20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ef ég má í örstuttu máli svara hv. þm. Friðrik Sophussyni, þá get ég reyndar vísað í það sem hv. þm. Árni Gunnarsson las upp áðan um þá stefnu sem ég vil marka í þeim málum. Ég sagði í þeirri umr. sem hv. þm. Friðrik Sophusson vísar til, að ég gæti lagt fram upplýsingar um þá stefnu sem ég vil hafa í flugmálum, en ég sagði jafnframt að ég teldi miklu æskilegra að reyna að ná samkomulagi við flugfélögin um það fyrirkomulag sem ætti að gilda. Að því hefur verið unnið, eins og ég hef margsinnis lýst. Ég hef aldrei lýst yfir að ég mundi leggja fram till. til þál. um flugmálastefnu. Í framhaldi af þeirri ákvörðun Alþingis, sem Alþingi tók a.m.k. óbeint í gegnum nál. fyrir tveimur árum, var ákveðið að hér gætu eða skyldu starfa tvö flugfélög í alþjóðlegu flugi. Að athuguðu því máli og þeim starfsgrundvelli, sem þarf að vera til að slík flugfélög gætu starfað, tel ég skiptingu á áætlunarleiðum, eins og nú er stefnt að, þ.e. að Flugleiðir haldi öllum meginleiðum, öllum mikilvægustu áætlunarleiðum, en Arnarflug fái að fljúga á Amsterdam, Düsseldorf og Zürich og skipta að nokkru leyti, mjög takmörkuðu leyti, leiguflugleiðum, eins og reyndar hefur verið gert að töluverðu leyti undanfarin ár, sé lagður grundvöllur að skynsamlegri stefnu í þessum málum sem bæði flugfélögin geti búið við. Að þessu hefur verið unnið ásamt ýmsu öðru samkomulagi með flugfélögum, t.d. um viðhald og um nýtingu á flugfélögum. Um þetta hefur allt verið rætt á þeim fundum sem fram hafa farið. Um þetta gæti ég lagt fram till. til þál. ef ég kysi. Ég sé þó ekki ástæðu til þess.

Ég vil síðan, út af því sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði, taka fram að ég hefði ekki talið skynsamlegt að þrjú íslensk flugfélög flygju til Amsterdam. Þess vegna hikaði ég við að veita Amsterdamleyfið á meðan tvö flugfélög höfðu leyfi til slík s flugs. Hins vegar, eins og ég sagði einnig áður, hét ég Arnarflugsmönnum því, að þeir fengju leyfi til að fljúga til Þýskalands og Zürich. Í því sambandi verða menn að minnast þess, að þeir sóttu um leyfi til að fljúga til Frankfurt, sem reyndar fékk nokkurn stuðning í flugráði. En eftir viðræður við Flugleiðir, sem lögðu mikla áherslu á að Arnarflug flygi ekki til Frankfurt, ákvað ég að verða við þeim tilmælum Flugleiða að veita því ekki leyfi til Frankfurt. Þarna er sem sagt verið að leita samkomulags um grundvöll sem Arnarflug gæti byggt á, og að því er reyndar enn verið að vinna og vona ég að það verði leitt til lykta mjög fljótlega.