05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

57. mál, staða og rekstrargrundvöllur félagsheimila

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þar sem ég er einn af meðflm. þessarar till. er ekki ástæða til að ég sé að lengja hér umr. Ég vil þó aðeins koma hér inn á tvö atriði, tvo þætti í þessu máli sem skipta miklu. Þau eru í fyrsta lagi staða félagsheimilasjóðs, sem er ákaflega veik. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt hefur það viðgengist nokkur undanfarandi ár að framlög til félagsheimilasjóðs eru skert í fjárlögum, sem vissulega stríðir á móti landslögum í þessu efni eins og er um marga aðra slíka sjóði. Þetta kemur mjög illa við þennan sjóð sem er tiltölulega lítill, því að það framlag, sem hann fær samkv. lögum, hefur rýrnað á undarförnum árum vegna þess að önnur verkefni hafa fengið framlög af þessum tekjustofni. Þetta er vissulega áhyggjuefni, ekki síst með tilliti til þess, að víða um land er enn verið að hefja byggingu félagsheimila þar sem engin slík eru fyrir eða svo ófullkomin að ekki samrýmist þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar, og eins með breyttum íbúafjölda. Þess vegna er mjög aðkallandi að félagsheimilasjóður verði efldur þannig að hann geti staðið undir því hlutverki sem honum er ætlað í sambandi við uppbyggingu félagsheimila. Þessi till. er að öðru leyti víðtæk. Það er gert ráð fyrir að gera úttekt á þessum málum og þar er mjög aðkallandi.

Hinn þátturinn, sem ég vildi aðeins koma inn á, er í sambandi við það fyrirbæri sem skotið hefur upp kollinum síðustu tvö, þrjú árin, að skattayfirvöld hafa séð ástæðu til að fara að skattleggja félagsheimili. Til þessa virðist þetta hafa verið fyrst og fremst gert í tilraunaskyni af hendi skattayfirvalda. Nokkurs konar prófmál hafa verið sett af stað til þess að reyna á skattalögin að því er varðar skattfrelsi félaga. En miðað við skattaálagningu þess árs, sem nú er að líða, hefur þetta því miður verið fært út þannig að í flestum kjördæmum landsins er nú hafin skattlagning á félagsheimili að því er varðar tekju- og eignarskatt, sem að mínu mati er ekki í samræmi við það sem skattalög gera ráð fyrir.

Þetta þarf þess vegna að leiðrétta. Þrátt fyrir úrskurð ríkisskattanefndar í sambandi við þessi mál eru þau þess eðlis, að ekki er hægt að una við þessa túlkun á skattalögunum. Ég geri varla ráð fyrir að margir hv. þm., sem samþykktu nýjustu skattalagabreytingar, hafi gert ráð fyrir að í þeim fælist möguleiki til að skattleggja félagsheimili í landinu á þennan hátt.

Ef við lítum á 4. gr. skattalaga, þar sem taldir eru upp aðilar undanþegnir skattskyldu, eru í 3. lið sýslu- og sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir sem þau reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á. Nú er það þannig að í flestum tilfellum eru sveitarfélögin eigendur þessara félagsheimila, í sumum tilfellum allt að helmingi, í öðrum tilfellum 80–90% — og í sumum tilfellum 100%. Í slíkum tilfellum er þetta augljóst. Í 5. lið stendur: Þeir lögaðilar sem nefndir eru í 2. gr. laganna, — þeir eru taldir upp hér, — og eiga hér heimili og verja hagnaði sinum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkv. samþykktum sínum. Og svo í 6. lið eru félög og sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna, sem ekki reka atvinnu.

Í eldri skattalögum var talið nægjanlega tryggt að þetta næði ekki til að skattleggja félagsheimilin, hvort sem um væri að ræða eign sveitarfélaga eða annarra félagasamtaka. Fyrst skattayfirvöld í landinu eru að reyna að teygja sig inn á þetta svið, — þó að það hafi ekki verið í meira mæli en þegar er komið fram, en hefur þó aukist á þessu ári að umfangi, — þá tel ég nauðsynlegt að við hér á Alþingi skýrum lögin þannig að þau taki af allan vafa um að skattayfirvöld séu ekki að gamna sér við að senda bréf og tilkynningar um skattheimtu sem á ekki við lög að styðjast, eða a. m. k. löggjöfin gerði ekki ráð fyrir. Ég hef þess vegna í hyggju að beita mér fyrir því, að gerð verði breyting á 4. gr. skattalaga sem taki af allan vafa um þetta atriði að því er varðar félagsheimili sem byggð eru samkvæmt lögum um félagsheimili og með þeim breytingum sem síðan hafa verið gerðar á þeim lögum.

Þetta vildi ég láta koma fram hér. Þó að það snerti ekki beint till. sjálfa gerir tillgr. ráð fyrir að skipuð verði nefnd sem geri úttekt á stöðu félagsheimila, en óneitanlega er þetta einn stór þáttur í þeim málum. Ég tel að hér sé um mál að ræða sem Alþingi þarf að kveða ákveðið á um, svo að þeir, sem eru að basla við að reka félagsheimili úti um byggðir landsins, þurfi ekki að fá þessa hrollvekju í ofanálag. Nóg er samt um erfiðleika við að standa undir þessum rekstri sem allur er fyrst og fremst í menningarlegu skyni og sumpart sjálfboðavinna, þó að svona skattaelting bætist ekki við. Þess vegna mun ég beita mér fyrir lagfæringu. En ég vona að þessi till. fái hljómgrunn hér á Alþingi.