23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3704)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það skulu aðeins vera örfá orð vegna þeirra orða sem hv. 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, lét falla hér áðan.

Ég held að það sé í fyrsta lagi nokkur misskilningur, að nm. í menntmn. hafi hvorki lesið né þaðan af síður skilið það frv. sem hér er um að ræða.

Að því er þessa brtt. varðar segir í frv., eins og það kemur frá Ed., að ráðið skuli í minnst 65 stöðugildi. Ástæðan til þessa kemur mjög glögglega fram í athugasemdum við 6. gr. frv., eins og það upphaflega var lagt fram af hæstv. menntmrh. í haust. Viðmiðunartalan 65 er sú lágmarkstala sem þarf að vera í sinfóníuhljómsveit til þess að hún geti tekist á við venjuleg og meiri háttar sinfónísk verkefni. Hins vegar er hér auðvitað ekki um að ræða að það séu ótakmarkaðar heimildir til fjölgunar, að þetta sé galopið upp á við, eins og hv. þm. virtist halda. Það er á misskilningi byggt vegna þess að ef um fleiri stöður er að ræða er auðvitað farið með það eins og með störf annarra opinberra starfsmanna. Það fer undir ráðningarnefnd og það er háð fjárveitingavaldi. Það er því misskilningur hjá hv. þm. að þetta sé galopið upp á við, eins og hann virtist halda. Um það fer eins og önnur slík störf, og af þeim ástæðum tel ég a.m.k, að þessi brtt. sé ástæðulaus.

Að því er fyrri brtt. varðar er út af fyrir sig alveg rétt að hún er tekin upp óbreytt eins og stóð í frv. sem hæstv. ráðh. lagði fram í haust, en þó að hann sé góður og gildur maður að öðru leyti er kannske ekki ástæða til að taka það alvarlega svo bókstaflega að menn telji skynsamlegt að stefna að þessu marki, en stefna ekki að hærra marki. Þessi varð niðurstaða hv. Ed. og á þá niðurstöðu má fallast.

Ég tel, aðallega að því er varðar þá brtt. sem hv. þm. fjallaði um og er við 6. gr. frv., að hann byggi á þeim misskilningi að halda að þetta sé galopið og að hljómsveitin geti farið upp í töluna 165 án þess að nokkur hafi eftirlit með því. Það er mikill misskilningur. Hafi það vakað fyrir flm. till. hygg ég að hún sé á nokkrum misskilningi byggð.