og útlána í bankakerfinu. Af gefnu tilefni verð ég nú að undirstrika það, að það eru ákvæði í Ólafslögum sem hafa þarna gjörbreytt því ástandi sem áður var. Það verður ekki frá hæstv. utanrrh. tekið, að það eru Ólafslög sem hér eru grundvöllurinn. Það var með setningu Ólafslaga sem hér varð breyting í þessum efnum — grundvallarbreyting, þegar tekin var upp stefna verðtryggingar inn- og útlána í bankakerfinu. (SighB: Það var stefna Alþfl.) Já, Alþfl. átti sinn góða þátt í því að samþykkja Ólafslög, en þau eru nú við hann kennd og verður sjálfsagt svo um langa framtíð.

Í ágústmánuði s. l. verða svo þau þáttaskil, að raunvextir voru jákvæðir í öllum flokkum bundinna innlána. Innlög í innlánsstofnanir stefna nú í tæp 30% af þjóðarframleiðslunni á næsta ári. En verðtrygging útlána leggst með ofurþunga á atvinnulífið, sérstaklega þau fyrirtæki sem eiga lítið eigið fé í rekstrinum. Af þessum ástæðum verður að gæta þess enn betur en áður, að rekstrargrundvöllur eðlilega rekinna fyrirtækja sé traustur, og jafnframt að tryggja viðunandi rekstur veikra fyrirtæka sem eru hornsteinn atvinnu og búsetu sums staðar á landinu.

Að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á að sem flest fyrirtæki beri sig og stjórnendur þeirra beri ábyrgð á rekstrinum. Það er án efa eitt af þýðingarmestu málum næstu vikna og mánaða að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsframleiðslunnar og samkeppnisiðnaðarins. En eitt er öruggt, og það er að vaxandi verbólga torveldar allar aðgerðir til að treysta afkomu atvinnuveganna sem er forsenda batnandi lífskjara og aukins kaupmáttar launa, að ég tali nú ekki um atvinnuöryggi.

Þótt miðað hafi í rétta átt í baráttunni við verðbólguna er hún enn allt of mikil hér á Íslandi eða um 40% frá upphafi til loka þessa árs borið saman við um 10% verðbólgu í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Ég held það megi fullyrða að verðbólga frá upphafi til loka árs verði ekki meiri en 40% eða í kringum 40%. Það má hins vegar deila fram og aftur um hvernig á að mæla hana, og skal ég ekki að þessu sinni ræða það frekar.

Auðvitað er þessi verðbólga hjá okkur hreinn háskaleikur. En menn jafnvel yppta öxlum margir hverjir, eins og ekkert sé, og reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að þetta sé allt í stakasta lagi, atvinnulíf og þjóðlíf geti gengið þrátt fyrir þetta. Við höfum getað þraukað þessa óðaverðbólgu um nokkur ár og eigum það m. a. að þakka miklum afla, allt of löngum vinnutíma, vaxandi erlendum lántökum og ýmsu fleira að sjálfsögðu. Þegar aflinn hættir að vaxa, erlendar lántökur eru komnar í botn og þjóðin öll þreytt á þrældómi vakna menn sjálfsagt upp við vondan draum.

Í fjárlagafrv. er miðað við 33% hækkun verðlags og launa milli áranna 1981 og 1982, en í athugasemdum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 verða settar fram horfur um verðbólgu á komandi ári.“

Í þjóðhagsáætlun ríkisstj. fyrir árið 1982 segir hins vegar svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á komandi ári mun ríkisstj. leggja höfuðáherslu á að þrýsta verðbólgunni enn verulega niður í samræmi við það meginmarkmið að koma henni svo fljótt sem kostur er niður á svipað stig og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Ríkisstj. telur æskilegt að ná hlutfallslega svipuðum árangri á árinu 1982 og á þessu ári, en tölulegt markmið verður ákveðið, þegar betri upplýsingar liggja fyrir um þróun ýmissa þátta efnahagsmála, sem enn eru óljósir.“

Það er t. d. ekki alveg ljóst enn þá hver verðbólgan verður á þessu ári. Ég ætla að hún verði í kringum 40% frá upphafi til loka árs. Ég skal ekki slá neinu föstu um verðbólgustigið í lok ársins. Úr því sker auðvitað reynslan.

