04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það má þó þakka fyrir það, að svo virðist sem sú skoðun, sem kom fram hjá 4. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni, að öllum ráðh. hafi tekist að blekkja sjálfa sig, eigi ekki alveg við rök að styðjast, því að nú loks kemur það þó fram hjá hæstv. sjútvrh., að ekki er allt sem sýnist og sá blekkingahjúpur, sem hæstv. ríkisstj. hefur sveipað um sig og sínar gerðir og stöðu atvinnuveganna að undanförnu, er ekki annað en hjóm.

Við erum búnir að fá hér nokkra lýsingu á þeim vanda sem blasir við fyrirtækjum í sjávarútvegi og útgerðinni. Vissulega vil ég þakka það, að hæstv. ráðh. hefur tekið til umhugsunar þessi vandamál og nefnir ýmsar leiðir sem hann er að reyna að fara og ræðir um að farnar verði, þótt ég hins vegar telji að þær séu hvergi nærri nægjanlegar. Er því ekki að ófyrirsynju að Framsfl. hélt kvöld- og næturfundi í gær til þess að ræða um gengisaðlögun íslensku krónunnar. Og þá skilur maður vel það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan, að fast gengi væri ekki sáluhjálparatriði fyrir hann.

Þm. eru búnir að fá viðurkenningu á því, að jafnvel þótt hér séu taldir upp margir liðir um það sem megi verða til þess að laga ástandið hjá okkar aðalútflutningsatvinnuvegum, þá sé það ekki nóg, enda vantar afskaplega mikið hér á. Það vantar á, að ekki er hægt að borga nógu hátt fiskverð, sem er eitt meginmálið ekki aðeins fyrir útgerðina sjálfa, heldur fyrir þá sem starfa um borð. Því verður enn óskiljanlegri sú leið sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur valið, að ráðast að áhöfnum skipanna, að fiskimönnum þjóðarinnar til þess að reyna að stöðva verðbólguna hjá þeim, þrátt fyrir þá skoðun hæstv. sjútvrh., að það ætti ekki að lemja á sjómönnum einum til þess að stöðva verðbólguna. Ríkisstj. hefur hins vegar farið þá leið. Um leið og sjómenn sneru í hana bakinu hafa þeir verið slegnir í hnakkann og sparkað í þá um leið.

En það liggur fyrir í dag, að það er ekki aðeins að sjómenn sigli í land og hóti því að fara ekki á sjó aftur um næstu áramót nema búið verði að ákveða fiskverð og búið að bæta þeim nokkuð upp af því sem hefur verið stolið af þeim á undanförnum árum, heldur er fjöldinn allur af þegnum þjóðfélagsins kominn á sömu skoðun. Jafnvel unglingar, nemendur í skólum streyma til borgarinnar og taka þátt í verkföllum hér á torgum höfuðborgarinnar með nemendum í höfuðborginni. Kennarar í skólum fara í verkfall. Ég veit ekki hvað verður næst. Það er því miður ekkert sem bendir til að hæstvirtir ráðherrar fari í verkfall. Þeir mættu gjarnan fara í langt verkfall.

Svo er komið líka að hér er starfandi sjóður við hliðina á ríkissjóði Íslands, lánasjóður ráðherranna sem er notaður óspart. Það eru tekin erlend lán. Hæstv. viðskrh. viðurkenndi í útvarpsumr. að það, sem hefði áunnist í baráttunni við verðbólguna til þessa, væru erlendu lánin. Því miður hafa þau ekki öll verið notuð þannig að maður sjái í fljótu bragði að það sé vegur til að lækka verðbólgu hvernig þau hafa verið notuð. Stærsti liðurinn þar er náttúrlega sá, að bætt hefur verið við fiskiskipaflotann svo óspart að engu tali tekur, þvert ofan í mótmæli þeirra sem þar vinna, þvert ofan í þá staðreynd, að það er ekki nægur afli til fyrir allan þennan flota. Og þeir, sem keypt hafa og ætlað að kaupa þessi skip, hafa ekki haft ráð á því, hafa t. d. ekki getað skilað þeim 20% sem þeir eiga sjálfir að skila sem kaupendur. Þá hafa hæstv. ráðherrar bara boðið þeim erlent lán fyrir sínum hlut, sem sagt 100% erlend lán til þess að kaupa fleiri skip, til þess að höggva í takmarkaða fiskstofna. Ef rétt er líka að tekin séu erlend lán til að kaupa íslensk skip á milli staða á Íslandi, þá er auðvitað ekki von að vel fari. Hér er á ferðinni slík vitleysa að það tekur engu tali.

