23.04.1982
Neðri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

271. mál, útvarpsrekstur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 583 hef ég ásamt þeim hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, Pétri Sigurðssyni, Albert Guðmundssyni og Halldóri Blöndal leyft mér að flytja frv. til l. um útvarpsrekstur. Aðalatriði þessa frv. eru þau:

1. Afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins.

2. Að sett verði á stofn svokallað útvarpsráð, sem skuli úthluta leyfum að uppfylltum tilteknum skilyrðum til útvarpsrekstrar.

3. Sveitarstjórnum verði gefið vald til að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að reka útvarpsstöð í sveitarfélaginu.

Með þessu frv. eru tvö fskj. Í fyrsta lagi er fylgiskjal I, þar sem farið er nokkrum orðum um tilhögun útvarpsmála í nokkrum löndum og þar stuðst við upplýsingar sem komið hafa fram í Noregi, þar sem miklar umræður hafa farið fram um þessi mál og talsvert róttækar breytingar verið gerðar á útvarpsrekstri. Í öðru lagi er fylgiskjal II, um svokallað lágaflssjónvarp á Íslandi, en hér er um að ræða frumathugun sem viðskiptafræðingarnir Sigurjón Sighvatsson og Vilhjálmur Egilsson unnu að og luku í desember á s.l. ári. Á bls. 13 er fjárfestingaráætlun og rekstraráætlun fyrir hugsanlegt fyrirtæki sem tæki að sér útsendingar. — Ég vil leiðrétta villu sem er að finna í þskj. á bls. 13, en þar kemur í ljós í neðstu línu í rekstraráætluninni að það vantar sviga utan um 1 millj. 999 þús. nýkr., en sá svigi hefur mjög mikla þýðingu því hann gefur til kynna að tap sé á rekstrinum, en ekki hagnaður, eins og sýnist í þskj. sjálfu. Þetta vildi ég að fram kæmi og er mikilvæg leiðrétting á þskj.

Ég mun, herra forseti, rekja í stuttu máli almenna þróun breytingartillagna á útvarpsrekstri, þá fjalla um einstakar greinar frv., rekja nokkur mót- og meðrök, sem koma fram í umr. um þessi mál, og minnast á fyrirkomulag í nokkrum löndum.

Gífurleg tækniþróun og framfarir hafa orðið í útvarpsmálum að undanförnu og þessar framfarir hafa knúið menn hér á landi til að endurmeta afstöðu sína til útvarpsrekstrar. Hver og einn sem hefur sæmilegt viðtæki getur, ef honum sýnist svo, hlustað á erlendar útvarpsstöðvar þannig að þótt um einkarétt Ríkisútvarpsins sé að ræða nær hann aðeins til þess rekstrar sem stundaður er hér á landi. Myndsnældufrumskógurinn, sem hér hefur vaxið og sést að undanförnu, er talandi dæmi um afleiðingu þeirrar öru framþróunar, sem átt hefur sér stað á þessu sviði fjölmiðlunar, og sýnir best hvað gerist þegar ekki er brugðist við tækniþróun nútímans. Sem betur fer verður fleiri og fleiri mönnum ljóst að við svo búið má ekki standa. Það er ekki nóg að spyrna við fæti og finna þróuninni allt til foráttu. Þjóðfélagið verður að bregðast við með réttum hætti og finna farveg sem er eðlilegur í nútímaþjóðfélagi.

Fyrir nokkrum árum flutti Guðmundur H. Garðarsson lagafrv. á Alþingi til breytinga á útvarpslögum. Það frv. varð eigi útrætt, en í því komu fram ýmis ný viðhorf sem þá þóttu tíðindum sæta. Í frv. Guðmundar var gert ráð fyrir því m.a., að einkaréttur Ríkisútvarpsins félli niður. Frá þeim tíma sem Guðmundur flutti sitt frv. hefur margt gerst í þessum efnum. Þar á meðal flutti Ellert B. Schram fyrrv. alþm. frv. til l. um breyt. á útvarpslögum um staðbundinn útvarpsrekstur, og fyrr á þessu þingi fluttu hv. þm. Benedikt Gröndal og Árni Gunnarsson frv. um sama málefni sem hefur verið rætt hér á þinginu og sent til hv. menntmn.

