28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4280 í B-deild Alþingistíðinda. (3935)

159. mál, iðnfræðingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Eins og vitað er fjallaði hv. iðnn. um frv. til laga um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga. Það er mála sannast, að öllum getur skotist þótt skýrir séu. Okkur skaust öllum, og meira að segja hv. Nd., í þessu efni.

Ég hef því leyft mér að flytja brtt. við 3. gr. þessa frv. Í frv. er ákvarðað hámark sekta þar sem stendur: „allt að kr. 5000.00.“ Á seinni tímum hefur verið tekin upp sú venja að til taka ekki slíkt hámark sektarákvæða. Það er mjög óþægilegt; ekki síst með tilliti til þess að verðbreytingar eru því miður örar; og þegar þarf að færa slíkt hámark til samræmis við verðlag þarf að breyta lögum svo tugum eða hundruðum skiptir.

Eins og hv: alþingismenn vita var hér á dögunum til umfjöllunar frv. sem gerir ráð fyrir að slíkt sektarhámark verði tekið út úr allmörgum lögum, í kringum 50, þeim lögum sem brýnast þótti að taka hámark sektarákvæða út úr. Hins vegar á eftir að framkvæma þessa aðgerð, ef ég má svo að orði komast, á um það bil 100 lögum öðrum eða rúmlega það:

Brtt. á þskj. 786 gerir ráð fyrir að 1. málsl. 3. gr. orðist svo: „Brot gegn lögum þessum varða sektum.“ Það, sem tekið er fram um krónutölufjölda sekta fellur þá niður.

Ég vonast til að hv. alþm. taki vel í þessa brtt. Ég biðst að sjálfsögðu formlega afsökunar á því að hafa ekki lagt í það mikla verk að kalla sama iðnn., en ég taldi ekki ástæðu til þess út af ekki stærra atriði en þessu.