Í stefnuræðu forsrh. kom fram nákvæmlega sama efnisatriði, að á komandi ári mun ríkisstj. leggja höfuðáherslu á að þrýsta verðbólgunni niður og ná hlutfallslega svipuðum árangri og í ár. Þetta er í raun og veru sú stefna sem ríkisstj. hefur látið frá sér fara og lagt fram hér á hv. Alþingi í verðbólgumálum.

Árangri í baráttunni við verðbólguna verður að ná með samstilltu átaki í þjóðfélaginu og aðhaldssamri og sterkri efnahagsstjórn án þess að til atvinnuleysis komi eða gengið verði á kaupmátt ráðstöfunartekna. Þetta eru þau kjarnaatriði sem snerta almenna stefnu ríkisstj. í verðbólgumálum á næsta ári. Framsfl. telur ákaflega mikils vert, að allir þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem taka ákvarðanir er varða framvindu efnahagsmála, stilli saman strengina að þessu markmiði í verðbólgumálum.

Það er augljóst, að ef þessu marki á að ná verður að telja niður hina ýmsu verðlagsþætti, eins og ég gat um fyrr í minni ræðu, í samræmi við þessi markmið. Til þess að ná þessu markmiði í baráttunni við verðbólguna mætti ætla að verðhækkunarferill á þessu og næsta ári þyrfti að vera eitthvað á þá leið, að verðlag hækkaði í mars um 8% og svo smám saman sennilega niður í 5% seint á næsta ári. Það er eitthvað nálægt því sem verðhækkunarferillinn þyrfti að vera á næsta ári til að ná því markmiði sem ríkisstj. hefur sett fram í þjóðhagsspá og stefnuræðu hæstv. forsrh. Það þarf ekki að gera því skóna, að til þess að ná þessum markmiðum verður að nást talsvert víðtæki samkomulag í þjóðfélaginu. Styrjöld á vinnumarkaðinum raskar öllum áformum af þessu tagi og stefnir auk þess afkomu og jafnvel framtíð þjóðarinnar í talsvert verulegan vanda.

Um fjárhag ríkissjóðs er það að segja, að skuld við Seðlabankann hefur sífellt verið að minnka og minnkar enn á næsta ári í samræmi við þau ákvæði fjárlagafrv. að endurgreiða 120 millj. kr. til Seðlabankans. Á hinn bóginn hafa heildarlántökur í B-hluta fjárlaga farið vaxandi og þarf að gefa þeim þætti fjárlagagerðarinnar glöggar gætur í framtíðinni. Þarna kemur ýmislegt til, svo sem byggðalínur og Kröfluvirkjun, en þessu hvoru tveggja þarf að finna fjárhagslegan grundvöll í framtíðinni. Auðvitað verður að stefna að því, að orkuneytendur standi undir þessum framkvæmdum. Þá hafa og verið tekin lán til margvíslegra framkvæmda sem flestar hverjar skila fljótlega arði.

Stjórnarandstæðingar deila á ríkisstj. fyrir háa skatta. Þeir vilja lækka skatta. Ég var að enda við að segja að við í Framsfl. vildum lækka skatta á atvinnulífinu og athuga með skattalækkun. En menn verða að gera sér grein fyrir að þá verður að skera eitthvað niður á fjárlögunum eða afla nýrra tekna með öðrum hætti. Þetta eru kjarnaatriði sem verður að fylgja í sambandi við skattalækkun, og við gerum okkur fyllilega ljóst að þessi mál þarf að athuga rækilega.

Í húsnæðismálum nema framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna 111.3 millj. kr. Framsfl. er þeirrar skoðunar, að stefna beri að því að sem allra flestir landsmenn geti eignast eigin íbúð. Ein af leiðunum að því marki er að auka fyrirgreiðslu til samvinnubyggingarfélaga, og leggjum við framsóknarmenn mikla áherslu á að svo verði gert.

