25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

201. mál, málefni El Salvador

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil einungis við lok þessarar umr. vekja á því rækilega athygli, að í þeirri tillgr., sem hér er lögð fyrir hv. Sþ., er gert ráð fyrir, eins og það er orðað, pólitískri lausn deilumála í landinu, þ.e. í EI Salvador, og það segir sig auðvitað sjálft, að með pólitískri lausn er átt við að að því sé stuðlað að þeir aðilar, sem eru að deila í landinu, og þar með talin skæruliðahreyfingin, — þessar hreyfingar, þessi pólitísku öfl setjist að samningaborði, hvort sem það verður undir stjórn manna eins og Willys Brandts eða einhverra annarra. Með því að orða þetta svo og ef samstaða gæti tekist um það hér á hv. Alþingi er auðvitað verið að viðurkenna andspyrnuhreyfinguna í El Salvador sem sjálfsagðan aðila að lögum. Þetta skiptir mjög verulegu máli.

Hæstv. félmrh. sagði alveg réttilega áðan og vísaði þar í ríkisstjórnir bæði Frakklands og Mexíkó, sem hafa sem ríkisstjórnir viðurkennt andspyrnuhreyfinguna í EI Salvador sem samningsaðila í þessu landi, að með þessu orðalagi, eins og hv. 2. þm. Reykn. skýrði frá áðan, væri till. og svona orðuð til þess að um hana geti náðst samstaða. En vitaskuld felst í þessari lausn málsins að andspyrnuöflin í EI Salvador, að skæruliðahreyfingin í El Salvador yrði viðurkennd.

Í annan stað — almennt um þetta mál — má auðvitað gera ótölulegar athugasemdir við það mál sem hv. 1. landsk. þm., Pétur Sigurðsson, flutti áðan. Í fyrsta lagi varpar hann fram þeirri spurningu, hvort okkur komi þetta mál við. Því er til að svara, að í fyrsta lagi kemur okkur þetta mál við vegna þess að manneskjur eiga í hlut, en í annan stað er aðild okkar að þessu máli með óbeinum hætti vegna þess samstarfs sem við eigum við Bandaríkin með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ég segi enn og aftur eins og ég hef sagt áður við slík tilefni, að hér tala ég sem stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins og þeirrar samvinnu við Bandaríkin. En það er auðvitað staðreynd, að Bandaríkjamenn hafa haft mjög mikil afskipti af atburðarásinni í þessum heimshluta og í þessu landi og hafa að undanförnu verið að hafa þarna vaxandi afskipti. Þeir hafa tekið afstöðu með ríkisstjórn Napóleons Duartes, sem þarna situr og ranglega var áðan kölluð miðstjórn, sem auðvitað er ekki, hvernig sem á er litið. — Og það er á annað að líta sem felst í þessari tillgr. Beint er til utanrrh. að við beitum áhrifum okkar á erlendum vettvangi og þá með talið innan Atlantshafsbandalagsins, þar sem við erum aðilar, því að Bandaríkjastjórn verður að fara að skilja, — og það er ekki aðeins að gerast í þessu landi, það er að gerast um allan hinn vestræna heim, — að ef fram fer sem horfir og ef t.d. afskipti hennar í þessu landi halda áfram í þá veru sem þau því miður virðast stefna eru Bandaríkin að gera sig að óæskilegum bandamann. Þetta eru hinir breyttu tímar. Þetta er hin bitra reynsla sem næstliðinn áratugur kenndi okkur. Þetta er hin bitra reynsla allrar sögunnar sem spannst í kringum Víetnamstríðið. Í hverju landinu á eftir öðru, Hollandi, um öll Norðurlönd, heyrast þær raddir í æ ríkari mæli frá fólki sem stutt hefur þetta varnarbandalag og þessi samtök lýðræðisþjóðanna, að ef Bandaríkjamenn eru að fara út á þessa braut, ef þau eru að gleyma lærdómnum frá Víetnam, þá eru þau þar með að gera sig að óæskilegum bandamanni og stefna öllu þessu samstarfi í voða. Það yrði þung ábyrgð og það yrðu ægileg spor að stíga.

