03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

1. mál, fjárlög 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vek athygli þeirra þm., sem eftir eru við þessa umr., þessa löngu og ströngu umr., og þeirra fjölmiðlamanna, sem hér kunna að vera viðstaddir, að hæstv. viðskrh., sem var að ljúka máli sínu, flutti upp undir klukkutíma ræðu til að finna að veigamiklum atriðum í frv. ríkisstj. til fjárlaga fyrir næsta ár — veigamiklum meginatriðum.

Það var mjög athyglisvert, að upp er tekin sú gamla verklagsregla í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar á sínum tíma að einstakir þingflokkar eru farnir að hafa fyrirvara um hina og þessa þætti fjárl., mjög mikilvæga þætti, eftir því sem fram kom í máli hæstv. viðskrh. Hann sagði að Framsfl. hefði fyrirvara um ýmsar fyrirætlanir ríkisstj. um að halda áfram skattheimtu á ýmsum sviðum, eins og t. d. að því er varðaði launaskatt. Hann sagðist vera meðmæltur lækkun launaskatts, og hann sagðist vera meðmæltur því að afnema sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Fleira sagði hæstv. ráðh. í þessum dúr. Það er í rauninni djúpstæður ágreiningur, ef ég fæ rétt séð, um þessi atriði.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Ég efast ekki um að rétt sé að hæstv. viðskrh. hafi haft þessa fyrirvarð fyrir hönd Framsfl. í ríkisstj., en ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi getað viljað til að einhverjir aðrir í ríkisstj. hafi haft fyrirvara um þessa vinstristjórnarskatta. Mér leikur mjög mikil forvitni á að vita það, og ég gæti best trúað að hæstv. ráðh. gæti rennt grun í af hverju.

Hæstv. viðskrh. talaði hér mjög skynsamlega á marga lund. Hann kom inn á marga þætti sem mér var mjög að skapi. Hann sagði m. a., sem ég er honum algerlega sammála um, að atvinnuvegirnir skjóta ekki rótum í stjórnarráðinu. En hæstv. ráðh. hefur þau aðalatriði, sem vandamál atvinnuveganna stafa af, núna í hendi sér. Hann hefur þrjú meginatriði atvinnuveganna í hendi sér. Hann hefur fjármagnskostnaðinn. Hann er ráðh. bankamála og viðskiptamála. Fjármagnskostnaðurinn er að sliga atvinnuvegina, eins og hæstv. ráðh. sagði. Það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til þess, að atvinnuvegirnir gætu staðið undir auknum fjármagnskostnaði sem stafar af verðtryggingunni. Verðtryggingin er góð út af fyrir sig fyrir sparifjáreigendur. En þeir, sem þurfa að borga hana, þurfa að geta staðið undir henni. Þá er hæstv. ráðh. með tvö atriði sem varða atvinnuvegina. Hann segir við þann sem framleiðir innlenda vöru: Þú mátt bara selja á þessu verði, góði — þó að það sé sannanlegt mál að kostnaður þessa fyrirtækis hafi hækkað, sérstaklega vegna fjármagnskostnaðar, langt umfram það sem viðurkennt er af verðlagsyfirvöldum. Hæstv. ráðh. hefur verðlagsmálin í sinni hendi. Hæstv. ráðh. hefur líka gengismálin í sinni hendi, þannig að hann skammtar líka útflutningsatvinnuvegunum tekjur. Hæstv. ráðh. ætti að athuga betur sinn jurtagarð áður en hann fer að gagnrýna hæstv. fjmrh. eins og hann gerði hér að ýmsu leyti vel. Ég er honum sammála, en mér finnst að hæstv. ráðh. geti litið sér nær að sumu leyti hvað varðar það sem ég minnti hér á.

