29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4352 í B-deild Alþingistíðinda. (4075)

376. mál, varnir gegn sjúkdómum á plöntum

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Þegar hæstv. landbrh. mælti fyrir frv. til laga um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum sagði hann svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í landi okkar eigum við því láni að fagna að vera lausir við ýmsa sjúkdóma sem hrjá gróður og dýralíf í nálægum löndum. Hér veldur vafalaust mestu um lega landsins, sem er nokkuð einangrað og fjarri öðrum löndum. Það er mikil nauðsyn á aðgerðum og eftirliti til þess að forðast það, að þessir sjúkdómar geti borist hingað og valdið auknu tjóni, bæði í dýraríkinu og eins í jurtaríkinu.

Ég tel mjög nauðsynlegt að við höldum vöku okkar á þessu sviði og beitum því aðhaldi og eftirliti, sem nauðsynlegt er talið að ráði færustu manna, til þess að forðast að inn í landið berist nýir sjúkdómar í sambandi við plöntur og gróðurríki landsins.“

Eins og hér kemur fram gat hann þess, að með hinum nýju lögum væri hinu opinbera gert mögulegt að koma á eðlilegu eftirliti með innflutningi á plöntum og herða á sjúkdómavörnum samfara þeim innflutningi. Hæstv. ráðh. taldi mjög nauðsynlegt að beita því aðhaldi og eftirliti til þess að forðast að inn í landið berist nýir sjúkdómar í sambandi við gróðurríki landsins. Nú er ljóst að verulegur innflutningur á sér stað á plöntum á ýmsu vaxtarskeiði frá fjarlægum löndum. Varla er það kunnugt almenningi, að einnig er verulegt magn af mold notaðri í íslenskum gróðurhúsum einnig flutt til landsins, m.a. frá Finnlandi, Danmörku, Hollandi og víðar að.

Ég hef fengið það staðfest af ylræktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands, að á s.l. tveimur árum hafi verið flutt inn umtalsvert magn af pottaplöntum. Áætlar hann að um það bil 30–40% af heildarsölunni þessi ár séu innfluttar plöntur. Oft er hér um fullvaxnar plöntur að ræða sem settar eru í potta og settar beint á markað. Má því ætla að eftirlit með heilbrigði innfluttra plantna, sem strax eru settar í sölu, sé allsendis ónógt við þessar aðstæður.

Ylræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands hefur gefið mér upplýsingar um þetta efni, og ég tel ástæðu til að kynna hér örstutt úr bréfi hans. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst, að eins og málum er nú háttað er eftirlit með heilbrigði innfluttra plantna allsendis ónógt. Meginhluti þeirra plantna, sem fluttar eru inn, kemur flugleiðis á ýmsum tímum sólarhrings. Þar af leiðir að móttaka þeirra er leyst af hendi á þann hátt, að gefin eru út bráðabirgðaleyfi, enda nokkur nauðsyn á þar sem um lifandi plöntur er að ræða. Við slíkar aðstæður er auðvitað útilokað að framfylgja eftirliti með heilbrigði plantnanna. Þegar plöntur eru fluttar út frá viðkomandi landi skal fylgja þeim heitbrigðisvottorð viðkomandi yfirvalda á því sviði. Því miður eru þessi vottorð næsta lítils virði og æðimörg dæmi þess, að bæði sveppasjúkdómar, meindýr og vírussjúkdómar hafi borist með innfluttum plöntum. Í ýmsum tilvikum hefur hér verið um að ræða sjúkdóma sem ekki voru fyrir hér á landi. Það er því full ástæða til að taka þann þátt til vandlegrar íhugunar.“

Lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum voru samþykkt á Alþingi 25. maí 1981. Segir m.a. í 2. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbrh. getur samkv. lögum þessum gert varnaðarráðstafanir og gefið út reglugerðir, sem stuðla að því: 1) að koma í veg fyrir að hættulegir skaðvaldar berist til landsins og dreifist innanlands, og útrýma skaðvöldum, sem þegar hafa borist til landsins, teljist það framkvæmanlegt, 2) að hindra að skaðvaldar, sem aðrar þjóðir vilja verjast, berist frá Íslandi.“

Og í 3. gr. segir í lögunum: „Landbrh. getur m.a.: a) fyrirskipað eftirlit með innflutningi, útflutningi og dreifingu innanlands á öllum tegundum plantna, mold, húsdýraáburði, umbúðum og öðru, sem getur borið sjúkdóma og meindýr á plöntur.“

Herra forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Um leið og þessi atriði eru rifjuð upp kemur upp í hugann sá háski, sem í vetur og enn í dag herjar á danska bændur, gin- og klaufaveikifaraldurinn, sem mun hafa áhrif á danskt efnahagslíf um ófyrirsjáanlegan tíma vegna markaðstruflunar og sölustöðvunar á framleiðsluvörum danskra bænda. Mér skilst að ekki sé fyllilega ljóst með hverjum hætti veikin hefur borist til Danmerkur, en margt bendir til að útbreiðsla faraldursins á Fjóni sé að hluta til af völdum veðra og vinda. Ef svo er sýnir það ljóslega að bein snerting þarf ekki til að koma til þess að sú smitun eigi sér stað. Nú veit ég að innflutningsbann er í gildi um ákveðna vöruflokka frá Danmörku, en er þá nóg að gert varðandi önnur lönd? Getur sýkill borist með mold eða plöntuhlutum frá fjarlægum löndum, og er nægilega fylgst með heilbrigðisvottorðum, gerð þeirra og gildi frá hinum ýmsu stöðum? Með þetta í huga hef ég spurt hæstv. landbrh. þessara spurninga:

„1. Hefur landbrh. fyrirskipað, samkv. ákvæðum 3. gr. laganna, eftirlit með innflutningi og dreifingu innanlands á mold, húsdýraáburði, umbúðum og öðru því sem getur borið sjúkdóma og meindýr á plöntur?

2. Telur landbrh. ástæðu til að gera varnaðarráðstafanir samkv. ákvæðum 2. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af gin- og klaufaveikifaraldri sem geisar í Danmörku?“