Menn hafa gert mál hv. þm. Péturs Sigurðssonar að umræðuefni. Hann lék sér að því m.a. að bera saman landlaust fólk í tíma og rúmi, bar meira að segja saman við danska landleysingja um 1890. Er þar ólíku saman að jafna, þó ekki væri af annarri ástæðu en þeirri, að sú yfirstétt í EI Salvador, sem talin er vera innan við 2% og ráða yfir fast að 80% af landi og er rótin að þessu óhugnanlega félagslega ranglæti, sem er auðvitað ekki aðeins í þessu landi, heldur á þessum slóðum, styðst við það sem menn eru nú farnir að kalla dauðasveitir. Hún styðst við sveitir hryðjuverkamanna. Ekki bara núna, heldur aftur í söguna, áratug fyrir áratug, hefur ævinlega sýnt sig að þær væru tilbúnar að taka lögin í sínar hendur og skirrðust einskis þegar því er að skipta. Það er það sem hefur verið að gerast nú og það er það sem mun gerast.

Það var annað sem hv. þm. Pétur Sigurðsson velti fyrir sér áðan: hvort mundi sigra hægri sinnaður fasisti eða sá sem hann kallaði miðjumanninn Napóleon Duarte í kosningunum á sunnudaginn. Það er auðvitað á hvers manns vitorði að það skiptir nákvæmlega engu máli hvor þessara aðila verður sigurvegari í kosningunum á sunnudaginn. Í fyrsta lagi bera þær ekki minnsta vott af lýðræði eða vali þjóðarinnar, en í öðru lagi eru ekki forsendur fyrir lýðræði í þessu landi, fyrir þeim skilningi á lýðræði sem við eigum við, því að lýðræði er auðvitað annað og meira en að greiða atkvæði á einhverju tilteknu árabili. Í lýðræðishugmyndinni felast einnig hugmyndir um mannréttindi, um frelsi. Setjum svo að þeir gefi út þá niðurstöðu, sem auðvitað enginn veit hvað er að marka, að Napóleon Duarte hafi verið sigurvegari í kosningunum, hvernig halda menn að næstu vikur, næstu dagar, næstu mánuðir verði í þessum etnum? Það ber ekki minnsta vott af þeim almenna skilningi sem við leggjum í lýðræði. Auðvitað munu hryðjuverkasveitirnar vaða uppi. eins og þær hafa gert til þessa með góðvild og samúð stjórnvalda, taka lögin í sínar hendur hvenær sem þeim svo sýnist og hvenær sem hin fámenna yfirstétt landeigenda telur valdi sínu ógnað. Það er auðvitað kjarni málsins.

Um þetta mætti auðvitað ræða lengi fram og til baka, en það, sem ég vildi aðallega leggja á áherslu, er tvennt. Það er skylda okkar að líta svo á, ekki aðeins sem manna, heldur einnig sem aðila að vestrænu varnarsamstarfi, hvaða skoðanir sem við höfum á því og þær kunna að vera skiptar, — þá er það engu að síður staðreynd, að með því fulltrúalýðræði. sem við höfum, hefur meiri hl. valið þá leið. — en sem slíkir og sem aðilar að slíku varnarsamstarfi, höfum við móralskar skyldur hver við annan í því samstarfi, og ef einn aðili í þessu samstarfi rífur sig út úr, gerir eitthvað, þó að í óskyldum heimshluta sé, sem við siðferðilega og hvernig sem á er litið getum ekki sætt okkur við, þá er hans ábyrgð mikil og þá er hann að stofna þessu samstarfi í hættu. Hann verður sjálfur að taka afleiðingunum af því.

Í annan stað vil ég enda þar sem ég byrjaði. Í þessari tillgr. er lagt til að Alþingi samþykki það sem kallað er pólitísk lausn í þessum efnum. Pólitísk lausn felur vitaskuld í sér að höfð verði um það forusta að þessir aðilar setjist við samningaborð. Þar á auðvitað að eiga sæti andspyrnuhreyfingin, skæruliðahreyfingin í EI Salvador, sem í er margt fólk sem ofsótt hefur verið árum og áratugum saman. Það er ósköp skiljanlegt að það hafi langþreytt gripið til þess að verja sig með vopnum. En pólitísk lausn á þessum málum þýðir að við þetta samningaborð séu þessir aðilar jafnréttháir hinum sem þeir semja við.