Hæstv. menntmrh. skipaði á síðasta ári nefnd til að endurskoða útvarpslögin, svokallaða útvarpslaganefnd, og formaður hennar er Markús Á. Einarsson veðurfræðingur. Sú nefnd hefur haldið marga fundi og unnið af nokkru kappi og er gert ráð fyrir að hún skili tillögum sínum næsta haust.

Segja má að tilgangurinn með því lagafrv., sem hér er til umr., sé að leggja fram til umræðu hugmyndir sem fjölmargir einstaklingar í þjóðfélaginu hafa barist fyrir að undanförnu, enda eiga þau sjónarmið, sem koma fram í þessu frv., vaxandi fylgi að fagna. Í því sambandi má geta þess, að Sjálfstfl., stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, lýsti yfir eindregnum stuðningi við þau sjónarmið, sem koma fram í frv., á síðasta landsfundi flokksins, sem haldinn var s.l. haust.

Með því að leggja frv. fram á Alþingi fer málið væntanlega til hv. menntmn. og þaðan til umsagnar, þannig að útvarpslaganefnd getur tekið tillit til þeirra viðhorfa sem koma fram í frv. Hlýtur það að vera málinu til framdráttar þegar þess er gætt, að ýmsir forsvarsmenn félagasamtaka, sem áhuga hafa á frjálsum útvarpsrekstri, áttu hlut að máli við samningu þessa frv.

Það er óþarfi að fjölyrða um einstakar greinar frv., en þó sé ég ástæðu til að geta nokkurra helstu atriðanna sem birtast í frv.

Í 1. gr. frv. er skilgreint orðið útvarpsstöð og er þá stuðst við þá skilgreiningu sem notuð er í gildandi útvarpslögum. Það skal tekið fram í upphafi, að núverandi útvarpslögum er ætlað að halda gildi sinu þrátt fyrir að þetta frv. yrði samþykkt og gert að lögum, að vísu með lítils háttar orðalagsbreytingum, sem þó eru í raun miklar efnisbreytingar, eins og gerð er grein fyrir í 13. gr. frv.

Í 2. gr. er fjallað um svokallað útvarpsleyfisráð, sem ætlunin er að kosið verði til fjögurra ára í senn, en starfstímabil þess þurfi ekki að taka mið af alþingiskosningum, eins og gert er varðandi kosningar til útvarpsráðs. Útvarpsleyfisráð er ekki valdamikil stofnun. Því er fyrst og fremst ætlað að vera samræmingaraðili hlutaðeigandi stofnana og samtaka til að koma í veg fyrir að til árekstra komi. Útvarpsleyfisráð er hlutlaus aðili sem metur hæfni umsækjenda á hlutlægum grundvelli. Enn fremur er útvarpsleyfisráði ætlað að hafa eftirlit með því, að ákvæðum laganna sé framfylgt af þeim sem leyfi hafa til útvarpsrekstrar.

Hlutverki ráðsins er lýst í 3. gr. frv. og er óþarfi að rekja töluliði þeirrar greinar sérstaklega. Þess ber þó að geta, að í 2. tölul. er sagt að ráðið eigi að fylgjast með rekstri útvarpsstöðva ef ástæða þykir til að ætla að þær hlíti ekki í einu og öllu ákvæðum laga þessara. Með þessu orðalagi er átt við að ráðið geti hvort tveggja tekið til greina beinar kærur, sem berast til ráðsins, eða haft frumkvæði að því að taka á meintum brotum viðkomandi útvarpsstöðvar. Samkv. 2. málsgr. 3. tölul. má skjóta ákvörðun ráðsins til menntmrh., sem eðli máls samkvæmt hlýtur að vera æðsti yfirmaður þessara mála.

