19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3898 í B-deild Alþingistíðinda. (3374)

283. mál, grunnskólar

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 615 ásamt fjórum öðrum hv. þm. mál er snertir löggjöf um grunnskóla. Um þetta mál þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð umfram það sem segir í fremur stuttri grg. með frv. Efni þess er einfaldlega það, að bætt verði inn í gildandi grunnskólalög ákvæði um fræðslu varðandi ávana- og fíkniefni, þ. á m. áfengi að sjálfsögðu. Ákvæði þar að lútandi er hvergi að finna í núgildandi grunnskólalögum, svo undarlegt sem það er, en skólunum er engu að síður gert að inna af hendi þessa fræðslu samkv. ákvæðum í áfengislögum frá 1969 og reglugerð um bindindisfræðslu frá 1956 samkv. 31. gr. í eldri áfengislögum frá 1 954. Í þeirri reglugerð er kveðið svo á, að eigi skuli verja minni tíma til bindindisfræðslu í hverjum skóla en sem svarar að hver nemandi fái tveggja kennslustunda fræðslu í hverjum mánuði á kennslutímanum.

Framkvæmd þessara laga og reglugerðarákvæða hefur hingað til verið algerlega í molum. Þeim hefur verið slælega eða alls ekki framfylgt, eins og tekið er fram í grg. Enginn fastur tími á stundaskrá hefur verið ætlaður til þessarar fræðslu. Hún hefur því fyrst og fremst verið í höndum hvers bekkjarkennara. Það hefur verið á valdi hans hvernig og hve miklum tíma er til hennar varið. Hér þarf að sjálfsögðu að taka af meiri festu á málum, og það er augljóst að þessi fræðsla má ekki lengur einskorðast við áfengi og tóbak. Hún verður einnig að ná til þeirra fíkniefna annarra sem til skamms tíma voru hér að mestu óþekkt fyrirbæri, en hafa nú náð hér uggvænlega mikilli útbreiðslu. Þar er fyrst og fremst átt við kannabisefni og þaðan af sterkari fíkniefni svo og ýmis önnur efni sem leyfð eru til lækninga en geta leitt til skaðvænlegrar ávananeyslu.

Í þessu frv. eru ekki tillögur um hvernig þessari fræðslu skuli háttað. Það er alls ekki á færi okkar flm. að freista þess að segja fyrir um það, svo mikið og vandasamt verk sem hér er annars vegar. Það er fullvíst að fræðsla um þessi viðkvæmu og vandasömu mál getur gert illt verra ef ekki er rétt á haldið. Við höfum fyrir okkur reynslu annarra þjóða í þeim efnum. Þarna er vissulega margt sem ber að varast. En ég hygg að ótti við slík mistök megi ekki leiða okkur til uppgjafar í þessum efnum. Til þess er málið allt of alvarlegt og brýnt, sérstaklega að því er varðar börn og unglinga sem ánetjast stöðugt yngri og yngri þeim skaðvaldi sem áfengi og fíkniefni eru. Sú reynsla, sem við höfum af þessu, nær sannarlega langt út fyrir Hallærisplanið hér í Reykjavík, þótt það hafi verið hvað mest í sviðsljósinu að því er þessi mál varðar. Úti um allt land er sömu sögu að segja.

Alllengi hefur verið unnið að undirbúningi skipulagðrar fræðslu í skólum landsins á þessu sviði. Áfengisvarnaráð, samtök kennara, Krabbameinsfélagið í samvinnu við Skólarannsóknir menntmrn. hafa unnið að því að undirbúa og semja kennsluefni og leiðbeiningar fyrir kennara. Að sjálfsögðu eru það Skólarannsóknir ríkisins sem þetta verkefni hlýtur að verða tekið fyrir h já fyrst og fremst. Það hefur verið fylgst með rannsóknum og reynslu annarra þjóða á þessu sviði, og því er ekki að neita, að ýmsar nýjar hugmyndir eru nú á döfinni sem vænlegri þykja til árangurs heldur en þær sem hingað til hefur verið beitt, þar sem slík fræðsla hefur á annað borð verið reynd í skólunum. Megináhersla er nú lögð á að reyna að byggja upp nemandann sjálfan, örva hjá honum sjálfstæða skoðanamyndun gagnvart hóphugsun og tískuvaldi, höfða til dómgreindar og ábyrgðar fremur en láta fræðsluna snúast fyrst og fremst um efnin sjálf og skaðsemi þeirra. Setningar eins og „taktu aldrei fyrsta staupið“, „það er skaðlegt að gera þetta“ og „þú mátt ekki gera hitt“, svo satt og rétt sem þetta er, þá eru það ekki þessar aðferðir sem reynst hafa heilladrjúgar til árangurs í þessu efni, heldur að koma óbeina leið að efninu með því að gera sjálfan einstaklinginn færari um að dæma fyrir sjálfan sig, fara eigin leiðir hvað sem hópurinn, þetta sterka afl, hefur að segja í kringum hann.

Gert er ráð fyrir að þessi fræðsla verði feld inn í aðrar námsgreinar. Þetta er mikilvægt atriði. Helst er þá talað um líffræði og samfélagsfræði og jafnvel fleiri greinar og að þessi fræðsla komi þá sem eðlilegur hluti þeirrar kennslu sem hér fer fram. Hér er vafalaust um að ræða, eins og þegar hefur verið bent á, mikið vandaverk. Það er viðurhlutamikið að hér takist vel til. Ég er sannfærð um að lögfesting þess ákvæðis, sem í frv. felst í grunnskólalögunum, þar sem það auðvitað á heima en ekki í einhverjum öðrum lögum, — ég er viss um að þetta ákvæði mundi verka sem hvatning á þá aðila, sem sinna fræðslu- og skólamálum, að koma þessum fræðsluþætti í sem heillavænlegastan farveg og framkvæmd í skólakerfinu og það sem fyrst.

Þá vil ég einnig undirstrika það sem drepið er á í grg. frv., að mjög mikilvægt er að starfandi kennarar og kennaraefni í Kennaraháskóla Íslands fái sem haldbestar leiðbeiningar um hvernig miðla skuli fræðslunni til nemenda. Einnig á þessu sviði veit ég til að gerðar hafa verið tilraunir í rétta átt með námskeiðum fyrir kennara og fræðslu í Kennaraháskólanum, en þetta þarf allt að verða skipulegra og markvissara en hingað til hefur verið.

Ég geri varla ráð fyrir, vegna þess hve stutt lifir þessa þings, að þetta mál nái fram að ganga. En þing kemur eftir þetta þing og þá vænti ég að þetta verði tekið upp aftur og það fái skjóta og góða afgreiðslu. Raunar má segja að stærri og vafasamari mál hafi fengið afgreiðslu á skemmri tíma en við eigum nú eftir af starfstíma þingsins, sem mun vera um 10 dagar til hálfur mánuður. Ég vil þess vegna ekki útiloka, ef vel er unnið að þessu í nefndum, að hægt yrði að ná því fram. En til þess þarf góðan vilja þm. Ég á ekki von á að um þetta mál sé nokkur ágreiningur á Alþingi.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.