Þá er í ráði að gera stórátak í vistunarmálum aldraðra. Gert er ráð fyrir 11 millj. kr. ríkisframlagi, en auk þess er stefnt að því að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra tekjustofn er nemur 13.5 millj. kr. á næsta ári. Ráðstöfunarfé til byggingar sjúkra- og dvalarheimila fyrir aldraða yrði þá 24.5 millj. kr. á árinu 1982.

Samgrh. hefur lagt hið mesta kapp á að auka framkvæmdir í vegamálum. Framlög til vegamála hækka verulega í frv. Gert er ráð fyrir að verja til vegamála 566 millj. kr. í samræmi við vegáætlun og er það 46% hækkun frá fjárlögum ársins 1981. Í vegáætlun er á því byggt, að til vegamála verði varið 2.1% af vergri þjóðarframleiðslu í samræmi við þál. sem Steingrímur Hermannsson samgrh. beitti sér fyrir og var samþykkt á seinasta Alþingi. Þetta hlutfall var hækkað um 0.1% við meðferð málsins á Alþingi.

Í sjálfu fjárlagafrv. er nú miðað við samþykkta vegáætlun fyrir árið 1982, en gera verður ráð fyrir því, ef útgjöld til vegamála verða aukin, að Alþingi samþykki samsvarandi tekjuaukningu til vegagerðarinnar. Framsfl. er reiðubúinn að standa að slíkri tekjuaukningu til þessa mjög svo þýðingarmikla verkefnis.

Það er ástæða til að vekja athygli á stórauknu vegaviðhaldi, en vegaviðhald hækkar um 56.4%, en annað viðhald um aðeins 35.6% Að sjálfsögðu er vegaviðhald inni á vegáætlun.

Í 6. gr. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að heimild fáist til allt að 10 mill j. kr. lántöku vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Framsfl. hefur lengi verið þeirrar skoðunar, að mjög þýðingarmikið væri að haga svo skipan mála á Keflavíkurflugvelli að hægt væri að aðskilja eins og unnt er varnarliðið og starfsemi þess frá venjulegri starfsemi og umferð Íslendinga. Stórt skref í þessa átt er einmitt að byggja nýja flugstöð sem fyrst og fremst þjóni áætlunarflugi og öðru flugi til og frá Íslandi. Allt herflug verði hins vegar annars staðar. Það er þess vegna ánægjuefni að nú skuli eiga að hrinda þessu máli af stað með því að taka inn heimildarákvæði í fjárlagafrv. í þessu skyni.

Niðurstöðutölur gjalda og tekna fjárlagafrv. sýna rekstrarafgang að fjárhæð 151 millj. kr. á árinu 1982, en í fjárlögum þessa árs var rekstrarafgangur 57 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir neikvæðum jöfnuði á lánahreyfingum að fjárhæð 79 millj. kr., og nettó- útstreymi á viðskiptareikningum er áætlað 15 millj. Þannig verður greiðsluafgangur að fjárhæð 58 millj. kr., en var um 30 millj. kr. lægri á fjárlögum 1981.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta fjárlagafrv. sé raunhæft og ábyrgt fjárlagafrv. þótt ástæða sé til að gefa gaum að vaxandi skuldasöfnun miðað við heildartölur fjárlaganna.

Um gjaldalilið frv. mætti flytja langa ræðu, en ég vísa til þess sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í því efni. Það er ljóst að heildarútgjöld samkv. þessu fjárlagafrv. nema um 28.1% af áætlaðri þjóðarframleiðslu árið 1982, en í fjárlagafrv. 1981 var þetta hlutfall aðeins hærra eða sem svarar 28.2%. Ekki verður þetta hlutfall að teljast hátt ef miðað er við mörg önnur ár. T. d. er þetta hlutfall langt fyrir neðan það sem Alþfl. taldi að þyrfti að miða við skömmu áður en hann hvarf úr ríkisstj. Þá var samkomulag á milli Alþfl. og Framsfl. um að þetta þyrfti að vera undir 30%, ef ég man rétt. Ég er hérna með þetta samkomulag, sem var gert á árinu 1979 og þeir skrifa undir hv. þm. Kjartan Jóhannsson, Steingrímur Hermannsson og Ragnar Arnalds. Þar segir:

