01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, og ljótt er ef satt er, að hv. 1. þm. Vestmanneyinga hafi stöðvað lagasetningu um Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir um tveim árum eða svo, og ekki til þess fallið að vegur Alþingis vaxi ef þessi vitneskja berst mjög víða. (Gripið fram í: Það er ekki satt.)

Hér hafa margvíslegar hugmyndir komið fram um Sinfóníuhljómsveitina sem ég tel rétt að víkja nokkrum orðum að. Auðvitað vaknar þá fyrst sú spurning, hvernig gert sé ráð fyrir í þessu frv. að staðið sé að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar og hvort okkur virðist sem sú skipan, sem hér er lögð til, verði til verulegra bóta. Ég vil þá fyrst minna á að því fer víðs fjarri, að fjárlög séu samþykkt með þeim hætti að þeim mönnum, sem bera ábyrgð á rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar sé gefinn nokkur kostur á því að leggja fram raunhæfa rekstrar- eða starfsáætlun fyrir hljómsveitina. Þetta á við bæði um Sinfóníuhljómsveit og Þjóðleikhús. Ég er með hér fyrir framan mig ríkisreikninginn fyrir tveim árum. Hann er þessu sama marki brenndur. Þar vantar verulega á að séð sé fyrir nægilegum framlögum til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að bæði hæstv. ríkisstj., þegar hún leggur fjárlagafrv. fram, og eins meiri hluti fjvn. gerir það vísvitandi að vanáætla gjöld þessara menningarstofnana tveggja, Sinfóníuhljómsveitar og Þjóðleikhúss. Þetta hefur síðan í almennri umræðu valdið því, að þessar stofnanir hafa fengið á sig leiðinlegan blæ í huga sumra, eins og raunar kom fram í umr. áðan.

Frá mínum bæjardyrum séð er grundvallaratriði, ef menn vilja standa vel á bak við Sinfóníuhljómsveitina, að sómasamlega sé að henni búið í fjárlögum þannig að um raunhæfa rekstraráætlun geti orðið að ræða. Í framhaldi af því teldi ég mjög æskilegt ef unnt yrði að koma á einhverju því skipulagi sem tryggði það, að góð frammistaða hljómsveitarinnar gæfi hljóðfæraleikurum fyrirheit um nokkra umbun sjálfum sér til handa. Þessi hugmynd hefur oft komið upp, var um skeið mjög rædd innan hljómsveitarinnar sjálfrar, en hins vegar hafa ekki skapast fyrir því pólitískar forsendur að unnt sé að taka hana upp nú, heldur verður það að bíða betri tíma þegar aðrir menn fara með yfirráð þessara mála.

Ég er svolítið undrandi á því, að enn í dag skuli því haldið fram hér, að það sé aðeins 1000 manna hópur sem njóti hljómsveitarinnar. Ég held að engum manni blandist hugur um að tónlistin stendur nú með þvílíkum blóma hér á landi að varla er hægt að jafna því við nokkra aðra listgrein í landinu. Þessi staðreynd hefur vakið mikla athygli erlendis, og ég hef af því spurnir að ýmsir þeir erlendu hljóðfæraleikarar og tónskáld, sem hafa komið hingað, séu mjög hrifnir af því, á hve háu plani íslensk tónlist er, og bera þeir þó getu okkar saman við getu þeirra þjóða sem fremstar standa í þessum efnum á Vesturlöndum.

Mér kemur jafnmikið á óvart þegar verið er að gera því skóna að einhver útlendingahersveit hafi haslað sér völl í Sinfóníuhljómsveitinni. Það er auðvitað svo að smám saman hafa innlendir hljómsveitarmenn leyst af hólmi erlenda. Það er líka svo að ýmsir erlendir hljómsveitarmenn, sem hingað hafa komið, hafa lyft Grettistaki og orðið ómetanlegir fyrir íslenskt hljómlistarlíf. Ég get nefnt þar mörg nöfn. Ég get látið nægja að nefna menn eins og Urbancic eða Róbert Abraham og fleiri mætti auðvitað nefna sem ég skal ekki gera nú. páll Pampichler pálsson hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni, og marga fleiri má hér nefna til. Auðvitað er eðlilegt að við fáum erlenda tónlistarmenn hingað til þess að gefa okkur nýtt blóð, á sama hátt og það er nauðsynlegt fyrir okkar tónlistarmenn að fara út fyrir pollinn og starfa með erlendum tónlistarmönnum.