Ég skal drepa hér á eitt atriði í sambandi við hans ræðu hvað varðar verðlagsmál; verðlagningu á þjónustu Hitaveitu Reykjavíkur. Ég er ekki mjög kunnugur því í smáatriðum, hvernig farið hefur með niðurskurð á beiðnum Hitaveitu Reykjavíkur um eðlilegar gjaldskrárbreytingar, en eftir því sem ég fæ best séð er fyrst og fremst aldrei litið á þörf þessa fyrirtækis, frekar en ýmissa annarra fyrirtækja, til þess að efla eiginfjárstöðu sína og til þess að fyrirtækið geti af eigin aflafé staðið í fjárfestingum að einhverjum hluta þannig að fyrirtækið, svo öflugt og gott sem þetta fyrirtæki er, geti af sjálfs sín aflafé staðið undir framkvæmdum og þurfi ekki að taka erlend lán að öllu leyti til þeirra.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða sérstaklega ræðu hæstv. viðskrh. Ég vona að hæstv. fjmrh. taki hana til gaumgæfilegrar athugunar og svari þeirri fsp. sem ég kom hér fram með.

Þetta frv. hæstv. fjmrh. er þriðja frv. hans síðan hann varð fjmrh. Einkenni þessa frv. eru í grundvallaratriðum þau sömu og hinna frv. sem hæstv. ráðh. hefur lagt fram: Þensla ríkisútgjalda heldur áfram þrátt fyrir reikningskúnstir sem hæstv. ráðh. var að reyna að hafa í frammi. Stefnu fyrri vinstri stjórnar er haldið í skattamálum. Skattahækkunarstefnunni er haldið áfram. Hæstv. ráðh. viðurkenndi að í frv. er gert ráð fyrir að leggja nýjan skatt á orkusölu í landinu. Það er gert ráð fyrir að heimta annan skattstofn áfram, að vísu var hann heimtur í ár, en hann hafði ekki verið notaður til að bæta stöðu ríkissjóðs, þ. e. skatt í Framkvæmdasjóð aldraðra. En í grundvallaratriðum er skattahækkunarstefnu vinstri stjórnarinnar haldið áfram.

Það, sem er kannske alvarlegast við þetta fjárlagafrv. — hæstv. viðskrh. viðurkenndi það og fór nokkrum orðum um, það er stóraukin lántaka, einkum erlendra lána, til þess að reka ríkissjóð og ríkisstarfsemina. Erlend lán hækka samkv. þessu frv. um 146% frá því í fyrra á því ári sem orkuframkvæmdir dragast saman að magni til um 15%. Þarna er verið að fara út á braut sem er kannske ekki neitt nýmæli. Því miður hefur þróunin verið sú undanfarin ár, einkum í tíð núv. ríkisstj., að lántökur hafa stóraukist, bæði til almennra þarfa ríkissjóðs og framkvæmda. En hér kastar tólfunum, að milli ára hækkar taka erlendra lána um 146% þegar um magnsamdrátt er að ræða í orkuframkvæmdum sem eru langfjárfrekastar eins og menn vita.

Haldið er áfram niðurskurði á framlögum úr ríkissjóði af skatttekjum til framkvæmdasjóða, en það svigrúm, sem það gefur, er ekki notað til að lækka skatta, heldur til að auka umsvifalaust ríkisútgjöldin á öðrum sviðum. Allt er þetta gert til að auka ríkisumsvifin og miðstýringu í þ jóðfélaginu. Frv. felur því í sér grundvallarstefnu Alþb. í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Það er spegilmynd af ástandinu í atvinnumálum. T. d. er það dæmigert, að á þeim fáu dögum, sem liðnir eru síðan frv. var lagt fram þangað til lánsfjáráætlun var lögð fram, er gert ráð fyrir að auka lántökur til Sementsverksmiðju ríkisins um háa fjárhæð, verulega fjárhæð, til að standa undir hallarekstri Sementsverksmiðju ríkisins. Í umr. um daginn komu einnig fram upplýsingar frá iðnrh. um ein sex eða sjö iðnfyrirtæki í eigu ríkisins sem öll eru rekin með tapi og með slíkum lántökum.

