04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að gera nokkra aths. við þingsköp. Mér er kunnugt um að ráðh., sem fjalla um málaflokka sem eru til umræðu, eins og nú hæstv. sjútvrh., geta eðlilega komist að, en annað mál er að aðrir ráðherrar hafi heimild til að skjóta sér inn á mælendaskrá, eins og hér hefur gerst með hæstv. ráðh. Svavar Gestsson. (Félmrh.: Ég bað ekki um það. Það var ákvörðun forseta.) Það var ákvörðun forseta. Það er gott að heyra. Þessu mótmæli ég harðlega, þessu skipulagi á fundarhaldi.

Ég vil byrja á því að lýsa því yfir, að ég tel þá umr., sem hér er hafin um rekstrarafkomu atvinnuveganna og útlit og horfur í þeim efnum, mjög tímabæra. Ég verð að segja það hæstv. sjútvrh. til hróss, að hann flutti býsna hreinskilna ræðu sem ég mun koma að eilítið síðar, en hún er í þvílíku hrópandi ósamræmi við þá skrautklæðaræðu sem m. a. hæstv. forsrh. hefur flutt, og vil ég þá minna t. d. á stefnuræðu hans fyrir skömmu, að engu lagi er líkt. Hæstv. forsrh. hefur lýst ástandinu þannig, að það væri bókstaflega ekkert að, hér drypi smjör af hverju strái. Hæstv. sjútvrh. er þó maður til að játa og viðurkenna að vandamálin eru hvarvetna. Þau eru ekki bara í sjávarútvegi og þau eru ekki bara í fiskiðnaði, — þau eru miklu meira í iðnaði, almennum iðnaði, eins og hann sagði sjálfur, en hann kvaðst ekki vita hve mikill sá vandi væri. Ég vil biðja þingheim að taka vandlega eftir því, hve mikið ósamræmi er á milli orða hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. þegar þeir fjalla um ástand efnahagsmála á Íslandi. Það er eftirtektarvert og kannske það eftirtektarverðasta, sem fram hefur komið í þessari umr., að þar er munurinn geysilegur.

Þau Pótemkíntjöld, sem hæstv. forsrh. og ýmsir aðrir ráðh. hafa verið að dunda við að reisa undanfarnar vikur og mánuði, mega sín lítils við þeim staðreyndum sem nú blasa við. Það væri kannske rétt að minna á nokkrar fölur sem hæstv. sjútvrh. nefndi: mínus 0.7% í útgerðinni, undir núllinu, og frystingin mínus 9.1%. Þó að eitthvað sé skárra bæði í söltun og herslunni hefur það ekkert að segja á móti frystingunni. Þá vil ég bera fram þá spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort það hafi verið kannað hvernig ástand er á mörkuðum okkar fyrir saltfisk og skreið. Hvernig er staðan þar? Hvernig er staðan á Spáni? Hvernig er staðan í Nígeríu? Við hverju megum við búast í þeim löndum varðandi sölu á þessum varningi?

Ég vil líka minnast á að það kemur oft fram í ræðum hæstv. ráðh. að rekstrarörðugleikar atvinnuveganna stafi fyrst og fremst af vaxtabyrðinni, af verðtryggingarákvæðunum. En ég vil um leið spyrja þessa hæstv. ráðh. að því, hvar núv. ríkisstj. væri stödd ef verðtrygging inn- og úttána væri ekki í gildi. Ef sú stefna, sem Alþfl. barðist fyrir í sambandi við verðtryggingu fjármuna í íslensku þ jóðfélagi, væri ekki í gildi, hvar væri núv. ríkisstj. stödd? Hvar væri það fjármagn sem hún hefur verið að grípa til og vill gripa til og er til í bönkunum? Það væri ekki til. Og hvar væri þessi hæstv. ríkisstj. stödd ef verðlag á Bandaríkjamarkaði hefði ekki verið jafnhátt að undanförnu og raun ber vitni? Þá er ég hræddur um að atvinnureksturinn, miðað við óbreytta stefnu núv. hæstv. ríkisstj., væri stöðvaður að fullu og öllu í mjög mörgum tilvikum.

Erindi mitt hingað í þetta skipti var að rekja það sem gæti verið í hnotskurn ástandið í samfélagi okkar. Það eru sameiginlegir fundir sem þm. Norðurl. e. héldu í sínu kjördæmi á nýliðnu hausti. Þau fundarhöld voru eins og ganga í gegnum dimman kynjaskóg, þar sem hver forstöðumaðurinn á fætur öðrum kom á fund þm. og lýsti fjárhagsvanda síns fyrirtækis. Ég vil nefna nokkur.