Samkvæmt 4. gr. skal útvarpsleyfisráð að jafnaði veita leyfi til útvarpsrekstrar ef umsækjandi uppfyllir tiltekin skilyrði og skal leyfið veitt til þriggja ára í senn. Þetta þýðir að miklar mótbárur þurfa að vera fyrir hendi ef ráðið ætlar að neita umsækjanda um leyfi hafi hann uppfyllt öll skilyrði.

Í 5. gr. er fjallað um skilyrði til leyfisveitinga. Þar er í 1. tölul. gert að skilyrði að ábyrgðarmaður útvarpsstöðvar hafi óflekkað mannorð og sé fjár síns ráðandi. Slík skilyrði er auðvitað nauðsynlegt til að ævintýramenn fari ekki út á þessa braut. Samkv. 2. tölul. þarf dagskrárstjóri að hafa reynslu og er eðlilegt að sömu skilyrði séu sett fyrir dagskrárstjóra í útvarpsstöð og sett eru fyrir inngöngu manna í Blaðamannafélag Íslands, svo dæmi sé tekið. Í 3. lið er greint frá tæknilegum búnaði sem þarf að vera til staðar, og þar er sagt að nánar þurfi að kveða á um slíkt í reglugerð. Hér er fyrst og fremst spurning um gæði, og vil ég sérstaklega vísa til grg. um 6. gr. frv. hvað þetta atriði varðar. Í 4. tölul. segir að liggja þurfi fyrir ítarleg áætlun um dagskrá. Hér er fyrst og fremst um að ræða hvers konar efni skuli flutt og hlutfall efnisatriða. Loks er í fimmta lagi mjög mikilvægt ákvæði um afstöðu sveitarstjórna, en þar er gert ráð fyrir að viðkomandi sveitarstjórnir hafi ákvörðunarrétt í þessum efnum með því að meirihlutasamþykkt liggi fyrir. Þessi takmörkun á frelsi til að starfrækja útvarpsstöð er að sjálfsögðu mikil, en þykir eðlileg til að byrja með, a.m.k. á meðan menn átta sig á þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða með tilkomu nýrra útvarpsstöðva og með þeirri hugarfarsbreytingu sem felst í því að litið sé á útvarpsstöðvar og þjónustu þeirra með sömu augum og dagblöð.

Í 6. gr. er sagt að útvarpsstöð sé heimilt að reisa sendistöð og endurvarpsstöðvar, flytja inn og eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki, sem sérstaklega eru framleidd fyrir útvarp. Til þess að hægt sé að samþykkja þessa grein þarf að breyta núverandi fjarskiptalögum, sem sett voru í síðari heimsstyrjöld, og um það er getið í 13. gr. frv.

Mér er kunnugt um það, herra forseti, að verið er að breyta fjarskiptalögunum, enda tími til kominn því að þau eru sett á stríðsárunum og eru ákaflega takmarkandi fyrir not á t.d. ljósmerkjum. Má segja, ef grannt er skoðað, að hægt sé að finna það út úr lögunum, að bannað sé að nota stefnuljós á Íslandi hvað þá dyrasíma án þess að beint leyfi komi til frá póst- og símamálastjórninni. Samt hefur heldur lítið heyrst að undanförnu um hvað þeirri lagaendurskoðun líður.

7. gr. er samsvarandi grein og nú er í almennu útvarpslögunum, þ.e. lögunum um Ríkisútvarpið, en þó er þessi grein nokkuð stytt með tilliti til nokkuð annars hlutverks Ríkisútvarpsins.

Varðandi 8. gr. skal vísað til grg.