Það er kannske einna athyglisverðast við þetta frv., þegar frá er skilin þessi gegndarlausa erlenda lántaka, að í því flest alger uppgjöf ríkisstj. á því að meta hvað er fram undan í efnahagsmálum þjóðarinnar. Á það er ekkert mat lagt. Í aths. frv. segir: Reiknitala fjárlagafrv. varðandi hugsanlega hækkun. — Hvers vegna í ósköpunum, hæstv. fjmrh., fann ekki einhver embættismaður upp eitthvað skárra orðalag en þetta? Jafnvel þó að það væri ekki ætlunin að þessi reiknitala væri nein spá finnst mér alveg kasta tólfunum þegar sagt er í frv. til fjárlaga að reiknitala fjárlagafrv. sé varðandi hugsanlega hækkun á verðlagi á því ári sem fjárlög eiga að gilda. Þar segir: „Reiknitala fjárlagafrv. varðandi hugsanlega hækkun verðlags og launa er miðuð við 33% milli áranna 1981 og 1982“, eins og fram hefur komið hérna í umr.

Hæstv. ráðh. reynda að afsaka þessa algeru uppgjöf ríkisstj. á að reyna að gera sér grein fyrir hvað er í vændum í íslenskum efnahagsmálum með því að segja að það hefði aldrei verið spáð um verðlagsþróun næsta árs með fjárlagafrv. Hæstv. ráðh. lagði fram á síðasta þingi frv. til fjárl. Í aths. þess segir, með leyfi forseta: Meginforsendur þessa frv. eru eftirfarandi: Forsenda nr. 4 er svona: „að verðlagshækkanir frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 verði um 42% sem er nokkru minni verðbólga en verið hefur nú um skeið“. — Í þessu frv., síðasta frv. sem fjmrh. lagði fyrir hv. Alþingi, gerði hæstv. ráðh. hreint fyrir sinum dyrum og kom fram með ákveðna verðlagsforsenduspá, enda var þá um það að ræða að ríkisstj. reyndi þó að gera sér grein fyrir hvað væri fram undan í efnahagsmálum.

Ég benti áðan á þær auknu lántökur, sem hefði verið ráðist í undanfarið, og hver þróun hefði orðið í þessum efnum. Ég gerði nokkra athugun á þessu, hvað ríkisútgjöldin, heildarráðstöfunarfé ríkissjóðs, hefðu verið mikil á undanförnum árum, hvað tekjur ríkissjóðs hefðu verið miklar og lántökur. Þá kemur í ljós að lántökur eru í prósentum af ráðstöfunarfé ríkisins í heild, tekjum og lántökum, aðeins 6.9% árið 1978. Nú er þetta hlutfall, lántökur til viðbótar skatttekjum ríkissjóðs, 13.5% af því sem ríkið ráðstafar á árinu 1982. Heildarráðstöfun ríkissjóðs á fjármagni, bæði því, sem það hefur í tekjur, og því, sem það tekur til láns, verður ekki 28% af þjóðarframleiðslu, hæstv. ráðh., heldur 33% af þjóðarframleiðslu á þessu ári. Meginskýringin er stórauknar erlendar lántökur til þarfa ríkissjóðs. Erlend lán eru 7.7% af ráðstöfunarfé ríkissjóðs á þessu ári, en voru aðeins 2.5% 1979 og eitthvað um 3% 1978. Það er þessi mælikvarði sem er rétti mælikvarðinn á ríkisumsvifin í landinu, ekki síst þegar um það er að ræða að á mörgum sviðum eru framlög af skatttekjum skorin niður og til þess gripið að afla fjár með lántökum til að standa undir bæði greiðslum afborgana og vaxta, alls konar rekstrarútgjöldum og framkvæmdum.

