06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3653 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

365. mál, ný langbylgjustöð

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Spurt er að því, hvað líði áætlun um byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Því er til að svara af minni hálfu, að þótt æskilegt væri vissulega að reisa nýja langbylgjustöð til að leysa af hendi gömlu Vatnsendastöðina hefur ekki verið tekin lokaákvörðun um slíka nýbyggingu enn þá. Hins vegar hefur margs konar vinna verið unnin til undirbúnings slíkri ákvörðun og ég mun leggja til að hafist verði handa um þessa byggingu á næsta ári.

Ný langbylgjustöð er afar kostnaðarsamt fyrirtæki og það hleypur enginn í slíkt verk. Áætlað er að langbylgjustöð af æskilegri stærð og gerð muni kosta 90–100 millj. kr. eða 9–10 milljarða gkr. Af því má sjá að hér er um risamannvirki að ræða.

Því verður ekki á móti mælt, að þörfin fyrir nýja langbylgjustöð er mikil, en fjárskortur hefur frestað framkvæmdum til þessa. Ég vil þó benda á að þó að þörf Ríkisútvarpsins fyrir langbylgjusendingar sé mikil hefur sú þörf á ýmsan hátt minnkað eftir því sem FM-kerfið breiðist út, en áætlað er að FM-kerfið nái til allra hér á landi eftir 2–3 ár. Hins vegar er ljóst að FM-kerfið leysir ekki langbylgjusendingar af hólmi algerlega. Langbylgjan skiptir miklu máli fyrir svæði utan mannabyggðar og fyrir hafið umhverfis landið. Traust langbylgjustöð er því óefað öryggistæki fyrir alla þjóðina, eins konar máttarstólpi í almannavarnakerfinu. Slík stöð heldur uppi því sérstaka hlutverki útvarpsins að vera til taks þegar neyðin kallar, að vera hluti af öryggisþjónustu landsmanna, jafnvel fremur en því hlutverki að vera menningar- og fréttamiðill. Ég tel því margt mæla með því, að ekki verði lagt á Ríkisútvarpið eitt að kosta nýja langbylgjustöð, heldur komi ríkissjóður þar beint við sögu ásamt útvarpinu, sem að sjálfsögðu ber að kosta slíka framkvæmd að verulegu leyti.

Ég endurtek að ég byggi þetta álit á þeirri staðreynd, að langbylgjustöðin er allt eins öryggismál og almannavarnamál eins og þáttur í eiginlegum útvarpsrekstri, sem sé að miðla fréttum og öðru dagskrárefni til menntunar eða afþreyingar. Ég endurtek hversu mikilvægt það er að koma upp nýrri langbylgjustöð. En ég hlýt að minna á hversu kostnaðarsamt málið er, auk þess sem ég legg áherslu á að það er ekki lengur mál Ríkisútvarpsins eins að bera kostnað af endurnýjun langbylgjustöðvarinnar. Slíka framkvæmd ætti að fjármagna á sérstakan hátt.

Svar mitt við fsp. er það, að lokaákvörðun hefur ekki verið tekin af útvarpsins hálfu um byggingu langbylgjustöðvar, en málið er mikið rætt og unnið að undirbúningi þess og ég mun leggja til, að hafnar verði framkvæmdir á næsta ári, og vænti þess þá, að hv. Alþingi verði við því búið að leggja verulegt fjármagn í það, vafalaust á þann hátt að samþykkja lánsheimild fyrir Ríkisútvarpið eða ríkissjóð til að koma slíkri stöð upp.