Það hefur komið fram hér hjá hæstv. ráðh. um stöðu togaranna — þeirra 19 sem hann minntist á og eru auðvitað fleiri, en alla vega þessir 19 sem eru smíðaðir á allra síðustu árum — að það er auðvitað enginn rekstrargrundvöllur fyrir þessi skip. Það mun hafa komið fram í umr. ekki alls fyrir löngu, að til þess að þessi skip gætu staðið undir sér þyrftu þau að veiða um 16–17 þús. tonn á ári og helst af góðfiski. Okkar toppaflaskip skila milli 6 og 7 þús. tonnum. Hins vegar fór hæstv. ráðh. hér með veiðitölur frá góðum, nýjum skipum sem fara niður undir 2–3 þús. tonn þrátt fyrir úthald í yfir 300 daga.

Það er ljóst að hér er miklu meira að baki en svo að hægt sé að lagfæra vanda útgerðarinnar með því að létta nokkuð á þeim okurálögum sem ríkisstj. hefur tekið upp í sambandi við ekki aðeins stimpilgjöld, heldur yfirleitt öll gjöld sem ríkisstj. hefur getað ráðið við. Ódrengilegt væri af mér að halda því fram, að þetta hafi byrjað í tíð þeirrar hæstv. ríkisstj. sem nú situr. Þessi þróun hófst haustið 1978. Stórþjófnaðurinn af fiskimönnum hófst í tíð þeirrar vinstri stjórnar sem þá tók við völdum og í raun situr enn með litlum breytingum og færslum til bóta.

Það er að sjálfsögðu af hinu góða, að landsfundur Sjálfstfl. skuli vera að baki og hæstv. ráðherrar skuli nú geta komið fram fyrir alþjóð og skýrt frá þeim vandamálum sem blasa við þjóðinni, blasa við atvinnuvegunum, blasa við útgerðinni.

Ég minntist á það að gefnu tilefni um daginn — og hæstv. sjútvrh. reyndi að snúa út úr því í ræðu sinni eða vildi ekki skilja það — að það hefði orðið nokkur öfugþróun í sambandi við fiskverð frá því að núv. vinstristjórnarsamsteypa, sem ég kalla, tók við völdum 1978. Hann vildi hér úr ræðustól láta að því liggja, að þessi þróun hefði átt sér stað síðan 1974. Þetta er auðvitað alrangt. Sú staðreynd liggur fyrir, og hún liggur fyrir hjá öllum sjómönnum og útgerðarmönnum um leið, að í ráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar tókst að lyfta upp hlutfallinu fyrir fiskimenn og útgerðarmenn — þá á ég við fiskverðið á móti almennum kauptöxtum í landi — og það hélst meðan hann var í stól sjútvrh. En strax haustið eftir að hann fór frá byrjaði stuldurinn. Það var lofað ýmsum félagsmálapökkum sem allt aðrir aðilar sömdu um og hentuðu þeim, en komu ekki að notum fyrir íslenska sjómenn. Það var ekki fyrr en farið var að lemja á ráðherrum með gaddasvipu um það að standa við eitthvað af þeim loforðum sem þeir höfðu gefið, að nokkuð af því kom. En það er enn þá mikið eftir og ekki að undra þó að íslenskir sjómenn kalli nú eftir því, að þessi loforð verði uppfyllt. Tek ég þó skýrt fram að það, sem hefur náðst á þessu tímabili fyrir sjómenn, er þýðingarmikið og vissulega til þess að hrósa og þeir mega þakka fyrir að hafa loksins náð því. En það kemur hvergi á móti þeim milljörðum kr. sem teknir voru af þeim til þess að standa undir kostnaði við slík viðskipti hjá öðrum aðilum.