9. gr. er að sjálfsögðu ákaflega mikilvæg því að þar er fjallað um tekjumöguleika slíkra útvarpsstöðva sem óháðar eru ríkinu. Lagt er til að þær geti aflað tekna með auglýsingum eða áskriftargjaldi eða sérstöku gjaldi sem tekið er fyrir útsendingu á fræðslu- og skýringarefni. Þá er það tekið fram í lögunum og gert að skyldu að auglýsingar skuli vera skýrt afmarkaðar frá annarri dagskrá útvarpsstöðvanna. Loks er útvarpsstöðvunum heimilt að ákvarða verðlagningu þeirrar þjónustu sem þær veita. Óþarfi er að skýra það í mörgum orðum, að útvarpsstöðvar verða að geta aflað tekna, og eðlilegasta leiðin til þess er að það gerist með auglýsingum eða áskriftargjaldi. Varðandi verðlagningu auglýsinga og þjónustu er eðlilegt að bera það saman við dagblöðin, og í raun hefur því verið haldið fram að með áhrifum hins opinbera á verð dagblaða sé verið að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálft prentfrelsið. Dagblöðin hafa m.a. þess vegna á undanförnum árum verið undanþegnir verðlagsákvæðum.

10. gr. frv. er alger hliðstæða 22. gr. núverandi útvarpslaga og er óþarfi að fara fleiri orðum um þá grein. Á sama hátt er 11. gr. hliðstæð 23. gr. útvarpslaganna.

Í 12. gr. er útvarpsstöðvum gert skylt að varðveita allt útsent efni í tvær vikur frá því að það var sent út í því skyni að hver og einn, sem telur að rétti sínum hafi verið hallað, geti fengið endurrit af útsendingunni sé eftir því leitað innan þessa frests.

Ég hef áður minnst á 13. gr. frv., þar sem lagt er til að felld verði úr gildi lagaákvæði í útvarpslögunum sem veita Ríkisútvarpinu einkaleyfi á útvarpsrekstri og jafnframt séu afnumin úr fjarskiptalögum ákvæði sem stangast á við ákvæði þessa lagafrv.

Í umræðum bæði hérlendis og erlendis um afnám einkaréttar ríkis á útvarpsrekstri hafa að sjálfsögðu komið fram fjölmörg rök bæði með og á móti frjálsum rekstri. Umræður um þessi mál hafa annars vegar sprottið vegna þess að tillögur hafa komið upp um að fella niður einkarétt, en jafnframt vegna tillagna þess efnis að heimila auglýsingar hjá opinberum útvarpsstöðvum erlendis. Þeir, sem eru á móti afnámi einkaréttarins, hafa m.a. bent á eftirfarandi rök:

1. Útvarpsrekstur er of mikilvægur til að réttlætanlegt sé að láta hann í hendur einkaaðila.

2. Einkaréttur ríkisins tryggir vernd gegn misnotkun.

3. Einkaréttur tryggir menningarlega dagskrá í háum gæðaflokki.

4. Fjölgun útvarpsstöðva og þar með útvarpsrása leiðir til þess, að hlustendur leita að léttum og ómenningarlegum skemmtidagskrám.

5. Einkaréttur ríkis tryggir aðgang minnihlutahópa að útvarpi.

6. Þar sem fólk getur ekki hlustað eða horft á nema eina stöð í einu, til hvers á þá að fjölga útvarpsstöðvum? Við þessi sex mótrök, sem oft hefur verið gripið til, m.a. í nýlegum umræðum í Noregi, vil ég bæta tveimur atriðum, sem voru áberandi hjá andstöðumönnum frv. Guðmundar H. Garðarssonar þegar það var rætt á þingi snemma árs 1979. Annars vegar sögðu andstæðingar frv. að frjáls útvarpsrekstur leiddi til þess, að peningamenn næðu tökum á þessum sterka fjölmiðli með þeim afleiðingum að ákveðin pólitísk öfl yrðu drottnandi í útvarpsrekstri. Hins vegar var bent á að hvorki væri rétt né siðlegt að bjóða upp á fleiri útvarpsstöðvar en þær sem í gangi eru, hvað þá fleiri útvarpsstöðvar þegar sú útvarpsstöð, sem nú er í gangi og nýtur einkaréttar, fær ekki nægilega aðhlynningu frá ríkinu. Einnig væri ósanngjarnt að gefa þéttbýlisbúum tækifæri til að hlusta á tvær útvarpsstöðvar eða fleiri sem útilokað væri fyrir fólk í dreifbýlinu að hlusta á. Jafnrétti þyrfti að vera milli þéttbýlis og strjálbýlis í þessu efni.

