15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

180. mál, stefna í flugmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Menn muna það e.t.v., að fyrr á þessum vetri var haldinn almennur fundur um flugmál í veitingahúsi hér í bænum, fjölsóttur mjög af áhugamönnum um flugmál sem efndu til fundarins. Ástæðan fyrir því, að áhugamenn um flugmál töldu nauðsynlegt að halda umræddan fund, var sú, að þeirra skoðun var á þann veg, að nú stæði til að breyta þeirri stefnu í flugmálum, sem fylgt hefði verið á undanförnum árum, og óvissuástandið í flugmálunum væri það mikið að fullgild ástæða væri til þess fyrir áhugamenn um flugmál á Íslandi að beita sér fyrir almennum fundi um þau mál, sem m.a. hæstv. flugmálaráðherra var boðaður á. Hæstv. flugmálaráðherra mætti á þann fund. en þeir veittu því sérstaka athygli, sem fundinn sátu, að þegar forveri hans í ráðherraembætti og flokksbróðir, hv. fyrrv. alþm. og ráðh. Halldór E. Sigurðsson, bað um orðið gekk hæstv. flugmálaráðherra úr salnum. Af þessu geta menn séð hvort það eru ekki fleiri en þm. Alþfl. sem telja ástæðu til að ræða flugmál í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa í þeim málum m.a. vegna opinberra afskipta á undanförnum mánuðum og misserum. Af þessu geta menn líka séð að það er viðkvæmt mál víða, sú stefna sem nú er verið að móta, sem er fráhvarf frá þeirri stefnu sem fyrrv. samgöngu- og flugmálaráðherrar hafa fylgt. Það var ekki að ástæðulausu sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson bað um orðið á þessum fundi til að ræða þá stefnu sem hann markaði og nú var verið að hverfa frá. Það van ekki heldur að ástæðulausu, herra forseti, sem hæstv. núv. flugmálaráðherra tók það ráð að hverfa af fundi áður en forveri hans og flokksbróðir gekk í ræðustól.

Nokkru áður en alþm. fóru í páskaleyfi greip hæstv. samgrh. inn í tiltekin mál sem sjútvrh., sem olli miklum deilum hér á Alþingi íslendinga. Ég sat ekki á þingi þá, en fylgdist með þeim atburðum af blaðafregnum. Því miður var ekki hægt að koma því við að ræða málin við hæstv. ráðh. því hann þurfti að taka sér orlof og fara af landi brott áður en aðrir hv. þm. fengu sitt páskafrí.

Nú er Alþingi að hefja störf á ný að loknu páskaleyfi og þá er tekið fyrir annað mál sem einnig varðar störf þessa sama hæstv. ráðh. og verið hefur mikið deilumál m.a. hér á Alþingi í vetur. Bið ég menn að veita því sérstaka athygli, að þessi hæstv. ráðh., sem gat ekki verið hér viðstaddur í umr. á Alþingi um viðkvæm mál er snertu hann sjálfan og hans rn. dagana áður en þm. fóru í páskaleyfi, hefur ekki heldur setið undir umr. nú. Hann kom hér aðeins í salinn fyrst þegar umr. hófust, en hefur ekki sést núna allan seinni part dagsins og hefur ekki haft neinn áhuga á að hlýða á þá umr. um þessi mikilvægu mál sem hér hefur farið fram, hvorki á sína flokksbræður né aðra sem hér hafa talað.

Ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta, að hann sjái til þess nú á síðustu dögum þingsins, þegar verið er að ræða mál sem snerta ákveðna ráðherra mjög mikið, eins og þetta mál, að þá sjái þeir sóma sinn í að vera viðstaddir umræður. Alþingi er nú ætlað að sitja á fundum bæði að kvöldi til og einnig á þeim dögum sem ekki er vani að halda þingfundi á. En hæstv. ráðherrar virðast hafa tekið upp á þeim sið að sitja ekki í þingsalnum nema þá kannske rétt þegar fundur er settur. Síðan víkja þeir venjulega allir af þingfundum og sjást ekki meira þann dag. Það er ósköp skiljanlegt, hæstv. forseti, og kannske ekki eðlilegt að ætlast til þess af hæstv. ráðh., að þeir sitji sem fastast þegar verið er að ræða mál sem snerta ekki þeirra rn. eða eru ekki sérstaklega mikilvæg út frá sjónarmiði þeirra sem ráðh. Þingmenn verða að skilja það, að þeir þurfa öðrum störfum að sinna en hér í þinginu, og þá er ekki eðlilegt að ætlast til að þeir séu alltaf viðstaddir. En þegar um er að ræða málaflokk sem eins umdeildur hefur verið í vetur og þessi málaflokkur hefur verið, þar sem á oddinum stendur ráðh. sem vægast sagt hefur fengið mjög mikla gagnrýni fyrir afskipti sín af málunum og hefur ekki getað setið hér á Alþingi síðustu dagana fyrir páska eins og aðrir þm. þurftu að gera, þá verður að gera þá kröfu til þess hæstv. ráðh., að hann sinni þingskyldum sínum. Það nær ekki nokkurri átt, hæstv. forseti, ef það er hugmynd forseta þingsins að láta Alþingi sitja fram á kvöld við að ræða mikilvæg mál, ýmist stjórnmál eða mál einstakra þm., sem varða ríkisstj. í heild eða einstaka ráðh. mjög miklu, að sá háttur sé hafður á að ráðh. mæti ekki. Ef forsetar ætla að hafa þann hátt á að nota Alþingi fyrir nokkurs konar afgreiðslustofnun fyrir málefni ríkisstj„ án þess að ráðherrar láti sjá sig hér í þingsölum þegar verið er að ræða málaflokka sem sérstaklega varðar þá og eru mjög umdeildir, þá verðum við að skoða það sérstaklega, formenn þingflokka, hvort ástæða sé til að óska eftir því við forseta þingsins, að ekki sé haldið áfram þingstörfum eins og hæstv. forseti hefur gert ráð fyrir og við formenn þingflokkanna fallist á.

Hæstv. forseti Sþ. og forsetar deilda verða auðvitað að gæta þess, að þeir eru okkar oddvitar hér í þinginu. alþingismanna allra, og við hljótum að gera þá kröfu til þeirra, að þeir sjái til þess, að handhafar framkvæmdavaldsins séu viðstaddir umr. sem snerta þá jafnmikið og sú umr. sem hér hefur farið fram. Það nær ekki nokkurri átt, herra forseti, að það geti gerst í umr. um mál eins og þetta, að málsvarar þingflokka, eins og t.d. varaformaður Sjálfstfl. og fleiri, sem hér hafa talað, þurfi að tala yfir tómum ráðherrastólum og ekki sé hægt að beina fsp. til ráðh. eða óskum vegna þess að þeir sjái ekki sóma sinn í að vera viðstaddir.

Þá hefur því einnig verið haldið fram í sambandi við till. þá til þál. sem hér hefur verið lögð fram, að í henni sé ekki gerð tilraun til að marka neina flugmálastefnu. Það er algerlega rangt. Menn geta deilt um réttmæti þeirrar stefnu sem í þáltill. er mörkuð, en það er algerlega rangt að halda því fram, að afdráttarlaus stefna komi ekki fram í tillögu.

Í fyrsta lagi er tekið skýrt og skorinort fram hvernig eigi að standa að utanlandsfluginu, þar eigi eitt félag að sjá um flugið sem hafi til þess sérleyfi. Það er sú stefna sem mörkuð var upphaflega af þáv. samgrh. Hannibal Valdimarssyni og fylgt var af arftökum hans allt fram á þennan dag. — eða fram til þess öllu heldur að hæstv. núv. flugmálaráðherra tók við. Það er því alveg ljóst hver sú stefna er sem mörkuð er í þessari þáltill. varðandi utanlandsflugið. Það er einnig ljóst að sú till., sem gerð er í þáltill. um hver sú stefna skuli vera, er till. um að framfylgt verði þeirri stefnu sem fyrrv. samgrh. mótuðu og fylgt hefur verið af ríkisstj. og Alþingi þangað til sá tók við sem nú situr í því rn.

