06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

236. mál, móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. til hæstv. menntmrh. um móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum. Spurt er:

„1. Hverjar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á árinu 1982 til að koma viðunandi sjónvarpssambandi við þá sveitabæi og þéttbýlisstaði á Vestfjörðum, sem ýmist hafa engin eða þá mjög slæm skilyrði til móttöku á sjónvarpi?

2. Hvað liður áætlunum um uppsetningu FM-senda á Vestfjörðum svo að Vestfirðingar geti notið móttöku á FM stereo-útsendingum hljóðvarps?“

Það er ekki að ófyrirsynju að ég hef leyft mér að spyrja þessara spurninga sem tilgreindar eru á þskj. 438. Það stendur þannig á að það er á vissan hátt ófremdarástand á Vestfjörðum hvað snertir móttökuskilyrði sjónvarps. Í Vestfjarðakjördæmi eru núna um 65 býli sem ýmist hafa engin eða þá mjög slæm skilyrði til móttöku á sjónvarpi. Þetta ástand er vítt og breitt um Vestfirði.

Svo að ég tiltaki hvar þetta er vil ég nefna að í Geiradalshreppi eru tveir bæir þar sem eru slæm skilyrði. Í Reykhólahreppi eru tveir bæir sem þurfa leiðréttingar við. Annar hefur ónothæf skilyrði, hinn slæm. Í Gufudalshreppi eru sömuleiðis tveir bæir sem eins er ástatt um. Í Rauðasandshreppi eru þrír bæir sem þarf að koma til aðstoðar í þessum efnum. Tveir bæirnir hafa ónothæf eða sama sem engin sjónvarpsskilyrði, einn bærinn slæm. Í Suðurfjarðahreppi eru tveir bæir sem hafa ónothæf skilyrði. Í Ketildalahreppi eru sjö bæir sem allir eru taldir hafa ónothæf sjónvarpsskilyrði, og gefur auga leið að það er harla slæmt ástand í þeim hreppi hvað þetta snertir. Í Auðkúluhreppi eru fimm bæir, svo að ég haldi áfram, sem þarf að koma til aðstoðar. Fjórir hafa slæm skilyrði og einn hefur ónothæf eða engin skilyrði. Í Þingeyrarhreppi er um að ræða fjóra bæi sem hafa ónothæf skilyrði. Í þessari skýrslu, sem ég hef, stendur þó, svo að alls sé gætt, að ekki sé föst búseta á þessum bæjum. Í Suðureyrarhreppi eru fjórir bæir sem hafa ónothæf skilyrði og er þar mjög slæmt ástand. Þetta er í Staðardal í Súgandafirði. Í Súðavíkurhreppi eru þrír bæir sem hér koma við sögu. Tveir hafa ónothæf skilyrði og einn hefur slæm skilyrði. Ekki tekur betur við þegar innar kemur í Djúpinu. Í Ögurhreppi eru sex bæir með ónothæf skilyrði eða sama sem engin skilyrði og einn með slæmu skilyrði. Í Reykjarfjarðarhreppi eru sex bæir sem ýmist eru með slæm skilyrði eða ónothæf, og fjórir bæir í Nauteyrarhreppi eru með ónothæf skilyrði. Ef við víkjum okkur í Strandasýslu er í nyrsta hreppi í Strandasýslu einn bær með ónothæf skilyrði og svo þéttbýlisstaðurinn Djúpavík sem er einnig með ónothæf skilyrði. Í Hrófbergshreppi sunnar í sýslunni eru fimm bæir með ónothæf skilyrði og í Kirkjubólshreppi einn bær með slæm skilyrði. Í Fellshreppi eru tveir bæir með ónothæf skilyrði. Í Óspakseyrarhreppi eru fimm bæir sem þurfa úrlausnar við, fjórir eru með ónothæf skilyrði og einn með slæm.

Ég hef farið fljótlega yfir þetta ástand á sveitabæjum á Vestfjörðum og hygg ég að ekki þurfi að orðlengja frekar um að brýn er þörf á að tekið sé til hendi í þessum efnum.

En 2. liður varðar FM-sendingar á Vestfjörðum, hljóðvarpssendingar, og þar eru Vestfirðingar á eftir öðrum. Þeir hafa nú þegar aðeins þrjá FM-senda af 35 FM-sendum sem hafa verið settir upp á landinu vítt og breitt. Er spurt einnig um hvað líði framkvæmdum í þeim efnum.