Ég hef nú rakið mörg þeirra mótraka sem komið hafa fram gegn afnámi einkaréttar ríkis á útvarpsrekstri. Þau rök, sem hafa hins vegar oft verið nefnd til stuðnings afnámi einkaréttar, eru eftirfarandi:

1. Skortur á samkeppni í útvarpsrekstri getur leitt til stöðnunar.

2. Viss hætta er á því, að reynt sé að hafa óeðlileg flokkspólitísk áhrif á starfsemi ríkisútvarps sem styðst við einkarétt, t.d. með stöðuveitingum.

3. Starfsfólk ríkisútvarps hefur betri aðstöðu en aðrir til að hafa áhrif á dagskrána á grundvelli áhugamála sinna.

4. Fleiri útvarpsstöðvar tryggja fleiri kosti og koma í veg fyrir einhæfni án þess að minni kröfur séu gerðar til dagskrárgerðar.

5. Einkaútvarpsstöðvar verða á ýmsan hátt svipaðar dagblöðunum. Fjölbreytni gæti verið mikil, samkeppnin á heilbrigðum grundvelli. Möguleiki er á samvinnu staðbundinna útvarpsstöðva víðsvegar um land og staðbundinna stöðva við ríkisútvarpið.

6. Þar sem útvarp og sjónvarp er á fleiri en einni rás eykst áhorfendafjöldinn, ef um sjónvarp er að ræða eða áheyrendafjöldinn að vissu marki. T.d. virðist áhorfendamarkaður hér í Reykjavík og jafnvel á landinu öllu vera meiri en svo að Ríkisútvarpið-sjónvarp nái að fullnægja honum með framboði sínu á útsendingarefni. Þetta sannast m.a. með tilvísun til vídeó-byltingarinnar.

7. Með tilkomu gervihnatta á borð við NORDSAT mun framboð sjónvarps- og útvarpsefnis að sjálfsögðu stóraukast og möguleikar til að taka á móti efni batna til muna. Það er eðlilegur undanfari slíkrar gjörbyltingar að leyfa öðrum en íslenska ríkinu að reka útvarpsstöðvar.

8. Ekki er nægilegt að fjölga rásum eða opna næturútvarp hjá Ríkisútvarpinu. Slíkt er að sjálfsögðu til bóta, en kemur ekki í stað þeirrar samkeppni sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Varðandi þær mótbárur sérstaklega, sem tilgreindar voru fyrr í minni ræðu vegna umræðna um frv. Guðmundar H. Garðarssonar, um áhrif svokallaðra peningamanna og ósanngirni þess að hefja útvarp aðeins fyrir þéttbýli án þess að strjálbýlisfólk njóti þeirra gæða jafnframt, skal það ítrekað hér, að eignarhald peningamanna á útvarpsstöðvum, svo ég noti orð þeirra sem eru gegn auknu frjálsræði, er miklu fremur trygging fyrir því, að boðið sé vinsælt efni, en ef útvarp er rekið eingöngu af ríkisvaldinu. Hugsanlegt væri að sjálfsögðu að takmarka eignaraðild hvers eiganda um sig, en í frv. er að sjálfsögðu gert ráð fyrir eftirlitsaðila, þ.e. útvarpsleyfisráði, og auk þess er leyfið aðeins veitt til takmarkaðs tíma í senn. Til fróðleiks má geta þess, að í frv. norska hægriflokksins var gert ráð fyrir að enginn einn gæti átt nema 15% í viðkomandi útvarpsstöðvum.

Þessi ímyndaða hætta, sem talin er stafa af peningamönnum, er að mínu áliti gersamlega út í bláinn, enda hefur reynslan sýnt, þar sem mest frelsi ríkir við starfrækslu útvarpsstöðva, að það eru fyrst og fremst hópar trúarlegs eðlis, trúarhópar alls konar og stjórnmálaflokkar, sem hafa sóst eftir því að standa í útvarpsrekstri.