Auðvitað kemur þessi stefna í ríkisfjármálum engum á óvart. Eins og ég sagði áðan er hér um ómengaða stefnu Alþb. í ríkisfjármálum og efnahagsmálum að ræða. Ég hef áður vitnað í það, að formaður þingflokks Alþb. hefur ekkert legið á því, að Alþb. hafi getað komi ár sinni vel fyrir borð í þessari ríkisstj. Þannig sagði Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., eftir þinglok í vor: „ Efnahagsstefna ríkisstj. ber mjög svipmót þeirrar afstöðu sem Alþb. hefur haft síðan 1978.“ Þetta sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við Þjóðviljann. Og hann sagði einnig, að það hefði verið tekið meira tillit til efnahagsstefnu flokks hans, Alþb., í þessari ríkisstj. en hinni fyrri. Í Ed. sagði hann um daginn úr sæti sínu, að vinstri stjórnin, sem þeir hafa kallað svo, hv. þm., hefði ekki verið nein vinstri stjórn. Hann átti þá að sjálfsögðu við: miðað við þá ríkisstj. sem nú situr. Þess vegna kom það mér skemmtilega á óvart að hæstv. viðskrh. skyldi gera bæði beinar og óbeinar aths. við fjárlagafrv. Ég ítreka enn, að mér er forvitni á að vita hvort fleiri ráðherrar hafa gert slíkt hið sama.

Herra forseti. Ég á sæti í fjvn. og þetta frv. kemur til kasta nefndarinnar. Ég mun því stytta mál mitt. Ég tel höfuðatriði í þessu frv. vera það, að til viðbótar þeim miklu skattahækkunum, sem haldið er áfram og haldið er áfram að auka að hluta, er sérstaklega um það að ræða að farið er út í gífurlega aukna lántöku til að auka enn á ríkisumsvifin í landinu á sama tíma sem verulegur samdráttur fjárfestingar er á nær öllum sviðum samkv. upplýsingum hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Á næsta ári er gert ráð fyrir að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman um 9.1% og að fjárfesting í íbúðarhúsnæði standi í stað eftir að hún hefur minnkað um 2.1% 1979, 5% í fyrra og 5% í ár. Eftir að samdráttur hefur orðið í íbúðarhúsabyggingum um á annan tug prósenta að magni til á þessum árum er gert ráð fyrir að fjárfesting þar standi í stað á næsta ári og að orkuframkvæmdir minnki um 15.4%. Á þessu ári er gert ráð fyrir að stórauka lántökur til hins opinbera og alveg sérstaklega erlendar lántökur. Í framhaldi af hinu mikla skattahækkunarflóði, sem verið hefur, er gripið til þess ráðs til að auka ríkisumsvifin.

Ég skal láta máli mínu lokið með þessu um vinnubrögðin að þessu frv. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði, en aðeins segja þetta um hvernig farið er að um Framkvæmdasjóð aldraðra í þessu frv.: Þar er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi þessum sjóði til 11 millj. kr. á árinu, en af liðnum til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva er ekki ætluð nein hækkun þar á móti. Sá liður hefði átt að fá samkv. forsendum frv. um 13.5 millj. kr. hækkun, en fær aðeins 3 millj. Í rauninni er framlag ríkisins til Framkvæmdasjóðs aldraðra því ekki neitt. Ef þetta fé hefði verið notað af sjúkrahúsaliðnum hefði Framkvæmdasjóður aldraðra ekki þurft að vera til að þessu leyti. Hann fær sem sagt aðeins það fé, sem skorið er niður á öðrum lið. Þannig tekur önnur höndin af hinni í þessu frv. Þetta er aðeins örlítið dæmi um þann flumbrugang sem þarna er á ferðinni.

Herra forseti. Ég ítreka svo spurningu mína til hæstv. fjmrh. um fyrirvara annarra ráðh. við afgreiðslu þessa frv. í hæstv. ríkisstj.