02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði að ég hefði talað við sig út af umræddri umsókn og það er rétt. Ég hef sótt á um innflutning skipa. En ég hef líka sagt að það hefði ekkert skip átt að flytja inn á s.l. ári og þessu ári, það er líka rétt. En ég fór ekki að tala við hæstv. viðskrh. um innflutning skipa fyrr en búið var að veita leyfi fyrir innflutningi skipa. Þá fannst mér eðlilegt að þessi aðili fengi skip. Ég hefði hiklaust veitt þessum aðila með þeim allra fyrstu leyfi til að flytja inn skip sakir langs starfs hans við útgerð og á sjónum sem skipstjóri og útgerðarmaður. En við því hefði ekkert verið hægt að segja þótt hann hefði fengið synjun ef enginn innflutningur hefði átt sér stað. Hvenær hefur verið ríkari þörf á að koma í veg fyrir innflutning skipa, ef það er ekki þegar fór að líða á árið 1981 og á þessu ári, ef hæstv. ríkisstj. vill reyna að hugsa? Það er verið að byggja ný skip, stór og afkastamikil skip innanlands, og það er engin smáaukning sem hefur orðið á fiskiskipaflotanum við það að loðnuveiðar eru hættar og allur sá floti, um 50 skip, fer á bolfiskveiðar. Það er ekkert litið sem er verið að rýra kjör þeirra, sem bolfiskveiðarnar hafa stundað, við þessa óumflýjanlegu breytingu sem er ekki við neinn um að sakast.

Hitt get ég ekki fallist á, að menn hagi sér þannig að þegar skip fer í úreldingu eða aldurslagatryggingu hjá einhverjum og einhverjum, þá geti menn á allt öðrum stað á landinu sagt: Ég ætla að gera þetta skip ónýtt, ef ég fæ innflutning hjá honum Tómasi, sbr. skip sem heitir Sporður. Ég held að hæstv. viðskrh. ætti að hafa mynd af sporði yfir skrifborðinu sínu, því að það ætti vel við eftir þau sporðaköst öll sem þar hafa átt sér stað að undanförnu.