01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það var næstum furðulegt þegar hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustólinn við upphaf þessarar umr. og hóf að gagnrýna vinnubrögð stjórnarandstöðunnar, hóf að gagnrýna það, að hér hefur verið vakin athygli á hlutum sem uggvænlega horfa og bent hefur verið á af þeim stofnunum sem gerst þekkja til peninga- og efnahagsmála í landinu og eru með öllu óvilhallar.

Það hefur komið glögglega fram í ræðum bankastjóra Seðlabankans á ársfundum bankans á undanförnum árum hvert stefndi með erlendar lántökur. Lengi vel gagnrýndi núv. hæstv. fjmrh. þá ríkisstj. sem hér var 1974–1978, ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, en þar gegndi ég embætti fjmrh. Hann gagnrýndi sérstaklega erlendar lántökur og notaði oft hlutfall erlendra lána til viðmiðunar við þjóðarframleiðsluna 1975. Það var ár sem þjóðarframleiðslan dróst mjög saman. Það var ár sem viðskiptakjörin versnuðu mjög í framhaldi af því sem gerst hafði 1974. Þess vegna var um að ræða mjög slæmt ár til viðmiðunar við þjóðarframleiðslu, hvaða stærðir eða atriði sem voru tekin. En þetta er það sem við gerum þegar við erum að meta stöðu efnahags- og fjármála. Þá er það að sjálfsögðu þjóðarframleiðslan, þ.e. hvað þjóðin hefur til sölu og þar af leiðandi hvað það er sem þjóðin hefur möguleika á að eyða. Það var fyrir u.þ.b. ári að seðlabankastjórinn vék að því í ræðu sinni, að svo væri nú komið í sambandi við erlendar lántökur að hlutfallið væri nú miðað við þjóðarframleiðslu að verða hærra en árið 1975, og þá að sjálfsögðu til viðmiðunar mismunurinn á árferðinu 1975 og á árinu 1980. Það er líka hægt að heyra það af ræðum hæstv. fjmrh., að þessi viðmiðun er ekki lengur inni í myndinni, einfaldlega vegna þess að hlutfall erlendra lána af þjóðarframleiðslu er komið langt upp fyrir hlutfallið 1975.

En þess vegna vík ég að þessu hér í framhaldi af því sem hv. 1. þm. Vestf., frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hefur gert, að einmitt erlendu lántökurnar, hinar miklu erlendu lántökur, eru hluti af því dæmi sem sett hefur verið upp til þess að reyna að blekkja, til þess að reyna að telja mönnum trú um að stjórn ríkisfjármálanna sé í góðu lagi og að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann sé að minnka, en það verður ævinlega og hefur þurft alveg fram að s.l. áramótum að hafa það með, að þær væru að minnka að raungildi. Þegar þessum hæstv. ráðherrum hefur verið ljóst að þeirra fjármálastefna, þeirra stefna í efnahagsmálum hefur ekki getað leitt til þess, að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann lækkaði að krónutölu, þá er hvort tveggja, að erlendar lántökur eru auknar svo gífurlega sem raun ber vitni, og hitt, að verðbólgan er látin dansa áfram, því að þá minnkar skuld ríkissjóðs við Seðlabankann að raungildi. Þetta eru dæmin eins og þau liggja fyrir okkur og verða ekki hrakin, enda hefur hæstv. fjmrh. ekki gert tilraun til að gera það.

En áður en að þessu er staðið er þegar búið að auka mjög á skattheimtuna í landinu og auka tekjur ríkissjóðs sem mun nema á árinu 1982 um 1 milljarði króna frá því sem hefði verið ef sú skattheimta hefði gilt sem hér gilti í upphafi árs 1978. Það er stórkostlega aukin skattheimta, það eru stórkostlega aukin erlend lán og verðbólgan hefur aldrei verið meiri en í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Samt sem áður tekst ekki að lækka skuld ríkissjóðs við Seðlabankann eins og fjárlög gerðu ráð fyrir um 100 millj. kr., einfaldlega vegna þess að verðbólgan hefur verið það mikil og áfram kynt undir hana. Það er einmitt stefna vinstri stjórna að draga úr ráðstöfunarfé fólksins, draga það í hendur ríkisins og ráðskast með það. Það er ljóst að allt frá 1977 til 1981 er hækkun skattheimtu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu 3.3%. Skattheimtan er 1977 25%, en reynist 1981 28.3%.

