28.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

276. mál, kostnaður við Búnaðarþing

Heildarkostnaður við framkvæmd laganna er þannig sundurliðaður eftir árum:

1979 kostnaður enginn og engin fjárveiting

1980 G. kr. 42 079 426

1981 G. kr. 2 039 614

Hjálagt fylgja leiðbeiningar til bænda og afleysingafólks um fyrirkomulag starfseminnar og skyldur bænda og afleysingafólks.

Greiðslur til búnaðarsambanda fara fram eftir innsendum vinnuskýrslum og læknisvottorðum.

f.h. Búnaðarfélags Íslands. Viðar Þorsteinsson

Leiðbeiningar um fyrirkomulag forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.

Um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum fer eftir ákvæðum laga nr. 32/1979 og reglugerðar nr. 422/1979 frá 11. október 1979.

Hér fara á eftir nokkur ákvæði reglugerðar svo og erindisbréfs, sem Búnaðarfélag Íslands hefur gert fyrir afleysingamenn.

Yfirstjórn forfallaþjónustu landbúnaðarins er í höndum Búnaðarfélags Íslands í umboði landbúnaðarráðuneytisins.

Búnaðarsamböndin stjórna forfallaþjónustunni hvert á sínu starfssvæði.

1. Ósk um aðstoð.

Bú eða heimili, sem óskar eftir að njóta aðstoðar forfallaþjónustu, vegna forfalla bónda eða maka hans, skulu tilkynna það formanni viðkomandi búnaðarfélags, sem síðan tilkynnir það stjórn forfallaþjónustunnar hjá búnaðarsambandinu. Skal þá liggja fyrir læknisvottorð um að viðkomandi sé óvinnufær. Ef um bráð veikindi eða slys er að ræða er heimilt að veita aðstoð þótt læknisvottorð sé ekki þá þegar fyrir hendi. Læknisvottorðs má einnig krefjast til staðfestingar á því, hve lengi forföll hafi varað. (sjá 8. gr. reglugerðar).

2. Hverjir eiga rétt til aðstoðar og hve lengi?

Allir bændur og þeir, sem veita búum forstöðu, og makar þeirra eiga rétt á aðstoð skv. ákvæðum þessum, enda hafi þeir meiri hluta tekna sinna af landbúnaði og séu aðilar að Lífeyrissjóði bænda.

Þeir bændur, sem hafa meiri hluta tekna sinna af öðru en landbúnaði skv. skattframtali, eiga rétt sem hér segir:

40–50% tekna af landbúnaði veitir 75% rétt

30–40% tekna af landbúnaði veitir 50% rétt

20–30% tekna af landbúnaði veitir 25% rétt

Ef tekjur af landbúnaði eru undir 20'% tekna veitir það ekki rétt skv. ákvæðum þessum. Stjórn Búnaðarfélags Íslands sker úr um ágreiningsefni, sem upp kunna að koma varðandi rétt einstaklinga skv. ákvæðum þessum. (7. gr. reglugerðar).

Í 11. gr. reglugerðar eru enn fremur eftirfarandi ákvæði:

Nú er ekki þörf fyrir mann, sem ráðinn er í afleysingastörf, til starfa í veikinda- eða slysatilfellum, skal þá leitast við að ráða manninn til starfa hjá þeim, sem þurfa að fara frá búi af öðrum orsökum, svo sem við töku orlofs eða til almennra bústarfa hjá bændum. Skal þá viðkomandi bóndi greiða starfið að fullu.

3. Launagreiðslur, vinnutími o.fl.

Föst laun afleysingamanna greiðast úr ríkissjóði og eru þau miðuð við 40 stunda vinnuviku, 8 stundir á dag. Afleysingamanni er skylt, þegar brýn nauðsyn er á, að vinna óhjákvæmileg bústörf dag hvern allt að 24 daga í senn á einu og sama búi gegn samfelldu fríi á eftir, jafnlöngu og unnir frídagar eru, en án sérstakrar aukaþóknunar.

Vinni afleysingamaður lengur en 8 tíma á dag, greiðir viðkomandi bú honum þá yfirvinnu, sem um semst. Um þetta segir enn fremur í erindisbréfi:

„Haga skal vinnutíma í samræmi við venjulega vinnuhætti við gegningar og mjaltir og getur hluti af frítíma afleysingamanns þannig fallið á milli mála. Um mat á því, hvað telst eðlilegt að afleysingamaður geti annast í dagvinnutíma, á 8 stundum, skal hafa hliðsjón af bústærð og vinnuaðstöðu. Verði ekki samkomulag um þetta skal yfirmaður afleysingaþjónustu á viðkomandi svæði leitast við að ná samkomulagi.