Þá er einnig í 2. tölul. mörkuð ákveðin stefna um hvernig eigi að tengja saman starfrækslu smærri flugfélaganna annars vegar og aðaláætlunarflugfélagsins hins vegar, og kem ég nánar að því síðar.

Þá er í þriðja lagi einnig mörkuð stefna í 3. tölul. um hvernig eigi að standa að verðlagsmálum í sambandi við ákvörðun um verðlagningu á flugfarseðlum bæði innanlands og erlendis. Það eru engar nýjar fréttir að Flugleiðir hafi ekki getað endurnýjað flugflota sinn á innanlandsleiðum eins og þær hafa þó óskað eftir. Ástæðan er einfaldlega sú, að við stefnumörkun stjórnvalda um verðlagningu á flugfargjöldum innanlands hefur ekki verið tekið mið af eðlilegri endurnýjunarþörf flugvéla félagsins. Það eiga ekki að vera nem tíðindi fyrir alþm., að það er langt síðan Flugleiðir töldu nauðsynlegt að endurnýja flugflota sinn á innanlandsleiðum. En félagið hefur ekki talið sig hafa fjárhagslegt bolmagn til að gera það vegna þeirrar verðlagsstefnu sem fylgt hefur verið varðandi flugfargjöld innanlands.

Þá er í fjórða lagi mörkuð sú stefna í þessari till., að í leiguflugi eigi að vera almenn og frjáls samkeppni, en þó eigi að gæta þess, að leiguflugið stefni ekki áætlunarflugleiðum í hættu. Það er ekkert óskýrt hvað við er átt með þessu. Það er öllum ljóst, að t.d. í áætlunarflugi til útlanda eru það fyrst og fremst ákveðnir árstímar sem standa undir fjárhag þess flugfélags eða þeirra flugfélaga sem það almenna áætlunarflug annast. Menn vita að t.d. yfir vetrarmánuðina eru þessar áætlunarleiðir margar hverjar reknar með tapi, en á aðalferðamannatímanum yfir sumarmánuðina tekst vegna mikils flutnings á þessum leiðum að vinna upp tapið sem áætlunarflugið hefur verið rekið með yfir vetrartímann. Þetta vita menn ósköp vel, að jafnt flugfélög sem önnur samgöngufyrirtæki, sem byggja á áætlunarleiðum, byggja sinn rekstur á því að geta náð á ferðamannatímanum þeim farþegafjölda sem nægir til þess að geta staðið undir reglulegum áætlunarferðum allt árið um kring, einnig á þeim tímum þegar minnst er um flutninga af slíku tagi. Það, sem átt er við og menn hafa sérstaklega spurt um varðandi síðustu mgr. 4. tölul., er einmitt að menn gæti þess í sambandi við leyfisveitingar til leiguflugs, að þó svo að almenna reglan sé að frjáls samkeppni skuli ríkja í leiguflugi, þá verði aldrei gengið svo langt í slíkum leyfisveitingum að leiguflugið, sem óneitanlega er fyrst og fremst stundað á þeim tímum þegar eftir mestu er að slægjast, geti stefnt áætlunarflugleiðunum í hættu. Þetta eru engin ný sannindi vegna þess að þessi regla þykir sjálfsögð um sérleyfisrekstur á landi. Þessari reglu er fylgt þar. Þar er reynt að koma í veg fyrir að uppgangstíminn í rekstri áætlunarleiða á landi sé þannig nýttur að hætta sé á að atvinnurekstur þeirra, sem hafa einungis áhuga á því að koma inn á þann markað þegar mest er að gera, geti stefnt áætlunarleiðum í hættu. Hvers vegna geta menn, sem telja þetta vera sjálfsagt í sambandi við rekstur sérleyfa á landi, ekki skilið sömu einföldu staðreyndir varðandi rekstur áætlunarferða í lofti?