Ef við höldum áfram að gera okkur grein fyrir þeim feluleik sem hér er að staðið, þá má bera saman skuld ríkissjóðs 1977 — og ég verð að nota tölurnar frá 1980 því að tölur 1981 eru ekki fram komnar, það tekur þetta langan tíma að gera sér grein fyrir þeim. Árið 1977 er skuld ríkissjóðs við Seðlabankann 149 millj. kr. og í lok þess árs eru erlendar skuldir ríkissjóðs samkvæmt tölum, sem upp hafa verið gefnar, 794 millj. eða samtals 943 millj. Ef við tökum þetta sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni þá, þá er um að ræða 24.7%. Ef hins vegar er tekið árið 1980 eða áramótin 1980–81, er skuld ríkissjóðs við Seðlabankann 315 millj. kr. og erlendar skuldir 3459 millj. samtals 3774 millj. kr. eða 28.4% af þjóðarframleiðslu. Frá árinu 1977 til 1980, á árunum 1978, 1979, og 1980 hækka skuldir ríkissjóðs samtals sem nemur 3.7% af þjóðarframleiðslunni. Og ef það er reiknað út miðað við þjóðarframleiðsluna 1980 er hér um að ræða tæpar 500 millj. kr. Þetta er dæmið þegar það er skoðað ofan í kjölinn. Það skiptir ekki máli hvort skuldin er við Seðlabankann eða skuldin er erlend skuld. Það, sem hér þarf að gera, er að leggja saman skuldir ríkissjóðs og gera sér grein fyrir stöðunni. Og þá kemur í ljós að skuldaaukningin er 500 millj. kr. miðað við þjóðarframleiðslu á árinu 1980.

Hæstv. fjmrh. vék að því í sinni ræðu hvernig útkoma ríkissjóðs hefði verið árið 1981. Það var upphaf þess 1976, að Alþingi var gefin skýrsla samkvæmt bráðabirgðatölum ríkisbókhalds um afkomu ríkissjóðs. Það tók nokkurn tíma og sú skýrsla var ekki lögð fram fyrr en í marsmánuði. Síðan var þetta gert 1977 og 1978 og þá tókst að sjálfsögðu að gera þetta miklu fyrr. Við lentum síðan í stjórnarbreytingu og skýrsla ráðh., sem kom á borð þm. í fyrra, kom í apríl, og við erum enn komnir fram í aprílmánuð án þess að Alþingi hafi verið gerð grein fyrir því með slíkri skýrslu hver útkoma ríkissjóðs var 1981. Hins vegar gerði hæstv. ráðh. í ræðu sinni við upphaf 3. umr. lánsfjárlaga nokkra grein fyrir því, án þess að þm. fengju tækifæri til þess að skoða þær tölur áður. Hann hefur hins vegar tjáð mér að skýrslan muni koma innan örfárra daga, vonandi fyrir páskaleyfi. En eðlilegast hefði verið, úr því að lánsfjáráætlun er hér til 3. umræðu svo seint, að ráðh. hefði lagt skýrsluna fram fyrir 3. umr. lánsfjárlaga og við getað rætt hana þá í leiðinni í stað þess að koma fram með þær tölur sem hann gerði og gefa þm. ekki tækifæri til þess að ræða skýrsluna sem slíka.