Hv. 6. þm. Norðurl.e. gerði mikið úr því, að Sinfóníuhljómsveitin væri byrði fyrir Ríkisútvarpið. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig hann hugsar það. Ef litið er á rekstrarreikning Ríkisútvarpsins kemur í ljós að til Sinfóníuhljómsveitarinnar renna milli 2 og 3% af rekstrargjöldum. Mér finnst bagginn ekki ýkjastór. „Bera bý bagga skoplítinn hvert að húsi heim.“ Mér finnst þetta satt að segja skoplítill baggi fyrir allt það starf sem þeir menn, sem hafa unnið sinfóníuhljómsveitina upp, hafa unnið Ríkisútvarpinu. Ég vil sérstaklega minna á eitt í þessu sambandi. Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar fá aðeins greiðslu í eitt skipti fyrir öll fyrir flutning á tónverkum. En ef við berum það saman t.d. við leikara kemur í ljós að þeir fá fyrst full laun við frumflutning verks í Ríkisútvarpi, síðan fá þeir, að ég hygg, helming, ef verkið er endurflutt innan tiltekins tíma, og svo fulla greiðslu þegar frá líður. Leikarar og hljóðfæraleikarar sitja því þarna við ólikt borð og mjög hallar á hljóðfæraleikarana í því sambandi. Ég held ég fari rétt með þetta, en væri þakklátur ef hæstv. menntmrh. leiðrétti ef hér er eitthvað missagt.

Mér er í raun ómögulegt að reikna dæmið þannig að Ríkisútvarpið sé baggi á Sinfóníuhljómsveit frekar en öfugt. Ég vil á hinn bóginn mjög fagna því, að í meðförum Ed. tókst að breikka starfsgrundvöll Sinfóníuhljómsveitarinnar, eins og hann er hugsaður í lögunum, með því að inn var tekin sú breytingartillaga að á viðskiptagrundvelli sé heimilt að efna til samvinnu milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar, Þjóðleikhússins, Íslensku óperunnar og Íslenska dansflokksins hins vegar. Þetta var náttúrlega nauðsynlegt ákvæði og hefur sennilega ekki komist inn í upphaflega gerð frv. fyrir vangá.

Þá vil ég einnig mjög fagna þeim breytingum sem orðið hafa á 2. gr. og tel þær mjög til bóta, einkum það, að sérstaka áherslu beri að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar utan lands sem innan, ef tilefni gefast, og vil í því sambandi láta í ljós þá skoðun mína, að sjálfsagt sé að einungis íslensk verk séu á verkefnaskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar ef hún fer í ferðalög til annarra landa.

Nú get ég ekki annað en dáðst að því, hvað hv. þm. Vestmanneyinga, hv. 4. þm. Suðurl. er einbeittur og staðfastur í sinni alþjóðahyggju — og sver sig þar í ætt við kommúnismann þegar hann talar um að það sé ekki einu sinni til íslensk tónlist frekar en ensk eða þýsk, heldur sé aðeins til alþjóðleg tónlist. Er það náttúrlega til vitnis um að hann hefur einhvers staðar fengið gott uppeldi. En hræddur er ég samt um að menningarmafíunni í Alþb. hafi mistekist þegar hún var að reyna að koma vitinu fyrir þennan hv. þm. Auðvitað er til íslensk tónlist. En hitt vekur kannske spurningu, hvort til sé nokkur sovésk tónlist yfir höfuð að tala, sem maður getur kallað tónlist, hvort einmitt alþjóðahyggjan eins og hún er í framkvæmd drepi ekki niður alla listsköpun, hvort sem það er á sviði tónlistar eða annars staðar, þó svo að góð verk séu samin í löndum eins og Sovétríkjunum sé sú tónlist sprottin af allt öðrum hvötum en þeim sovésku. Ég held að það sé jafnfráleitt kannske að það sé til sovésk tónlist og að Púskin sé sovéskt skáld, eins og þó er haldið á lofti í Austur-Þýskalandi.

Ég vil svo aðeins í þessu samhengi láta í ljós undrun yfir því, þegar gefið er í skyn að íslenskir hljómlistarmenn vinni ekki fyrir kaupi sínu. Við höfum einmitt orðið vör við það núna, að þeir hafa lyft Grettistaki í Gamla-Bíó og þeir leggja geysimikla vinnu í að kynna tónlistina.

Það er kannske undarlegast við þessar umræður að leggja eins mikla áherslu á uppeldislegt hlutverk Sinfóníuhljómsveitarinnar og hv. 6. þm. Norðurl. e. gerði áðan, með hliðsjón af því að tónlistarmenntun hefur aukist mjög í landinu. Ég held ég fari rétt með það, að það sé ekki saman að jafna hversu miklu meira rennur núna til tónlistarfræðslu og kennslu en nokkru sinni fyrr. Er ég þá ekki að tala bara um þetta einstaka ár, heldur hvernig þróunin hefur orðið. Úti um land getum við bent á fámenn sveitarfélög þar sem mikil tónlistarvakning hefur orðið í kjölfar þess að fjárhagslegt bolmagn hefur orðið til að ráða tónlistarkennara. Ég get nefnt jafnvel þann stað á landinu sem fjarlægastur er Reykjavík í þessu sambandi, Raufarhöfn, þar sem mikil tónlistarvakning hefur orðið á undanförnum árum.

