15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

265. mál, Norðurlandasamningar um vinnumarkaðsmál

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um staðfestingu fjögurra Norðurlandasamninga um vinnumarkaðsmál og viðurkenningu starfsréttinda. Þessir samningar eru:

1. Samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, sem var undirritaður í Kaupmannahöfn 6. mars 1982.

2. Samningur um samstarf stjórnvalda og stofnana á sviði starfsendurhæfingar og starfsmenntunar, sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 6. mars 1982.

3. Samningur um viðurkenningu á starfsréttindum innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar, sem gerður var í Svendborg 25. ágúst 1981.

4. Samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara í grunnskólum, sem undirritað var í Helsingfors 3. mars 1982.

Í athugasemdum með þessari þáltill. er gerð grein fyrir hverjum þessara samninga fyrir sig, tildrögum þeirra og efni þeirra í höfuðdráttum. Þetta eru auðvitað allt merkilegir samningar og mikilvægir hlekkir í norrænni samvinnu. Af þessum samningum er auðvitað fyrsti samningurinn sem nefndur var, samningurinn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, mikilvægastur. Hann hefur verið alllengi í gildi á Norðurlöndunum, en Ísland stóð þar utan við af þeim ástæðum að ekki þótti fært fyrir Íslendinga að taka þátt í þeirri samvinnu. Nú hefur hins vegar orðið sú breyting á, að með fyrirvara, sem fékkst tekinn inn í samninginn, þar sem heimild er til að grípa til aðgerða ef nauðsyn krefur, þykir fært fyrir Íslendinga að fullgilda þennan samning og þær hlutaðeigandi stéttir, sem hér eiga mestan hlut að, mæla nú með honum.

Þar sem tími er nú naumur og þar sem málin eru allrækilega, þó í stuttu máli sé, skýrð í athugasemdum með þáltill. og nauðsyn ber til að koma þessari þáltill. til nefndar sem fyrst svo hún geti fengið afgreiðslu fyrir þinglok, þá ætla ég ekki, herra forseti, að lengja mál mitt meira um þetta að sinni, en leyfi mér að leggja til að þáltill. verði að þessari umr. lokinni vísað til utanrmn.