Jafnan skal greiða yfirvinnu, sem unnin er. Tímalaun fyrir yfirvinnutíma eru 1% af mánaðarlaunum afleysingamanns og skal stjórnandi afleysingaþjónustu veita aðilum upplýsingar um það, hver þau eru á hverjum tíma.“

Afleysingafólk skal hafa endurgjaldslaust fæði og húsnæði hjá viðkomandi búi á starfstíma sínum.

Ef aðstæður leyfa geta afleysingamaður og viðkomandi bóndi komið sér saman um að afleysingamaður fari daglega til heimilis síns til gistingar gegn sanngjarnri aukagreiðslu, sem bóndinn greiðir. Viðkomandi bú greiðir ferðakostnað afleysingamanns við komu og við brottför er starfi hans lýkur.

Heimilt er að jafna ferðakostnað afleysingamanna innan einstakra starfssvæða, enda samþykki aðalfundur viðkomandi búnaðarsambands/sambanda slíka ráðstöfun.

Hámarkstími, sem bóndi getur haft afleysingamann með framangreindum kjörum, er 24 dagar á ári. Sama gildir um maka hans. Ekki er hægt að fá aðstoð fyrir skemmri tíma í einu en tvo daga.

Heimilt er bónda, sem ekki nýtur hámarks réttar til þjónustu, sbr. 2. málsgr. 7. gr., að hafa afleysingamann í allt að 24 daga á ári, sé afleysingamannsins ekki þörf annars staðar, og greiðir hann laun afleysingamannsins þann tíma, sem er umfram rétt hans.

Nú hefur afleysingamaður lokið hámarks dvalartíma hjá bónda og er þá heimilt, sé þess óskað, að framlengja dvöl hans ef hans er ekki þörf annars staðar, en þá greiðir viðkomandi bóndi laun afleysingamannsins. Þess skal ávallt gætt, að unnt sé að veita aðstoð í bráðum veikinda- og slysatilfellum, svo að svigrúm gefist til að gera aðrar ráðstafanir. (Sjá 9. gr. reglugerðar).

4. Um starfsskyldur og starfshætti atleysingamanna. Eftirfarandi atriði eru tekin úr erindisbréfi fyrir afleysingamenn:

a. Afleysingamaður skal halda dagbók um störf sín og skrá daglega vinnu sína á hverju heimili eða búi í samræmi við dagbókarform sem Búnaðarfélag Íslands gefur út. Forráðamaður heimilis eða bús staðfestir dagbókarfærsluna með undirskrift sinni að hverju tímabili loknu.

b. Afleysingamaður skal færa akstursdagbók um allan akstur í þágu starfsins á eigin bifreið, þ.e. þegar ekið er til og frá vinnustað eða í öðrum erindum viðurkenndum af stjórnanda starfsins.

Ef afleysingamaður ekur fyrir viðkomandi bú eða heimili skal það skráð sérstaklega, og er honum heimilt að taka gjald fyrir slíkan akstur eftir þeim taxta, sem viðurkenndur er fyrir akstur ríkisstarfsmanna í þágu starfsins.

c. Afleysingamanni er skylt að sinna þeim störfum á búi og heimili sem tilgreind eru í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar, en þau eru: Nauðsynleg bústörf, hirðing og fóðrun gripa, vinna við voryrkju, heyskap og önnur uppskerustörf og önnur þau bústörf, sem eðlilegt er að vinna á hverjum árstíma. Nauðsynleg heimilisstörf teljast: daglegt heimilishald, minni háttar hreingerningar, útvegun til heimilis o.fl. og þau störf, sem eðlileg teljast á hverjum tíma.

d. Afleysingamenn skulu njóta góðs aðbúnaðar og atlætis á heimilum, þar sem þeir dveljast vegna starfa sinna. Þeim skal búin aðstaða til hvíldar og næðis á milli þess sem þeir eru að störfum.

Afleysingafólk skal hafa endurgjaldslaust fæði og húsnæði hjá því búi eða heimili, sem unnið er fyrir. Séu aðstæður þannig að aðila, sem þiggur aðstoð, sé óhægt um að veita framangreinda þjónustu á eigin heimili skal hann útvega hana annars staðar í samráði við afleysingafólk.

e. Afleysingamaður skal gera það, sem í hans valdi stendur til þess að gæta þrifnaðar og reglusemi á heimili og búi. Hann skal sýna natni við hirðingu búfjár og kynna sér svo sem kostur er hvernig fóðrun og hirðingu hefur verið háttað þannig að viðbrigði verði sem minnst fyrir búféð.

f. Afleysingamaður er háður þagnarskyldu um það sem hann kemst að í starfi sínu. Hann skal í öllu sýna háuvísi og temja sér rósemi og hlýleika í viðmóti.