02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

257. mál, málefni aldraðra

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki við höndina stefnuskrá Alþb. í þessum málaflokki né heldur Alþfl. og ekki heldur míns flokks, en að gefnu tilefni frá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Alexander Stefánssyni, get ég tekið undir allt það sem hann las upp úr stefnuskrá Framsfl. því að ég held að stefnuskrá Framsfl. í þessu máli sé efnislega nákvæmlega sú sama kannske ekki eins orðuð og stefnuskrá allra hinna flokkanna. Ég held að stefnuskrár flokkanna séu allar byggðar á þeirri vinnu sem unnin hefur verið af öllum pólitískum flokkum sem mynda borgarstjórn Reykjavíkur og hafa unnið þar saman ágreiningslaust frá því 1972. Ég vil því að það komi fram í þeim ágætu upptökutækjum, sem hér eru í gangi, að stefnuskrár allra flokkanna eru nákvæmlega eins efnislega, en geta hugsanlega verið mismunandi orðaðar.

En það, sem ég vil segja hér, er að ég fagna framlagningu þessa frv. og ég fagna líka þeim áhuga sem ég hef persónulega orðið var við hjá hæstv. ráðh. í þessum málaflokki, á málum aldraðra. Það er enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna um átak í þessum málafokki.

Ég vil geta þess, að það var árið 1972 undir forustu Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra, sem þá var, formanns Sjálfstfl., að borgarstjórn varð sammála um að gera málefni aldraðra að forgangsverkefni borgarstjórnar. Það var ágreiningslaust í borgarstjórn og allir sammála um að taka frá 7.5% af útsvarstekjum borgarinnar eins og þær eru hverju sinni og leggja í byggingarsjóð fyrir aldraða í Reykjavíkurborg. Ég undirstrika að þetta var ágreiningslaust. Þessi svokallaða byggingarnefnd fyrir aldraða í Reykjavík var kosin 1973, þá undir forustu Birgis Ísl. Gunnarssonar borgarstjóra, en alltaf með fullu samkomulagi allra flokka. Byggingarnefndin hélt nokkra fundi til undirbúnings og skipulagningar á byggingarstarfsemi og á fyrirkomulagi eftir að byggingar risu, og náðist fullkomið samkomulag bæði í byggingarnefndinni, í borgarráði og borgarstjórn síðar.

Ég sé að þeir, sem störfuðu hvað mest að skipulagningu og að byggingarframkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar frá 1972 fram að því að hæstv. þáv. trmrh., Magnús H. Magnússon, setti á stofn nefnd, samkv. því sem kemur fram í grg. þessa frv., 17. apríl 1979, eru einnig í þeirri nefnd sem hefur undirbúið þetta frv., svo að það er ekki að furða þótt frv. sé að öllu leyti eins og það skipulag sem Reykjavíkurborg hefur starfað eftir síðan 1973. Þar kemur rn. inn sem var borgarstjórn, þar kemur félagsmálaráð inn sem var félagsmálaráð Reykjavíkurborgar, og þar kemur þjónustunefnd inn sem var þjónustunefnd fyrir stofnanir aldraðra þegar starfandi o.s.frv.

Það er ekkert nýtt í þessu frv., en þó vil ég taka það fram, að ég er í svolitlum vafa um 27. gr. Hér segir, með leyfi forseta: „Kostnaður af rekstri heimaþjónustu skal greiddur af sjúkrasamlögum“ o.s.frv. Þar er talað um tekjuskiptingu. Ég held að það mundi vera gagnlegt að fá umsögn Reykjavíkurborgar og Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, áður en frv. kemur úr nefnd, til að fá fram hvað þetta þýðir fyrir Reykjavíkurborg, sem er með þessa þjónustu í gangi, og hvort það er kostnaðarauki eða ekki. Ég skal ekki segja um það á þessu stigi, en mun bíða eftir umsögn Reykjavíkurborgar til að leggja mat á það.

Samkvæmt þeim aðferðum, sem hér eru kynntar, hafa verið byggð á vegum Reykjavíkurborgar Furugerði 2, Norðurbrún 1, Austurbrún, Lönguhlíðarhúsið, Hafnarbúðir, Hvítabandið er nú tekið í notkun, Dalbrautin, Heilsuverndarstöðin Í Reykjavík tekin í notkun — ekki byggð en tekin í notkun á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir, og nú á að taka í notkun í næsta mánuði dvalarheimili sem við höfum kallað án þess að hafa skírt það endanlega, Droplaugarstaði, vegna þess að það stendur við götu sem heitir Droplaugarstígur.

Í undirbúningsnefndunum voru á sínum tíma haldnir tveir borgarfundir til að ganga frá þessu skipulagi. Í þessum undirbúningsnefndum voru, til viðbótar við þá borgarfulltrúa sem enn þá starfa að þessum sömu byggingarmálum, í sátt og samlyndi allan tímann, þeir Þór Halldórsson, sem er einn af ráðgjöfum ríkisstj. um þessi mál og hafði samvinnu við þá nefnd sem leggur fram þetta frv., Halldór Steinsen, Arinbjörn Kolbeinsson, Gísli Sigurbjörnsson og fleiri. Hafa þeir verið framsögumenn bæði á þeim fundum, sem upphaflega voru haldnir að Hafnarbúðum, Hótel Sögu og á fleiri fundum, þannig að þessar tillögur og hugmyndir fagmanna, sem starfa hvað mest að öldrunarmálum og störfuðu hvað mest að öldrunarmálum, hafa allar komið fram og er þeim safnað saman. Síðan hafa tveir af þessum mönnum farið utan til að kynna sér betur þessi mál og undirstrika það sem áður hafði komið fram. — En í nefndinni — og mjög áhugasamir um þessi mál öll — voru líka læknarnir Úlfar Þórðarson og Páll Gíslason. Ég taldi þá ekki upp áðan vegna þess að þeir voru líka borgarfulltrúar og áhrifamiklir innan byggingarnefndarinnar. Þeir sitja þar enn báðir.

Ég fagna þessu frv., en þó með þeim fyrirvara að borgarstjórn eða borgarráð eða félagsmálaráð Reykjavíkurborgar eða sú þjónustunefnd, sem er starfandi, skili umsögn um það. Það hefur að sjálfsögðu verið byggt á þeirri gríðarlega miklu reynslu sem er komin af fyrirmyndarstofnunum eins og Elliheimilinu Grund og DAS. DAS er nú komið með útibú í Hafnarfirði sem ég held að sé með fallegustu og bestu heimilum sem ég hef séð. Þrátt fyrir að okkar nýju heimili í Reykjavíkurborg séu góð fannst mér einhvern veginn bjartara yfir DAS heimilinu og gott andrúmsloft.

Ég fagna þessu frv. Ég veit ekki hvort ég má þá tala fyrir hönd Sjálfstfl., ég hef ekki fengið neitt sérstakt leyfi til þess, en ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að flokkurinn allur stendur að þessu þegar þar að kemur.