Togararekstur á Ólafsfirði og Raufarhöfn: Á Raufarhöfn í kaldakoli, á Ólafsfirði mjög erfiður hjá sumum togurum, sérstaklega þeim nýrri. Atvinnuástand á Kópaskeri: Erfitt. SÍS-verksmiðjurnar á Akureyri: Þá sögu þekkja allir. Sá vandi hefur ekki verið leystur. Þar standa menn frammi fyrir því enn í dag að þurfa að segja upp stórum hópi starfsfólks. Forstöðumaður þessara verksmiðja var í útvarpsþætti í gærmorgun og lýsti á mjög skynsamlegan og ljósan hátt hver væri ástæðan fyrir erfiðleikunum í rekstri SÍS-verksmiðjanna. Hún var einfaldlega sú, að innlendur tilkostnaður hafði hækkað upp úr öllu valdi. Verðið fyrir varninginn var langt fyrir neðan innlendan tilkostnað. Í þriðja lagi: Nær allar saumastofur í kjördæminu lokaðar, hafa lagt endanlega upp laupana ef ekki verður eitthvað gert til að bæta þeirra hag. Í fjórða eða fimmta lagi: Botnlaus halli á rekstri kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn. Engar líkur á úrbótum.

Þetta var sú mynd sem við okkur þm. blasti eftir ferðalag okkar. Og svo eru menn að draga í efa í raun og veru og með ýmsum talnaleikjum að ástandið í atvinnurekstrinum hér á landi sé erfitt. Ég verð að segja það fyrir mig, að tölur t. d. þeirrar virðulegu stofnunar, Þjóðhagsstofnunar, eru farnar að fara dálítið fyrir brjóstið á mér einfaldlega vegna þess að ég kannast ekki við þær niðurstöður, sem sú stofnun fær með sínum talnaleikjum ef ég ber þær saman við atvinnulífið í heild og við stöðu einstaklingsins í þjóðfélaginu. Tölur um kaupmáttaraukningu o. fl. koma ekki heim og saman við buddu einstaklingsins í þjóðfélaginu og hvað í henni er. Þetta eru talandi ljósar staðreyndir um að hér stefnir í hreint óefni. Verðbólgutölur upp á 40% geta í skýrslum Þjóðhagsstofnunar verið réttar með því að hagræða tölum á einhvern þann hátt sem hagfræðingar telja heppilegt hverju sinni. En talið þið við fólkið sem verður að láta enda ná saman við rekstur heimila sinna. Það er ekki sammála um þessar tölur. Laun þess ganga ekki upp til að reka heimilið. Hvað sem hver segir eru laun stórs hóps í þjóðfélaginu svo lág að þrátt fyrir hreinan og kláran þrældóm hjóna og jafnvel barna ná endar ekki saman.

Ég vil endurtaka þá spurningu, sem ég lagði fyrir hæstv. sjútvrh., hvar núv. ríkisstj. væri stödd í sínum peningamálum ef ekki hefði komið til verðtrygging fjárskuldbindinga í íslensku þjóðfélagi. Hæstv. sjútvrh. sagði nánast orðrétt, annaðhvort úr þessum stól eða í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum mánuðum, að hann hefði glapist til þess að fylgja stefnu Alþfl. í verðtryggingamálum. (Sjútvrh.: Hávaxtastefnu Alþfl.) Hávaxtastefnu. Ef hæstv. ráðh. vill koma hér upp á eftir og gera greinarmun á verðtryggingu og hávaxtastefnu vildi ég gjarnan heyra skilgreiningu hans á þessum tveimur atriðum. Hvort sem hann hefur glapist til þess að fylgja þessari stefnu eða ekki er það engu að síður staðreynd, viðurkennd af öllum mönnum sem vit hafa á, að sú aukning, sparifjármyndunar í bönkum landsins, sem orðið hefur á undanförnum mánuðum og misserum, er grundvöllur þess að hægt hefur verið að halda þó þeim dampi á þjóðarskútunni sem nú er haldið uppi. Þessu neitar ekki nokkur maður.

Ég tel að það, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan, sé fyllilega tímabært, að nú verði stjórn og stjórnarandstaða að taka höndum saman til að leysa þann gífurlega vanda í atvinnumálum þjóðarinnar sem við blasir. Það er ekki andskotalaust að láta reka á reiðanum eins og gert hefur verið og leysa vandamálin frá degi til dags. Það leiðir í hreint óefni.

Ég vil svo endurtaka það, herra forseti, sem ég sagði við upphaf ræðu minnar, og gera það að rauða þræðinum og kjarna þess sem ég er hér að segja, að menn veiti því eftirtekt hve gífurlegur munur var á þeim ræðum, sem hæstv. forsrh. hefur flutt um efnahagsástandið, um atvinnuþróunina og atvinnuástandið almennt í landinu, og ræðu hæstv. sjútvrh. sem hann flutti áðan. Munurinn er svo mikill að það getur ekki verið nokkur leið að þessir tveir menn tali sama tungumál. Hæstv. viðskrh. Tómas Árnason hefur einnig talað í mjög svipuðum dúr og hæstv. sjútvrh. og er þar með kominn fullkomlega á öndverðan meið við hæstv. forsrh. — Þetta vil ég að mönnum verði ljóst eftir þær umr. sem hér hafa farið fram í dag. — [Fundarhlé.]