Alltaf má svo deila um það, hversu mikla vinnu og hversu mikla fjármuni Sinfóníuhljómsveitin eigi að leggja í það sem kalla mætti að kynna yngstu kynslóðinni þá hljómlist sem hún flytur. Þegar talað er um kvöð í þessu sambandi verða orðin náttúrlega heldur almenn nema þeim séu gerð gleggri skil en var gert áðan. Væri fróðlegt að fá frekari hugmyndir um þetta, t.d. hvað eðlilegt væri að verja miklu fé til þess og hvernig slík samvinna gæti orðið við aðra þá sem vinna að því að auka tónmennt með þjóðinni.

Ég skal ekki gera stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar að umtalsefni nú, 4„ 5„ 6 og 7. gr. frv., verkefnavalsnefnd og annað því líkt. Það má auðvitað alltaf um það deila hvaða skipulag sé best. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fullyrða neitt um það, hvort við sjáum ástæðu til þess í menntmn. að flytja brtt. eða gera athugasemdir við þá tilhögun sem hér er lögð til. En ég vil að það komi fram alveg skýrt, að Sjálfstfl. mun leggja á það áherslu, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, langan tíma þar sem málið hefur fengið mjög rækilega umfjöllun í Ed.

Ég vil sérstaklega láta í ljós ánægju yfir þeirri fjölgun, sem hér er gert ráð fyrir að verði í Sinfóníuhljómsveitinni, og mjög leggja að hæstv. menntmrh. að fylgja þessari lagasetningu eftir þegar gengið verður frá fjárlagafrv. svo að þetta fyrirheit geti orðið að raunveruleika þegar á næsta ári. Það er því miður þannig að almenn lög gefa enga tryggingu fyrir því að fjármagn sé fyrir hendi. Við vorum síðast í dag að samþykkja hér í deild lánsfjáráætlun sem gerir ráð fyrir að skerða mjög lögboðin framlög til einstakra verkefna. Í almennum lögum er því ekki hægt að tryggja að nægilegur fjárhagslegur grundvöllur skapist, og þau gefa ekki heldur rétt til mannaráðninga, heldur verður að fylgja því eftir í stjórnarráðinu sjálfu og svo í fjárlögum. Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. muni gera það.

Það má náttúrlega tala langt mál um það hvort Sinfóníuhljómsveitin hafi sinnt tónleikahaldi úti á landi nægilega vei. Auðvitað er æskilegast að sem mest gæti orðið úr þvílíku starfi. En við rekum okkur á að slíkt tónleikahald er mjög dýrt og þau 10%, sem hér er gert ráð fyrir, hrökkva í sannleika sagt mjög skammt. En auðvitað erum við, sem erum þm. strjálbýlisins, mjög hvetjandi þess að verja meira fjármagni til þessa en gert hefur verið um hríð.

Hv. 4. þm. Suðurl. spurðist fyrir um það, hvað þeir, sem nytu hljómlistarinnar, — hann á sennilega við þá sem leggja leið sína á sinfóníutónleika, — hafi greitt mikið af útgjöldum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ætli það séu ekki rétt tæp 7% á árinu 1979. Þetta er náttúrlega ekki mjög mikið, en við verðum þá að minnast þess, að það kostar peninga að vera menningarþjóð. Þetta er sá skattur sem við verðum að greiða til þess. Og það er enginn vafi á því, að ef áhrif tónlistarinnar yrðu rakin inn í mannlífið sjálft, þau hollu og góðu áhrif sem tónlistariðkun hefur á einstaklinga og fjölskyldur, á börn í skólum, þá skila þessir peningar sér margfaldlega til baka. Ég hef oft einmitt vakið athygli á því, að ýmsir af bestu nemendum mínum hafa verið mjög snjallir og góðir tónlistariðkendur. Ég minnist þess sérstaklega, að einhver besti nemandi, sem ég hef kennt á öllum mínum ferli, er nú að ljúka einleikaraprófi í píanóleik og lék einmitt fyrir skömmu frumflutt verk eftir Atla Heimi Sveinsson með mikilli prýði. Þessi stúlka var í skóla afskaplega vel að sér í öllum greinum og til fyrirmyndar og hafði alltaf tíma einnig til þess að gefa sig að félagsmálum. Ég held þess vegna að það sé mjög hæpið að einblína á þessa einu tölu í ríkisreikningi, sem heitir ríkissjóður A-hluti, aðra aðila í B-hluta og sveitarfélög. Ég held að það góða, sem við fáum í aðra hönd af tónlistarmenntuninni, af því að menn leggja sig eftir henni, það sé ekki í ríkisreikningi. Það sé í allt, allt öðrum reikningi sem hvergi er bókfærður, hvergi nokkurs staðar og við fáum seint bókfærðan.

Ég væri þess vegna miklu frekar tilleiðanlegur til þess að leggja meira af mörkum til Sinfóníuhljómsveitarinnar en hér er lagt til. Og eins og ég sagði áðan, það má auðvitað deila um hvernig frá slíkri löggjöf skuli ganga, hvernig yfirstjórnin skuli vera. En við hljótum að þreifa okkur áfram í þeim efnum og þakka það mikla verk sem einstaklingar hafa unnið fyrir þessa hljómsveit fyrr og síðar.