Hæstv. ráðh. kallaði eftir tillögum frá minni hl. á Alþingi varðandi niðurskurð á fjárlögum. Í lánsfjárlögum er óskað heimildar til hækkunar á þeim tölum sem fjárlög gerðu ráð fyrir, 50 millj. í 120, en það er fyrst í dag sem ríkisstj. lætur frá sér fara hverjar hennar hugmyndir eru. En fyrir nokkrum dögum auglýsti ráðh. eftir því, hverjar væru tillögur stjórnarandstöðunnar. Hann hafði tíma til þess a.m.k. að gera sér grein fyrir hvernig hann hygðist nota niðurskurðarheimild fjárlaganna og í öðru lagi hverjar tillögur hann hefði uppi ef heimild yrði veitt fyrir 120 millj. kr. Það er í dag sem skjalið er lagt til okkar fjh.- og viðskn. manna, en við höfum óskað eftir því um langan tíma. Að vísu eru sum blöðin dagsett 5. febr., þannig að það hefði nú verið hægt að leggja það til nm. þá, a.m.k. hvað snertir 50 millj. kr., en það er fyrst í dag sem það sést í heild hvernig ráðh. hugsar sér að beita þeirri heimild verði hún samþykkt við 3. umr. lánsfjárlaga.

Hv. 1. þm. Vestf. gerði grein fyrir því, að við hefðum óskað eftir fundi í fjh.- og viðskn. til þess að skoða þessi mál. Og ég verð að segja að mér finnst furðu sæta að fjvn., sem eðli málsins samkvæmt á að fjalla um þessi mál, hefur ekki fengið tækifæri til þess. Mér skilst að þessi skýrsla hafi verið lögð þar fram á fundi í morgun fyrst, en þeir nm. ekki fengið tækifæri til að ræða þessar till. Svo mikið og erfitt er starf fjvn.-manna, svo mikla vinnu leggja þessir menn fram til þess að koma saman fjárlögum ríkisins, að það er lágmarkskrafa að þeir fái tíma til þess að virða fyrir sér hvað það er sem ríkisstj. hyggst breyta út frá því sem þeir höfðu lagt til og Alþingi hafði samþykkt, áður en til þess kemur að samþykkt sé slíkt ákvæði. Mér er enn fremur Ijáð að fjmrn. sé þegar farið að rita bréf þar sem þess er getið að það eigi að lækka ríkisútgjöldin sem nemur 120 millj. kr. Auðvitað er þar um áform að ræða, en mér hefði fundist eðlilegast að slíkar bréfaskriftir yrðu látnar bíða þar til Alþingi hefði samþykkt þá till. sem hér liggur fyrir.

Þar sem lánsfjárfrv. — eins og það heitir raunverulega, bandormur um efnahagsmál ætti það að heita — er 34–35 greinar, frv. sem ætti að vera upp á 5–6 greinar, finnst mér ekki koma til greina að bjóða Alþingi það, að þar sé verið að fá heimildir til þess að breyta lögum, fjölda laga, og leggja síðan fram niðurskurðartillögur sama daginn og 3. umr. fer fram um lánsfjáráætlun, öðruvísi en að nefndinni gefist tækifæri til að bera saman frv.-textann og þær niðurskurðartillögur sem lagðar hafa verið fram. Og eðlilegast væri, ef rétt væri að staðið, að bíða þar til fjvn. hefði fengið tækifæri til að segja til um það sem hér er lagt til — og þá, ef til þess þyrfti að koma, gera brtt. við það frv. sem hér er til umr.

Ég ítreka því það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, að nm. fái tækifæri til að fjalla um þessar tillögur og gera samanburð á texta frv. sem hér er til umr.

