21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (3619)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal hafa þetta fá orð.

Þegar rætt er um ríkisskattana og skattagleði er náttúrlega ekki nóg að ræða aðeins um tekjurnar, skattana. Það verður líka að ræða um útgjöldin. (GeirH: Og lántökur.) Að sjálfsögðu. Nú háttar þannig til að ríkissjóður hefur nærri því greitt upp allar sínar skuldir við Seðlabankann. Það kom einmitt fram í ræðu aðalbankastjóra Seðlabankans í dag á aðalfundi Seðlabankans að ríkissjóður hefur nærri því greitt upp allar skuldir við Seðlabankann. 1975 var skattahlutfallið sennilega sæmilegt, ég man nú ekki hvað það var, en það voru útgjöldin, sem ég var að benda á í ræðu minni áðan, sem námu á milli 31 og 32% árið 1975. Það er kannske besti mælikvarðinn á skattlagninguna vegna þess að það er hægt að hafa skattabyrðina lága, 25%, 26% eða hvað það nú er, með því að safna skuldum í Seðlabankanum. Þess vegna vil ég mótmæla því, sem hefur komið fram hjá hv. 1. þm. Reykv.. að um sé að ræða einhverja sérstaka skattagleði hjá Framsfl. Þegar þessi mál eru skoðuð og athugað er hvernig háttað hefur verið skattlagningarprósentunni,. þ.e. skattahæðinni, miðað við þjóðartekjurnar, þá kemur í ljós að þetta er sitt á hvað og Sjálfstfl. hefur ekkert skorið sig úr í þessum efnum umfram aðra flokka. Það er hægt að sjá.

Hitt er annað mál, að ég get endurtekið það sem ég hef oft sagt áður um skattamál, að auðvitað þarf að leggja á talsverða skatta í landinu ef menn ætla að halda uppi eðlilegu velferðarþjóðfélagi. Ég skal ekki leggja dóm á hvað hæfilegt er í þeim efnum. Ég hef talið að það mundi vera í kringum 27–29% eftir atvikum. Ég tel að það verði ekki talin nein skattagleði og alls ekki ef þetta er t.d. borið saman við ýmis önnur þjóðlönd, t.d. Norðurlöndin — ég tala nú ekki um það — þar sem skattar eru hærri en á Íslandi.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en vildi aðeins láta koma fram nokkur orð um hvernig þessum málum hefur verið skipað í reyndinni.