Varðandi síðari röksemdina, um dreifbýli og þéttbýli, er óhætt að slá því föstu, að ef slíkur hugsunarháttur ætti að ríkja í öllum málefnum og varðandi allar tækninýjungar er alveg ljóst að hér verða og hefðu ekki orðið neinar framfarir að marki. Slíkur hugsunarháttur er besta ávísunin á algera kyrrstöðu afturhaldsþjóðfélagsins. Ég þarf ekki annað en minna á eitt atriði í þessu sambandi, og það er litvæðing íslenska jónvarpsins, sem auðvitað byggðist fyrst og fremst á því á sínum tíma, að tekin var ákvörðun um að senda út í lit, sem komið hafði verið í veg fyrir um nokkurt skeið. Þar með opnaðist möguleiki til að kaupa litsjónvarpsviðtæki sem gáfu síðan þær tekjur sem voru undirstaða þess að hægt var að kaupa þau tæki sem nauðsynleg voru fyrir sjónvarpið til að senda út í lit. Því miður, og það er önnur saga, hurfu þessar tolltekjur að langmestu leyti í ríkissjóð, en ekki til að byggja frekar upp dreifikerfi og litvæðingu sjónvarpsins að öðru leyti því að dreifikerfið var vissulega hluti af því öllu saman. En út í þá þætti ætla ég ekki að fara að sinni.

Í fskj. með þessu frv., eins og ég hef minnst á áður, er getið um fyrirkomulag í útvarpsmálum meðal nokkurra annarra þjóða. Tímans vegna mun ég ekki rekja það í einstökum atriðum. Þetta geta allir lesið og í raun eru til miklu ítarlegri upplýsingar. Hér er aðeins um útdrátt að ræða. En það, sem fyrst og fremst vekur athygli, er að fyrirkomulag í öðrum löndum er miklu frjálsara en hér á landi. Þar sem um einkarétt á útvarpsrekstri er að ræða fara fram þessa stundina miklar umræður um meira frelsi í þessum efnum. Þar á meðal má minnast á það, að miklar umræður urðu í danska þinginu ekki alls fyrir löngu. Þótt þær umræður yrðu ekki til þess að breyta útvarpslögunum er rétt að það komi fram, að mikill meiri hluti þeirra, sem hafa tekið þátt í skoðanakönnunum í Danmörku, vilja fjölga rásum og koma þeim í hendur einkaaðila.

Það, sem þó einkum stendur breytingum fyrir þrifum annars staðar á Norðurlöndum, eru auðvitað auglýsingatekjurnar. Það eru blöðin sem hafa staðið fyrst og fremst gegn því, að sjónvarps- og útvarpsstöðvar flyttu auglýsingar, og það á auðvitað jafnt við um opinberar útvarpsstöðvar og þær sem reknar eru af einstaklingum, en sums staðar tíðkast að auglýsingatekjur, sem innheimtast hjá ríkisútvarpi, eru síðan endurgreiddar eða sendar til blaðanna eftir ákveðnum reglum, a.m.k. að ákveðnu hlutfalli.

Herra forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum um frv., sem hér er til umr., og óska eftir að það verði sent hv. menntmn. deildarinnar og sent þaðan til umsagnar. Mér er að sjálfsögðu ljóst að frv. fær ekki afgreiðslu á þessu þingi. Meginmarkmiðið með framlagningu þess er auðvitað að hafa áhrif á það starf sem nú fer fram á vegum útvarpslaganefndar, hjá þeirri nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði á sínum tíma. Ég vænti þess, að tekið verði tillit til efnisatriða frv. og þannig komið til móts við þau sjónarmið sem eiga vaxandi fylgi að fagna hér á landi.

Það þarf ekki að ítreka að nú á tímum er tiltölulega auðvelt, vel viðráðanlegt að reka litlar útvarpsstöðvar. Þess vegna er ekki saman að jafna útvarpsrekstri í dag og útvarpsrekstri fyrir 50 árum eða rúmlega það, þegar Ríkisútvarpið var stofnað og tók yfir rekstur þess útvarps sem þá hafði verið rekið um nokkurt skeið hér á landi.

Herra forseti. Ég læt með þessum orðum máli mínu lokið.