Alþfl. og Framsfl. leggja til að heildartekjur og útgjöld ríkisins fari ekki yfir 30% af vergri þjóðarframleiðslu 1980. Fulltrúi Alþb. telur að vegna óvissu í atvinnumálum og hættu á atvinnuleysi sé ekki tímabært að taka ákvörðun um heildarhlutfall fjárfestingar á árinu 1980 eða heildarútgjöld ríkisins.“

Nú er þetta hlutfall ekki aðeins undir 30%, heldur er það rétt liðlega 28%. (HBl: Enda engin óvissa í atvinnumálum.) Ég tala nú ekki um það sem skeði hér á miðjum seinasta áratug, þegar heildarútgjöld ríkisins fóru yfir 30%, allt upp í 30.4% árið 1975, en þá hafði Sjálfstfl. með fjármálin að gera.

Það er alltaf nokkur vandi að velja úr einstök atriði fjárlagafrv. við 1. umr. um það. Til viðbótar við þau atriði, sem ég hef þegar drepið á, vil ég nefna örfá.

Ríkissjóður mun á næsta ári leggja fram hlutafjárframlög sem nema rúmlega 43.5 millj. kr.

Ég beitti mér fyrir stuðningi við Útvegsbanka Íslands, þar sem staða hans var með þeim hætti að veruleg hætta var á að hún kæmi niður á viðskiptavinum bankans. Stuðningurinn var fólginn í því, að ríkissjóður greiði vexti og afborganir af skuld bankans við Seðlabanka Íslands, að fjárhæð 7 millj. 500 þús. á ári í 12 ár. Seðlabankinn gaf Útvegsbankanum eftir tæplega 11 millj. kr. vanskilaskuld og tók auk þess að sér að greiða verulega fjárhæð í vöxtum vegna skulda við Seðlabankann. Beinn stuðningur við Útvegsbankann hefur því numið samtals nálægt 8–9 milljörðum kr. Allir, sem hafa skoðað mál Útvegsbanka Íslands á undanförnum árum, eru sammála um það, þ. á m. bankamálanefndin sem skilaði af sér 1973, að sennilega hafi bankinn aldrei frá stofnun hans átt nægilega mikið eigið fé til að geta ræki hlutverk sitt með eðlilegum hætti.

Þá er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir aðstoð við Flugleiðir hf. ef þörf krefur. Flugleiðamálið er stórmál. Fyrir forgöngu samgrh. og ríkisstj. var því afstýrt að starfsemi Flugleiða drægist verulega saman. Beinar tekjur ríkissjóðs vegna starfsemi Flugleiða nema 1.1–1.8 millj. dollara á ári. Það er auðvitað haft í huga þegar ríkissjóður tekur á sig skuldbindingar í sambandi við rekstur þessa stóra og myndarlega félags. Samkomulag er milli samgrh. og fjmrh. um að flytja sérstakt frv. um þetta mál síðar á þinginu.

Mikil framlög og lántaka eru fyrirhuguð vegna byggingar þjóðarbókhlöðu og ákveðið að gera húsið fokhelt og klæða veggi 2.-4. hæðar. Er þetta mikið menningarmál fyrir bóka- og bókmenntaþjóð eins og Íslendinga.

Þá er gert ráð fyrir að verja verulegu fjármagni til byggingar byggðalína og til Kröfluvirkjunar. Lánsfjárútvegun til framkvæmda við byggðalínur 1982 er alls áformuð 40 millj. 493 þús. kr. Eftir er að tímasetja framkvæmdir við Suðurlínu milli Sigöldu og Hafnar í Hornafirði og ákveða að hve miklu leyti útvega þarf fé til þeirra framkvæmda á næsta ári. Umræddu fjármagni verður varið til áframhaldandi framkvæmda við þá byggðalínuáfanga sem þegar hafa verið ákveðnir. Í töfluviðauka fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar er sýnd skipting lánsfjárins í helstu verkefni. Þannig er textinn í athugasemdum við B-hluta fjárlagafrv. Síðan þetta gerðist hefur verið ákveðið að byggja stóran áfanga Suðurlinu á næsta ári, sem kostar um 6 milljarða kr., og þar er fundinn hluti af þeirri breytingu og því misræmi sem er á fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom inn á í sinni ræðu.