Það var jákvætt hlutfall fyrir sjómenn á milli kauptaxta annarra launþega og sjómanna alveg fram á árið 1977. Síðan fór að halla undan þegar kom fram á 1978, og nú er svo komið að ef kauptaxti er miðaður við 100 er fiskverðið komið niður undir 80, en segja má að þegar best lét hafi hlutfallið þarna á milli verið öfugt. Það er því alrangt hjá hæstv. ráðh. þegar hann vill halda því fram, að þessi þróun hafi átt sér stað allt frá 1974.

Hæstv. ráðh. ræddi einnig um það þá, og það er rétt að það komi enn skýrar fram hér, að vissulega hafa sjómenn haft góðar tekjur á þessum árum, m. a. vegna tæknivæðingar skipanna og veiðarfæranna, — og vegna friðunar landhelginnar fyrst og fremst, vil ég halda fram. En það er auðvitað ekki sanngjarnt að hlutur þeirra sé lækkaður, fiskverð til þeirra, um leið og vinnutími þeirra stóreykst, og skal ég aldrei þreytast á því að innprenta mönnum þetta. Þetta er nákvæmlega sama og launþegahreyfingin öll á Íslandi og reyndar víðs vegar um heim bendir á, að hún á að fá hlutdeild í aukinni framleiðni, að ég nú ekki tali um þegar framleiðni verður vegna aukinnar vinnu.

Mér þætti skrýtið ef hæstv. ráðherrar færu að beita þessari röksemd í næstu samningum við verkalýðinn sem vinnur undir afkastahvetjandi kerfum, ef þeir færu að benda viðkomandi — við skulum hugsa okkur fiskvinnslufólki — á að það ynni svo mikið, það legði svo mikið á sig og þénaði svo vel að það mætti vel lækka kauptaxtana hjá því. En það er í raun það sem hæstv. ráðh. fundu út að mætti gera við íslenska sjómenn.

Hæstv. ráðh. minntist hér á sjóði og talaði réttilega um að það drægi úr lánagetu Fiskveiðasjóðs og Framkvæmdasjóðs,. og þykir engum mikið þótt svo sé. Annað eins hafa þeir þurft að láta úti. Mér þykir gott meðan ekki kemur fram kvörtun um það, að þeir séu að komast í þrot, bæði Lloyds Bank og Barkleys Bank í Englandi og aðrir þeir bankar sem hæstv. viðskrh. getur náð til. Það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar, að erlendar lánastofnanir fari að taka í taumana með þau miklu lán sem hingað eru afgreidd.

Vegna þess að hæstv. sjútvrh. minntist á þessa tvo sjóði væri vissulega ástæða fyrir okkur hér í hv. þd. að fá nokkrar upplýsingar um það, hver sé staða þessara sjóða. Það kom fram í umr. um daginn, að í reikninga Fiskveiðasjóðs vantar bæði að færa útistandandi vexti og dráttarvexti og vísitölulán upp á verðlagi ársins 1980. Þá vantar að hluta að færa upp gengistryggð lán. Þarna gætu verið á floti tugir milljarða gkr. Sá hv. m., sem þessi orð mælti, hv. þm. Guðmundur Karlsson, óskaði eftir að hæstv. ráðh. gæfi Alþingi upplýsingar um stöðu þessa sjóðs. Ég tek undir þessa kröfu, og ég veit að hér eru fleiri hv. þm. sem munu taka undir hana jafnframt og þykjast eiga nokkra kröfu á að fá þær. Ég veit að það þýðir ekki að spyrja hæstv. ráðh. hver staða Framkvæmdasjóðs sé. Hann vísar bara á „kommissarinn“ sem á að leysa málin. Það er von að það sé vaxandi trú á mönnum. Þegar við höfum 16 ráðherra, þá bara vísa þeir á „kommissar“ Sverri Hermannsson, hann eigi að leysa málin, hann eigi að hætta að skrifa bréf, hann eigi að ráða fram úr þessu vandamáli ríkisstj. Af hverju fer ekki ríkisstj. inn í Framkvæmdastofnun og lætur Sverri setjast í ráðherrastólana alla? Hann mundi alveg geta gert það. (Gripið fram í.)

