06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

359. mál, flóð Þjórsár í Villingaholtshreppi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er aðeins til áréttingar. Mér finnst gæta hjá hv. fyrirspyrjanda þess misskilnings, að það séu neikvæð viðhorf hjá virkjunaraðila í sambandi við þetta mál. En í svari mínu áðan kom fram og haft eftir Landsvirkjun sem viðbrögð við erindi frá Villingaholtshreppi, að hún sé reiðubúin að taka upp viðræður við hreppinn um þennan vanda á grundvelli athugana sem standa yfir. Ekki þarf að eyða orðum að því, að það er ekki sama hvernig við er brugðist, hvernig staðið er að slíkri mannvirkjagerð, sem er kostnaðarsöm ef ráðist er í að gera varnargarða. Þarf að byggja það bæði á góðum landmælingum og að menn átti sig á breyttum rennslisháttum árinnar, í þessu tilviki Þjórsár.

Ég tel ekki að ástæða sé til að finna að viðbrögðum Landsvirkjunar sérstaklega í þessu efni. Ég treysti því, að hún taki jákvætt undir þetta, og mundi hlutast til um og ýta á það ef ég mæti það svo, að það væri ekki góður hugur af hennar hálfu í þessu efni. Hitt liggur fyrir, að fyrirtækið hefur ekki viðurkennt neina skyldu af sinni hálfu í þessum efnum út frá lagalegum sjónarmiðum. Það er svo önnur saga. En farsælast er ef menn geta tekið sameiginlega á vanda sem þessum, sem er augljós. Og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að þarna getur vissulega verið umtalsverð vá fyrir dyrum, sem snertir byggðir í neðanverðum Flóa, og nauðsyn að bregðast við slíku fyrr en seinna.