Þá er enn fremur áformað um framkvæmdir við Kröfluvirkjun, að boraðar verði þrjár vinnsluholur á virkjunarsvæðinu. Þessar framkvæmdir munu líklega kosta 6.3 milljarða gkr. og eru að sjálfsögðu dýrar. Ég er þeirrar skoðunar, að athuga þurfi þetta mál vel við í meðferð fjárlaga og lánsfjáráætlunar hér á Alþingi.

Þá er einnig gert ráð fyrir 63 millj. kr. lántöku vegna framkvæmda við Kröflu. Ég skal ekki leggja neinn dóm á hvort nauðsynlegt er að ráðast í báðar þessar framkvæmdir á næsta ári. A. m. k. er nauðsynlegt vegna öryggis Austurlands í orkumálum að hefja framkvæmdir við Suðurlinu til þess að hægt verði að taka hana í notkun veturinn 1983–1984. Hvort nauðsyn ber til að ráðast í þessar framkvæmdir við Kröflu skal ég ekki fullyrða um, en eins og ég sagði áður þarf að athuga það vel við meðferð þessara mála hér á hv. Alþingi.

Samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs verði á næsta ári 119.9 millj., tæpir 12 milljarðar gkr., eða 1.6% af heildarútgjöldum A-hluta fjárlaga. Það hefur slaknað nokkuð á þessu frá því sem er í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs verði árlega 2% og það sé fengið með framlögum ríkisins, lánum og tekjum sjálfs sjóðsins. Miðað við þau risavöxnu verkefni Byggðasjóðs, sem eru fram undan, þyrfti að stefna að því að auka ráðstöfunarfé hans.

Það eru nokkrir útgjaldaliðir í fjárlagafrv. sem eru áberandi hæstir, svo sem tryggingamál. Framlög til almannatrygginga eru áætluð samtals 2071 millj. kr. eða yfir 200 milljarðar gkr. Ég er sannfærður um að hægt er að spara mikil útgjöld í tryggingamálum með lagabreytingum og framkvæmd mála í þá átt að greiða tryggingabætur fyrst og fremst til þeirra sem þurfa þess með. Það er stórmál að endurskoðun fari fram á tryggingakerfinu í þessa stefnu. Þetta hefur oft verið rætt áður af ýmsum — ég hef minnst á þetta í umr. um fjárlagafrv. oft áður, en það er í raun og veru engin hæfa hversu margir fá stórar fjárhæðir frá Tryggingastofnun ríkisins án þess að þurfa þess með. Tryggingafræðingar hafa séð á þessu ýmis tormerki — ég veit það, en það hlýtur að vera hægt að gera einhverjar breytingar á þessum málum í þessa stefnu.

Til heilbrigðismála er varið rumum 618 millj. kr. Ég hef áður gert að umræðuefni við fjárlagaumr. að hægt ætti að vera að spara umtalsverðar fjárhæðir með því að efla útivist og íþróttaiðkun þjóðarinnar meira en nú er gert, þó að hún sé verulega mikil meðal ungu kynslóðarinnar.

Á mörgum undanförnum árum hefur verið unnið verulegt starf við úttekt ýmissa þátta ríkisbúskaparins og svo er enn. Þetta starf þarf samt að efla til að auka allt aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum. Þetta starf þarf að vera markvisst því að veruleg tregða, svo að ekki sé meira sagt, er á því innan ríkisgeirans að draga saman. Það þekkja allir hv. alþm. af margra ára reynslu.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár og skal ég ekki bæta þar nema litlu við. Ég vil undirstrika tvö atriði í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina:

Í fyrsta lagi er meginstefnan sú, að fjárfesting verði á næsta ári sem svarar 24% af þjóðarframleiðslu. Þetta er nokkru lægra en var þegar við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson áttum saman aðild að ríkisstj. Kannske við hefðum betur aldrei farið úr ríkisstj. Nú er þetta allt að koma fram sem þið lögðuð áherslu á á sínum tíma ásamt okkur. Þetta hefur farið lækkandi, og það er í raun og veru ekkert nema gott um það að segja vegna þess að hlutfallsleg lækkun fjárfestingar linar dálítið þá eftirspurn og þá þenslu sem óhjákvæmilega er í efnahagskerfi okkar.