Hann mundi halda á þessum hv. þm., sem var að kalla fram í, og mundi ekki muna um það.

Ég skal ekki eyða miklum tíma frá þinginu í þessa umr. vegna þess að ég veit að hér eru hv. þm. sem vilja komast að með nokkrar spurningar til hæstv. ráðh. Væri þó full ástæða til að ræða við hæstv. ráðh. frekar um framleiðnimál í atvinnuvegunum, þá kannske sérstaklega í annarri útgerð en við höfum talað hér um, t. d. um farskipin, þótt það heyri ekki beint undir hann. En það hefur oft verið þannig, að hann er einn af fáum ráðh. sem skilur eitthvað í þeim málum. Er út af fyrir sig gott ef hann gæti eitthvað útskýrt fyrir hinum hvað lægi á bak við þetta hugtak. Við skulum t. d. hafa það í huga, að það hefur orðið gífurleg framleiðniaukning hjá farskipaflotanum. Ég leyfi mér að fullyrða að farskipaflotinn hafi skilað ótrúlega miklum gróða á undanförnum árum. En þar er sömu söguna að segja: Þessi mikla framleiðni hefur ekki aðeins náðst fyrir nýjan tæknibúnað og tæknivæðingu skipanna og annars konar skip en áður voru notuð, hún hefur líka náðst vegna tækniframfara í höfnum, bæði hér heima og erlendis. Hér heima hefur þetta haft í för með sér gífurlegt vinnuálag þeirra verkamanna, sem við þetta vinna, og manna um borð í skipunum sömuleiðis sem verða að leggja nótt við dag dögum saman í höfnum erlendis. Báðir þessir aðilar telja hins vegar að þeir hafi ekki fengið þann hlut út úr þessari framleiðniaukningu útgerðarfélaganna sem þeim ber, og þetta verður kannske eitt af því sem hvað mest verður barist um í næstu samningum, enda veit ég ekki til þess, að neins staðar séu til marktækar framleiðnimælingar hjá fyrirtækjum yfirleitt, hvorki þessum né öðrum. Það má hins vegar segja að þær finnist kannske í fiskiðnaðinum, en annars staðar ekki.

Hæstv. ráðh. kom nokkuð inn á hin sérstöku vandamál sem við búum við í sambandi við loðnuveiðarnar og síldveiðarnar. Það urðu nokkrar umr. um loðnuverð og loðnustofninn hér fyrir nokkrum dögum og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar kom fram. Ég vil þó aðeins benda á það og vona að þær fullyrðingar sjómanna sjálfra eða skipstjóranna á loðnuskipunum, þeirra skoðanir og álít sé rétt, að það sé meiri loðna í sjónum en kom fram í mælingum rannsóknarskipsins. Og ég tek það fram, að það var ekki skoðun fiskifræðinganna að stofninn væri orðinn þetta lítill. Hins vegar vöruðu þeir við og sögðu að þessar mælingar bentu til að hann væri ekki stærri en þetta. En þegar við förum að skoða þetta mál betur mætti athuga það, að um þetta skip, sem við hefðum getað sent til þessara rannsókna, er nú þannig ástatt, að það er vanbúið sem skip og vanbúið að rannsóknartækjum miðað við það skip sem Norðmenn senda t. d. hingað til sameiginlegra rannsókna með þessu skipi okkar. Og það er andskoti hart — ég bið forseta forláts á orðbragðinu — en það er hart að hugsa til þess, að ár eftir ár hefur einn af þremur aðilum, sjútvrn., hagsýsla ríkisins eða fjvn., skorið niður óskir Hafrannsóknarstofnunar um að kaupa tæki sem getur haft það í för með sér að rannsóknaskip okkar geti togað með miklu, miklu meira öryggi í verri sjó og veðri heldur en þau hafa getað gert hingað til. Það hefur ekki verið fínt heiti á þessum tækjum. Það er kallað á máli þeirra fiskifræðinga „togbody“ og er þannig notað, að það er hægt að sökkva því niður á ákveðið dýpi, misjafnlega mikið dýpi eftir því hvað þeir vilja láta það fara langt niður til bergmálsmælinga, og alla vega er það látið svo langt niður að það sé laust við ölduhreyfingu sjávar. En að við skulum ekki geta leyft okkur að kaupa svona tæki, jafnvel þó það kosti töluverða upphæð, skulum við segja, að okkur sé ekki fært að leggja í þetta, en hafa svo yfir okkur hættuna á að við séum kannske að eyða loðnustofninum eða að við getum ekki fundið loðnuna þannig að við getum bent okkar skipum á að taka það magn, sem hægt er að taka, á sem hagkvæmustum tíma, það er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Þetta er auðvitað eitt af mörgum dæmum um það, að ekki hefur verið litið til þessa atvinnuvegar sem skyldi. Ég veit ekki hvernig hefur reitt af þeirri þáltill. sem við fluttum nokkrir þm. úr öllum flokkum á síðasta þingi um tilraunatank fyrir veiðarfæri, en það hefur auðvitað gífurlega mikla þýðingu fyrir okkar útveg og um leið okkar vísindamenn að hafa slíkan tank til að vinna við hér á landi. Ég veit ekki hvað það mál er komið langt, en vonandi sér sjútvrh., sem ég veit að skilur þörfina á slíkum búnaði, um að slíkt verði gert auk þess sem ég hef hér drepið á.

