05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 er nú lögð fram í kjölfar þjóðhagsáætlunar og frv. til fjárlaga. Markmið fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar er að reyna að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peninga- og lánamála samrýmist efnahagslegum markmiðum. Þess vegna er mikilvægt að samtímis sé unnið að allri þessari áætlunargerð, þjóðhagsáætlun, fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, í því skyni að gætt verði heildarsamræmis við mótun efnahagsstefnu. Áður hefur nokkur misbrestur verið hér á, þar sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hefur að jafnaði verið síðbúnari en önnur áætlunargerð og jafnvel ekki afgreidd fyrr en nokkuð hefur verið liðið á gildisárið. Að þessu sinni hefur lánsfjáráætlun hins vegar verið lögð fram um svipað leyti og þjóðhagsáætlun og fjárlagafrv. Með þessu hafa forsendur almennrar hagstjórnar verið bættar að mun.

Þessi tímasetning hefur jafnframt í för með sér að umr. um alla meginþætti efnahagsstefnunnar fer fram á sama tíma. Það auðveldar heildaryfirsýn yfir flókin og viðamikinn málaflokk eins og efnahagsmálin eru. Þegar hefur verið fjallað talsvert um efnahagsatriði lánsfjáráætlunar í stefnuræðu 22. okt. og í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. í fyrradag. Því er þarflaust að endurtaka þá umr. Hér verður látið nægja að gera grein fyrir efnisskipun og viðfangsefnum áætlunarinnar í stórum dráttum.

Í inngangi lánsfjáráætlunar er gerð grein fyrir undirbúningi og þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar áætluninni. Í II. kafla er fjallað um þjóðhagsleg markmið og þjóðhagshorfur, gerð í stuttu máli grein fyrir helstu markmiðum og viðfangsefnum í efnahagsmálum. Þessi kafli yrði því í raun samandregin lýsing á þeim viðfangsefnum, sem lýst er í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 sem þegar hefur verið lögð fram.

Í III. kafla er gerð grein fyrir heildarfjárfestingu og skiptingu hennar og stærstu málaflokka. Þróun fjárfestingar á þessu ári og horfum á því næsta er þar lýst í meginatriðum. Sérstaklega er fjallað um fjárfestingu atvinnuveganna, íbúðabygginga og opinberra framkvæmda. Enn fremur er þar að finna lýsingu á atvinnuhorfum með hliðsjón af áformum um framkvæmdir á næstu árum.

Í IV. kafla er gerð grein fyrir fjármögnun fjárfestingar eftir leiðum lánsfjármarkaðarins og tengd saman þau áform sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun felur í sér um þá tvo meginþætti sem hún dregur nafn af. Einkum er lánsfjármögnun gerð að umtalsefni. Um aðra fjármögnun er minna rætt, m. a. vegna erfiðleika á að draga upp heildarmynd af allri fjármögnun, sérstaklega af eigin fé, enda ekki fyrir hendi marktæki yfirlit um liðinn tíma til samanburðar. Kaflinn fjallar bæði um opinbera öflun lánsfjár og ráðstöfun þess á lánsfjáráætlun og jafnframt almennt um lánsfé til fjármunamyndunar.

Nánari grg. fyrir opinberum framkvæmdum á lánsfjáráætlun eru viðfangsefni V. kaflans. Í þessu skyni er yfirlit yfir einstakar framkvæmdir opinberra aðila sem ráðgert er að afla lánsfjár til samkv. þessari áætlun.

Um fjárfestingarlánasjóði er fjallað í VI. kafla. Lánsfjáráætlun nær til 16 slíkra sjóða. Þar af eru 13 sem lánsfjár er aflað til samkv. þessari áætlun. Hér er um sömu sjóði að ræða og í lánsfjáráætlun fyrri ára. Fjárfestingarlánasjóðum er í áætluninni skipt í tvo aðalflokka: íbúðalánasjóði og atvinnuvegasjóði.

Í VII. kafla er gerð grein fyrir áætlun um þróun helstu stærða peningamála á árinu 1982. Þessi áætlun um peningamál er reist á þeim markmiðum, að verðbólga fari lækkandi og jöfnuður verði á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd.

Lokakaflinn, VIII kafli, fjallar um erlend lán og greiðslujöfnuð. Í töfluviðauka er síðan að finna nánari talnalega útfærslu á því efni sem tekið er fyrir í áætluninni.

Það er ekki ástæða að þessu sinni til að fjalla ítarlegar um efnisatriði í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Það hefur þegar verið gert varðandi flesta þætti hennar og frekari tækifæri gefast á næstunni. Læt ég því þessi orð nægja.