19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3955 í B-deild Alþingistíðinda. (3463)

216. mál, ábúðarlög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. sem hér fara fram. Það er rétt sem fram hefur komið, að í grg. þess frv., sem hér er á dagskrá, svo og fylgifrv. þess um breytingu á jarðalögum, er ekki nákvæmlega greint frá tilefni þess, að þessi frv. eru flutt. Það var hins vegar gert þegar ég mælti fyrir þessum frumvörpum, eins og fram hefur raunar komið að nokkru.

Ég gat þess þá, að það hefði verið nokkrum erfiðleikum bundið að ná samkomulagi um þá leið sem hér er lagt til að farin verði. Það tókst þó á milli þeirra aðila sem unnu að því að sem ja þetta frv., og ég lýsti því við 1. umr. þessa máls, að ég væri mjög ánægður yfir að það hefði tekist og þar með liti út fyrir að unnt yrði að verða við því fyrirheiti ríkisstj. sem hér hefur verið dregið fram.

Ég tel að í málum eins og þessum, sem ekki eru í sjálfu sér nein stórmál, en geta þó verið nokkuð viðkvæm, sé afar mikilvægt að lenda ekki í því að þurfa að efna til ófriðar. Ég óttast það, að ef frv. verður breytt svo sem hér er lagt til, þannig að valdsvið jarðanefnda í þessum efnum verði víkkað út svo að það verði mjög óskilgreint, þá muni spretta af því nokkur órói sem betra væri að vera laus við. Ég tel hins vegar að það gæti komið til greina og muni koma til greina alveg á næstunni að taka til nánari endurskoðunar byggingarskyldu á jörðum yfirleitt og þá um leið hverjir eigi að fara með það vald að ákveða hvort jarðir yfirleitt skuli undanþegnar byggingarskyldu. Ef að því væri horfið að gera frekari takmarkanir á landbúnaðarframleiðslu en þegar er orðið, þá kynni að þurfa að grípa til einhverra slíkra ráða. En um öll slík efni þyrfti að nást víðtækt samkomulag, og ég tel vafasamt að hrapa að því að litt athuguðu máli. Það er um mjög viðkvæm mál að ræða, — mál sem snerta a.m.k. sum byggðarlög, þannig að það er ekki sama hvernig á er haldið.

Ég ætla ekki að skera úr í þessu máli á annan hátt en hér hefur komið fram, að ég styð frv. eins og það liggur fyrir óbreytt, eins og meiri hl. landbn. leggur nú til að það verði afgreitt. Sömu sögu er að segja varðandi það frv. sem hér fylgir á eftir, þ.e. frv. til l. um breytingu á jarðalögum á þskj. 380.