21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

221. mál, búnaðarmálasjóður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um búnaðarmálasjóð er fylgifrv. með frv. til laga um breytingu á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins sem lagt hefur verið fyrir þessa hv. deild. Frv. hefur hlotið afgreiðslu hv. Nd. með smávægilegum breytingum. Frv. er samið af nefnd sem skipuð var með bréfi, dags. 30. júní 1980. Fékk nefndin það hlutverk að endurskoða lagaákvæði um sjóðagjöld landbúnaðarins.

Nefndina skipuðu þeir Gunnar Guðbjartsson þáv. formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Andrésson bóndi, Gunnar Jóhannsson bóndi, Stefán Pálsson forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Guðmundur Sigþórsson deildarstjóri í landbrn. og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar.

Gildandi lög um búnaðarmálasjóð eru frá 15. febr. 1945. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að gera nokkrar breytingar á lögunum vegna þess að einstök atriði þeirra væru úrelt orðin vegna breytinga á viðskipta- og framleiðsluháttum í landbúnaði, enn fremur hafa komið til nýjar búgreinar, sem ekki voru stundaðar þegar gildandi lög voru sett.

Lög um búnaðarmálasjóð ákvarða gjaldstofn við álagningu á gjöldum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Lífeyrissjóðs Bænda og til Bjargráðasjóðs, auk búnaðarmálasjóðs, svo sem fram kemur í lögunum.

Í 2. gr. þessa frv. kemur fram nokkur breyting á gjaldstofni og gjaldtöku til búnaðarmálasjóðs. Þar er gert ráð fyrir að vöru- og leigusala í landbúnaði skiptist í tvo gjaldflokka til þessa sjóðs, og er gert ráð fyrir samkv. frv. að greiða 0.25% gjald til búnaðarmálasjóðs af alifugla- og svínarækt, fiskeldi, fiskrækt, veiðileigu og leigu á landi til annarra nota en búrekstrar. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að af afurðum annarra búgreina en hér hafa verið nefndar skuli greiða 0.50% gjald, þ.e. af nautgripaafurðum, sauðfjárafurðum, garð- og gróðurhúsaafurðum, loðdýraafurðum og afurðum hrossa. Enn fremur gerði frv. ráð fyrir að þessi prósenta væri greidd af sölu lífgripa, skógarafurðum, hlunnindum o.fl., en breyting hv. Nd. er í því fólgin, að með reglugerð skuli ákveða, eftir því sem ástæða þykir til, gjald til búnaðarmálasjóðs af þessum greinum.

Önnur atriði, sem fram koma og breytt eru í þessu frv., eru nánast til samræmis við nýja verslunarhætti og búskaparhætti. Þar er einnig kveðið nánar á um innheimtufyrirkomulag og hvaða aðilar séu gjaldskyldir til sjóðsins.

Frv. er lítið að vöxtum og ekki flókið. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um það lengri framsögu. Ég vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að afgreiða þetta mál á þeim dögum sem eftir lifa þessa Alþingis.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.