Ég veit ekki til þess, að menn hafi hingað til hér á Alþingi gert athugasemdir við ítrekaðar ályktanir félaga eins og t.d. Flugvirkjafélags Íslands og ítrekaðar samþykktir Alþýðusambands Íslands um að stefna skuli að því, að allt viðhald íslenska flugflotans færist inn í landið. Menn hlaupa hér upp í ræðustól til þess að gera grein að þessari stefnumörkun í þáltill. Alþfl.-manna. Menn hafa ekki gert grín að því, þegar Flugvirkjafélagið og Alþýðusambandið hafa verið að gera slíkar samþykktir. Hingað til hefur Alþb. talað flokka mest um íslenska atvinnustefnu. Er það ekki íslensk atvinnustefna og mikilvægur þáttur í henni að reyna að sjá svo til, að allt viðhald íslenska flugvélaflotans flytjist inn í landið? Það er ekkert gamanmál, ekki heldur fyrir þá íslensku flugvirkja sem eiga heimili sín og fjölskyldur hér á Íslandi, að þurfa að eyða miklum hluta af starfstíma sinum í sambandi við viðhald flugvéla á erlendum stöðum, vera kannske mikinn part úr ári fjarri fjölskyldum sínum og heimilum til þess að annast viðhald á íslenskum flugvélum. Það er ekkert gamanmál fyrir þessa menn. Það er ósköp skiljanlegt að áhugi sé bæði hjá þeim og samtökum launafólks almennt að reynt sé að marka þá stefnu, að þetta viðhald flytjist inn í landið. Það er hreint ekkert aðhlátursefni að tilraun skuli vera gerð til þess að fá Alþingi til að marka slíka stefnu — síður en svo.

Þá vil ég aðeins minna á í sambandi við 6. tölul., að nú upp á síðkastið hefur flugmálastjóri komið fram á vettvang fjölmargra dagblaða til þess að lýsa yfir að fjárveitingar til flugmála eigi engan stuðning meðal fjárveitingavaldsins, fjárveitingavaldið vilji ekkert og hafi ekkert viljað gera til þess að sjá flugþjónustu á Íslandi, flugvöllum og öðrum tækjum og aðbúnaði flugsins fyrir nægilegum fjárveitingum. Í 6. tölul. er lagt til að stefna verði mörkuð af Alþingi og fjárveitingavaldinu í þeim málum. Ég sé ekki hvað menn geta dregið úr mikilvægi þess eða hvaða grín menn geta gert að slíkum tillöguflutningi.

Það væri hægt að halda áfram að rekja einstök slík dæmi um þá stefnu, sem í þessari þáltill. felst, miklu lengur en ég hef hér gert. Ég tel það ástæðulaust. En hitt er alveg ljóst, að ýmislegt, sem ég hef hér nefnt, eru atriði sem eru tekin beint frá þeim aðilum, flugmálastjóra, flugvirkjum og öðrum þeim sem nálægt flugrekstri koma. Þarna eru ýmis atriði, sem þessir aðilar hafa óskað eftir að stefna yrði mörkuð um, en Alþingi og ríkisvald hafa ekki treyst sér til, a.m.k. ekki hingað til, að taka neinar bindandi ákvarðanir um. Það er einnig rétt að það komi fram, að það er eitt af meginatriðum í þessari till. til þál. að reyna að fá Alþingi til að staðfesta á ný þá stefnumörkun sem m.a. Halldór E. Sigurðsson fyrrv. samgrh. fylgdi í flugmálum, en hæstv. núv. samgrh. hefur snúið frá.

Varðandi 2. tölul. sérstaklega vil ég aðeins segja þetta: Fyrir nokkrum árum, að mig minnir 1976 frekar en 1977, bauð flugmálastjóri fjvn. í sérstaka skoðunarferð til Noregs til þess að kynna sér skipulag flugmála og rekstur flugsamgangna í Norður-Noregi. Hann hafði um margra ára skeið farið þess á leit við fjvn., að hún færi til Noregs til að kynna sér einmitt þessi mál, vegna þess að það var álit flugmálastjóra að einmitt það fyrirkomulag, sem ríkti í flugsamgöngum í Norður-Noregi, mundi henta okkur Íslendingum ákaflega vel. Ég átti sæti í fjvn., þegar þessi ferð var farin, og átti þess kost að sjá og kynna mér það skipulag sem ríkti í flugsamgöngum í Norður-Noregi. Ég vil aðeins taka það fram, að skipulagið, sem okkur var kynnt þar á fluginu í Norður-Noregi og flugmálastjóri taldi að hentaði ákaflega vel flugmálum á Íslandi, er skipulagið sem tillaga er gerð um í 2. tölul. þessarar till. til þál. að Alþingi marki.