Í öðru lagi vil ég minna á það sem segir í inngangi að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að stærsta viðfangsefnið í lánsfjármálum Íslendinga á næstu árum sé að auka innlendan sparnað og innlenda lánsfjáröflun. Það er engin spurning að þetta er rétt. Auðvitað hefur langvarandi mikil verðbólga haft þau áhrif, að við höfum misst niður sparnaðinn, eins og ég kom að áðan, og er ástæða til að halda áfram í þá átt að auka sparnaðinn. Hann var við eðlilegar aðstæður 40%. Hann stefnir nú í 30% úr 20 rúmum. Þetta horfir í rétta átt. Auðvitað er nauðsynlegt fyrir þjóðina og fyrir hagkerfið, fyrir atvinnulífið, að hafa traust bankakerfi. Það er alveg nauðsynlegt af mörgum ástæðum. Hitt er svo annað mál, hvort bankakerfið er orðið nægilega sterkt og í stakk búið til að leggja af mörkum meira til lánsfjáráætlunarinnar en gert er ráð fyrir í henni. Það er gert ráð fyrir að 7% af innlánsaukningu bankakerfisins verði notuð til framkvæmda samkv. lánsfjáráætlun, 70 millj. renni til Framkvæmdasjóðs og 88 millj. til ríkissjóðs.

Greiðslubyrði lána er mjög mikil. Hún verður á þessu ári líklega milli 16 og 17%, en fyrir því eru ákveðnar ástæður að hún hefur hækkað. Í fyrsta lagi hafa vextir hækkað gífurlega á hinum alþjóðlega lánamarkaði. Í öðru lagi hafa verið tekin lán og það fé lagt til framkvæmda, eins og t. d. framlög til járnblendiverksmiðjunnar sem hafa verið verulega há. Í þriðja lagi er að nefna lántökur til margra nauðsynlegra framkvæmda sem í raun og veru allir eru meira og minna sammála um að sé sjálfsagt að taka. Allt þetta hefur þau áhrif, að greiðslubyrðin verður mikil vegna þess að sparnaðurinn í þjóðfélaginu innanlands er ekki nægilega mikill. Það er þess vegna þýðingarmikið að undirstrika að stærsta viðfangsefni í lánsfjármálum þjóðarinnar á næstu árum sé að auka innlendan sparnað og lánsfjáröflun.

Varðandi þau málefni, sem falla undir mitt rn., legg ég áherslu á eflingu Verðlagsskrifstofunnar, en framlög til hennar hækka verulega, enda hefur Verðlagsskrifstofan stóraukið verðlagskynningu sem hefur vakið mikla athygli. Þá hefur Verðlagsstofnun stóraukið samstarf við Neytendasamtökin og framlag vegna þeirra hefur hækkað verulega. En ég er eindregið talsmaður frjáls félagsmálastarfs neytenda með stuðningi ríkisvaldsins.

Ríkisbúskapurinn er mjög stór þáttur í efnahagsmálum okkar. 28% af þjóðarframleiðslunni eru ríkistekjur. Það veltur því á miklu að stefnan í ríkisfjármálum sé skynsamleg og að fjárlagafrv. og fjárlög séu afgreidd af Alþingi þannig að það sé traustur grundvöllur undir þeirri afgreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef sagt áður, að hér sé um að ræða ábyrgt fjárlagafrv., ekkert síður ábyrgt en oft hefur verið áður, en bendi á að lántökur eru miklar af ástæðum sem ég hef gert grein fyrir, og þarf að stefna að því að við getum fjármagnað meira af eigin framkvæmdum innanlands.

Herra forseti. Það eru að vísu mörg atriði fjárlaga sem freistandi væri að ræða auk þeirra sem ég hef hér drepið á, en ég held að ég láti þetta nægja að sinni.