31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég fagna því, að þessi þáltill. er hér komin fram og það eigi að hefja framkvæmdir á þessu ári samkv. henni á svokölluðum Ó-vegum. Að vísu er það ekki mikið fjármagn sem til þess er ætlað á þessu ári, kannske rúmlega 5% af því sem áætlað er að þessir þrír vegarkaflar muni kosta. En það má segja að hálfnað sé verk þá hafið er.

Ég vil vera með þann fyrirvara í sambandi við Ólafsfjarðarmúla að Vegagerðin hafi samráð við heimamenn á Ólafsfirði og Dalvík í sambandi við þessa framkvæmd. Eins og síðasti hv. ræðumaður skýrði hér frá eru þar skiptar skoðanir um hvort þessi 2.5 km löng göng muni nægja. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það því að í sjálfu sér kom allt fram í máli hv. þm. um þetta efni. Ég vil þó leggja áherslu á að þegar er farið í svona framkvæmd sé það gert þannig að leysa þann vanda sem er þarna fyrir hendi. Ég er ekki sannfærður um að þetta þurfi að muna í kostnaði eins miklu og fram kemur á þessum tveimur valkostum. Mér hefur a.m.k. verið bent á að það væri líklegt að þarna mundi vera hægt að fara millileið sem mundi leysa þennan vanda eða a.m.k. að heimamenn á Ólafsfirði mundu geta sætt sig við.

Ég vil aðeins undirstrika þetta atriði við þessa umr. og vil svo vænta þess, að þessum framkvæmdum öllum verði flýtt eftir því sem kostur er vegna þess að hér er verið að reyna fyrirbyggjandi aðgerðir. Það hafa orðið slys á þessum vegum og ber náttúrlega að reyna að fyrirbyggja að slíkt komi fyrir, en það verður ekki gert öðruvísi en að gera vegabætur á öllum þessum stöðum.