Skipulagið á flugrekstrarmálum í Norður-Noregi er nákvæmlega það sem þar er gert ráð fyrir að Alþingi marki. Sérstakt flugfélag, sem heitir Widerö, sér um flugsamgöngur milli aðalflugleiðanna annars vegar og smærri flugvallanna hins vegar. Það er samgrn. sem býður þann flugrekstur út og þetta flugfélag, Widerö, þarf á hverju einasta ári að leggja fram til samgrn. skýrslur um hvernig félaginu hefur gengið að standast þær áætlanir sem því er gert að fylgja til þess að hægt sé að treysta á að umrætt flugfélag geti flutt farþega frá hinum dreifðu byggðum í Norður-Noregi til aðalflugleiðanna á tilsettum tíma. Það eru ákveðnar reglur meira að segja í Norður-Noregi um að ef umtalsverð frávik eru frá þeim áætlunum, sem flugfélaginu er ætlað að starfa eftir, varði það leyfismissi hjá flugfélaginu. Flugleiðir þess eru þá boðnar út á nýjan leik og öllum flugfélögum og flugrekstraraðilum gefinn kostur á að sækja um þau leyfi. Þetta tryggir það m.a., að fólk úr dreifðustu byggðum Norður-Noregs á mjög greiða leið á höfuðborgarsvæðið, miklu greiðari leið en var áður en þetta skipulagvar tekið upp.

Það er alveg fráleitt að ekki sé hægt að fylgja slíku skipulagi hér á Íslandi. T.d. ætti hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni ekki að koma neitt á óvart að nokkur hluti rekstrar flugfélagsins Arna á Ísafirði er einmitt sniðinn við þetta. Þeir fljúga póstflug á milli staðanna á Vestfjörðum, og það miðast einmitt við komu og brottfarartíma flugvélanna sem ganga frá Reykjavík til Vestfjarða: Patreksfjarðar, Þingeyrar, Bíldudals og Ísafjarðar. Áætlanir þessa litla vestfirska flugfélags eru miðaðar við að það geti flutt póst og farþega frá þessum aðallendingarhöfnum Flugleiða og Arnarflugs til hinna minni staða á Vestfjörðum án þess að um verulega bið sé að ræða fyrir farþega. Þetta tryggir samgöngurnar frá hinum dreifðustu byggðum Vestfjarða við t.d. Reykjavíkurflugvöll miklu betur en þó einhvern tíma í framtíðinni væri von til þess, að Flugleiðir flygju á þessa litlu staði svo sem einu sinni í viku.