Ég vil undirstrika það til viðbótar því sem hæstv. ráðh. taldi hér upp, að auðvitað er 1 jóst að þegar verðbólgan er jafnmikil og hún er hér innanlands og tekið er til sín af öllum stéttum þjóðfélagsins áður en kemur til skipta til útgerðar og áhafna skipa, þá er ekki von að vel fari. Þess hefur ekki verið gætt af ríkisstj. að byggja upp okkar verðjöfnunarsjóði. Þeim hefur verið eytt og þessir sjóðir eru núna orðnir stærstu skammtímaskuldarar landsins og eru notaðir eins og aðrir sjóðir, sem ríkisstj. kemst yfir, sem budda í vasa til þess að ráða fram úr stundarerfiðleikum. Á þessu verður auðvitað að verða breyting. Þetta eru nauðsynleg stjórnunartæki fyrir útflutningsatvinnuvegi okkar, fyrir fiskveiðarnar og fyrir útgerðina, og þá ber að sjálfsögðu að efla.

Það er enginn vafi að rangt fiskverð, sem stafar m. a. af því, að gengið hefur ekki verið látið aðlaga sig því verði sem þyrfti og þess vegna ekki það verð fengist fyrir afurðir okkar á Evrópumörkuðum sem þyrfti að vera, um leið og sá ágóði sem hefur orðið af skráningunni vestra hefur ekki komið til góða þessum sömu aðilum, þetta er eitt atriðið í vanda sjávarútvegsins, en óðaverðbólgan hér heima er örugglega eitt það þyngsta. Það er auðvitað alveg sama hvað hæstv. ríkisstj. reynir að fela það mál með tölum og fallegum orðum, við vitum að svo er. 17 ára gamall grundvöllur vísitölu, sem notaður er til þess að reikna út kaupmátt, er auðvitað ekki sú viðmiðun sem ætti að nota í dag. Það væri sannarlega æskilegt, að þeir, sem vald hafa til þess, t. d. verkalýðshreyfingin, létu koma fram þá kröfu frá sér, að kaupmátturinn í dag miðað við 8 stunda vinnudag verkamanns væri reiknaður út frá þeim grundvelli sem þegar hefur verið fundinn þótt ekki sé búið að sem ja um hann, en hlaupið væri einu sinni fram hjá þessum 17 ára gamla sem er notaður ítrekað í fölsunarskyni til þess að telja hag allra betri en hann í raun er.

Ég vil ljúka máli mínu með þeim orðum, herra forseti, að þakka hæstv. sjúvrh. fyrir tiltölulega hreinskilin svör og jafnframt það, að hann er þó með ákveðnar hugmyndir um lausn á sumum vandamálum útgerðarinnar, sem ég því miður hef ekki trú á að muni nægja, en munu að sjálfsögðu hjálpa til.