26.04.1982
Efri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er gjarnt að tala um ánægjuleg tíðindi þegar lagðir eru á nýir skattar eða fyrirséð er að skattar hækka fram úr áætlun. En ég held að það séu ekki ánægjuleg tíðindi fyrir þegna þjóðfélagsins þó að það séu kannske ánægjuleg tíðindi fyrir ríkissjóð.

Ég vildi aðeins benda á í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að fjárlög mundu fara fram úr útgjaldamegin og þá væri það ánægjulegt að tekjurnar hækkuðu í sama mæli, að það eru auðvitað engin ný sannindi að svo er. En það, sem virðist ætla að gerast núna, a.m.k. fyrstu mánuði ársins, vegna gífurlegs innflutnings, er að tekjur ríkissjóðs, aðrar en tekju- og eignarskattur, ætla að fara miklu meira fram úr áætlun en útgjöldin, sem betur fer sjálfsagt fyrir ríkissjóð, en þarna er náttúrlega um að ræða skattaálögur.

Þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, eru einfaldlega þær sem við í stjórnarandstöðu bentum þegar á við afgreiðslu fjárlaga, að skattvísitala væri of lágt áætluð. Hún er 150 og skattstigar hækka aðeins um 50%, en það, sem lagt er á tekjurnar, hækkar um 53%. Þetta þýðir sem sagt þá auknu skattbyrði sem ég var að tíunda áðan, 59 millj. kr.