Í þeim orðum, sem hæstv. fjmrh. viðhafði við upphaf 3. umr. vék hann að einu ákvæði lánsfjárfrv„ þ.e. þar sem lífeyrissjóðir eru skuldbundnir til að kaupa ríkistryggð bréf til þess að fjármagna þá lánsfjáráætlun sem ríkisstj. hyggst framkvæma á þessu ári. Það kom enn fremur fram í atkvgr. við 2. umr., að einhverjir þm. töldu sig hafa greitt atkv. með svipuðu ákvæði í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Hér er rangt með farið, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði grein fyrir við atkvgr. við 2. umr. Það var aðeins með lánsfjárlögunum 1978 að sú skylda var lögð á herðar lífeyrissjóðanna að þeir verðtryggðu sín útlán. Áður hafði verið gert samkomulag við þá um kaup á bréfum. Það má m.a.s. fara lengra aftur en til upphafs ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, samkomulag hafði áður verið gert um kaup á 20% af ráðstöfunarfé sjóðanna. Hins vegar var óskað eftir frekari þátttöku þeirra. En lögin frá 1978 gera ekki ráð fyrir kvöð eða skyldu eins og það frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.

Það var og er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að hér eigi að vera frjálst samkomulag. Það er enn fremur skoðun okkar, að þeir sjóðir, sem ríkissjóður nú hefur látið kaupa af sér bréf, kannske til að gera dæmið við Seðlabankann eitthvað fallegra, skuli halda áfram að kaupa bréf af þeim aðilum sem þeir keyptu af áður, til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu. Það er ekki nóg með það, að verið sé að skylda sjóðina til að kaupa slík bréf, heldur hefur núv. ríkisstj„ til þess að fjármagna ríkishítina hjá sér, látið kaupa bréf af ríkissjóði fyrir það fjármagn sem var áður notað til kaupa á bréfum frá Framkvæmdasjóði og Húsnæðismálastofnun. Það er auðvitað í samræmi við annað hjá núv. hæstv. ríkisstj. í peningamálastjórn landsins.

Það er ekki bara að skattheimtan hafi verið aukin svo geigvænlega sem raun ber vitni, það er ekki bara að innlend verðbréfakaup af ríkissjóði hafi verið aukin, heldur hefur verið lögð viðbótarkvöð á viðskiptabankana til þess að fjármagna lánsfjáráætlun ríkisstj. Það er nú komið hjá bankakerfinu. þeim aðilum sem ætlað er að fjármagna atvinnulífið, þannig er nú komið á hávertíðinni, að allir bankarnir hafa orðið að yfirdraga reikninga sína hjá Seðlabanka Íslands. Aukin innlend útgáfa á verðbréfum, aukin skattheimta, auknar álögur á viðskiptabankana til kaupa á bréfum frá ríkissjóði, aukin binding, allt verkar þetta á þá lund að bankakerfið er rekið með yfirdrætti frá Seðlabankanum.

Ég held að þeir, sem telja að hér sé um að ræða góða fjármálastjórn geri sér ekki grein fyrir í hverju góð fjármálastjórn liggur. Það er ljóst að sú lánsfjáráætlun, sem hér er til umr., stefnir þessum málum öllum saman í enn þá meiri voða. Það er ljóst að öll þessi lán verðum við að borga. Hvað þýðir það á síðari stigum, hvað þýðir það á næstu árum ef þá á ekki að draga úr? Það þýðir aukna skattheimtu, það þýðir áfram auknar erlendar lántökur.

Það var hér áður fyrr fjmrh. sem fékk orð í eyra þegar hann lagði á skatta og þegar hann tók erlend lán. Sá heitir Eysteinn Jónsson og var mjög þekktur einmitt í þessum efnum. En þeir skattborgarar þessa lands, sem þekktu þann tíma, gera sér grein fyrir því, að þeir eru nú að lifa verri tíma en jafnvel þegar, eins og þeir segja, þessi annars ágæti maður gegndi embætti fjmrh. Eftir að útvarpið hafði sagt frá fyrri hluta þessarar umr. og ræðu hæstv. fjmrh. vék skattborgari að mér þessari vísu:

Áður fyrr var Eysteinskan

illa séð á Fróni,

en okkur veldur Arnaldskan

enn þá meira tjóni.