Það, sem hefur komið upp á hjá okkur Vestfirðingum og fleirum í sambandi við flugmálin, er því miður að það hefur oft gerst, að um leið og t.d. flugsamgöngur við Reykjavíkursvæðið batna, þá versna mjög allar samgöngur innanhéraðs, vegna þess að samgöngurnar innanhéraðs hafa oft verið byggðar á því, að fólkið úr hinum smærri byggðum eigi greiða leið á aðalflugvellina í kjördæminu. Þegar hinar smærri byggðir fá síðan beinar flugsamgöngur við Reykjavík, kannske einu sinni eða tvisvar í viku, þá falla innanhéraðssamgöngurnar niður. Og það hefur orðið til þess og var þannig fyrir tilkomu flugfélagsins Arna, að það var orðið erfiðara að komast á milli fjarða á Vestfjörðum en að komast frá einhverjum þessara fjarða til Reykjavíkur. Slíkt samgönguleysi háir að sjálfsögðu uppbyggingu þessara byggða sem verða að byggja mjög mikið á þjónustu hver við aðra, vegna þess að menn geta einfaldlega ekki sótt allt sitt til Reykjavíkur. Það var á tímabili t.d. miklu meira vandamál — og er það raunar enn — að komast frá Ísafirði til Suðureyrar í Súgandafirði, sem ekki er þó yfir sumartímann lengri keyrsla en 25–30 mínútur, en að komast frá öðrum hvorum þessara staða til Reykjavíkur. Það er þetta vandamál sem lagt er til í tölul. 2 að leyst verði með því að koma upp neti flugsamgangna þar sem innanhéraðsflugið geti tengst með góðu móti aðalflugleiðunum til höfuðborgarinnar þannig að fólkið í mesta dreifbýlinu eigi ekki bara kost á því einu sinni í viku — eða jafnvel aldrei nema kannske einhvern tíma í fjarlægri framtíð — að komast á höfuðborgarsvæðið, heldur geti nýtt þetta samgöngunet til þess að eiga mjög greiða leið bæði innanhéraðs, milli fjarða og enn fremur til annarra landshluta.

Ég vil enn taka það fram, að þetta er sú stefna sem mörkuð er í flugsamgöngum í Norður-Noregi og mér og fleiri þáv. fjvn.-mönnum var kynnt í ferð fjvn. til Norður-Noregs, að mig minnir á árinu 1977. Þetta er sú stefna sem núv. flugmálastjóri taldi nauðsynlegt að marka hér á landi. Og þetta er enn fremur sú stefna sem lagt er til í 2. tölul. umræddrar þáltill. hv. þm. Árna Gunnarssonar og annarra Alþfl.-þm. að mörkuð verði. Mér finnst fráleitt ef hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson heldur að með því að flytja slíka stefnu fram muni Alþfl. tapa svo og svo miklu atkvæðamagni úti á landi. Ég held þvert á móti að með því að reyna að tengja saman innanhéraðsleiðirnar og aðalflugleiðirnar með þessu móti sé verið að gefa íbúum mesta dreifbýlisins kost á miklu greiðari samgöngum bæði innanhéraðs og við aðra landshluta en nú á sér stað.

Það er ekki aðeins, herra forseti, að menn séu að reyna að gera þetta í flugsamgöngum í lofti. Þetta er einnig sú stefna sem t.d. ráðamenn Skipaútgerðar ríkisins og samgrn. telja réttasta í sambandi við flutninga Skipaútgerðar ríkisins út á land. Það er alkunna að tillögur forstjóra Skipaútgerðar ríkisins — og ég veit ekki betur en þær séu fluttar með samþykki samgrn. — eru að ferðir Skipaútgerðar ríkisins skuli skipuleggja þannig að notaðar verði fáar aðaluppskipunarhafnir úti á landi, en svo sjái aðrir aðilar í fjórðungunum eða landshlutunum um að taka við vörunum frá Skipaútgerð ríkisins á þessum aðaluppskipunar höfnum og koma þeim á leiðarenda í hinum smærri byggðarlögum, hinum dreifðari byggðum í viðkomandi landshlutum. Með þessu móti telur Skipaútgerð ríkisins sig geta tryggt miklu örari og betri samgöngur á sjó við hinar dreifðu byggðir landsins heldur en með því að þræða hverja einustu vík á allri strandlengjunni eins og gert var áður fyrr. Það finnst engum þetta fráleitt og síst hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, eftir því sem ég best þekki hans skoðanir. Ég veit ekki til að hann leggist gegn þessum tillögum forstjóra Skipaútgerðar ríkisins sem margoft hafa verið kynntar okkur Vestfirðingum. Ég veit ekki heldur til að hæstv. samgrh. hafi neitt við þessa stefnu að athuga. En það er nákvæmlega hliðstæð stefna sem mörkuð er í þessari till. til þál. varðandi flugsamgöngur í lofti, og hún á eins vel við um þær samgöngur og um samgöngur á sjó. Vísa ég því enn til umræddra tillagna forstjóra Skipaútgerðar ríkisins