14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Umræður utan dagskrár

Félmrn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í ræðu hv. 2. þm. Reykn. komu fram fullyrðingar og stóryrði um atvinnuástandið hér á landi sem eru í sjálfu sér ekki nýjar af nálinni. Þetta hefur kveðið við svo að segja allan tímann frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, að hér væri allt að fara í kaldakol, allir atvinnuvegir að stöðvast, ríkisstj. að rífa rekstrargrundvöll undan atvinnuvegunum, hún gerði það ekki óvart, heldur beinlínis vísvitandi, það væri hennar stefna að setja atvinnuvegina í landinu á hausinn. Þessi málflutningur hefur reyndar dæmt sig sjálfur. Staðreyndin er sú, að ríkisstj. hlýtur auðvitað að leggja á það áherslu að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna þannig að allt þjóðlíf megi dafna svo sem best verður á kosið. Og ég held að segja megi að þann tíma, sem þessi ríkisstj. hefur setið, hafi atvinnulífið í landinu í rauninni verið allblómlegt meginhluta tímans. Full atvinna hefur verið t. d. á þessu ári á flestöllum stöðum í landinu. Hér hefur því verið um að ræða hrakspár stjórnarandstöðunnar. Að vísu hefur stjórnarandstaðan gert sér hugmyndir um það, að ríkisstj. gæti ekki komið sér saman um eitt eða neitt vegna þess að þar væru menn ósammála um hlutina. Auðvitað kemur það fyrir að menn eru ósammála þar um eitt og annað. En meginatriðið er það, að ríkisstj. hefur jafnan tekið á þessum verkefnum þannig, að atvinnuöryggi hefur verið nokkurn veginn tryggt í landinu þann tíma sem hún hefur setið. Hv. 2. þm. Reykn., sem er nú því miður fjarverandi, en flokksbræður hans einhverjir sitja hér, hafði það við orð að hér væri um að ræða mjög alvarlegt ástand í atvinnumálum, ískyggilegt ástand í atvinnumálum, allt væri í hnút og þar fram eftir götunum. Satt að segja kippti ég mér ekki upp við þessi ummæli. En það er dálítið kostulegt að menn skuli þing eftir þing nenna að hafa uppi texta af þessu tagi þegar dómur reynslunnar liggur í raun og veru fyrir um það, að þessar fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um atvinnuástandið í landinu hafa reynst vera markleysa vegna þess að ríkisstj. hefur tekið á atvinnumálum í því skyni að treysta stöðu atvinnuveganna eins og mögulegt er. Auðvitað er ljóst að þegar um það er að ræða, að ríkisstj. er að glíma við að ná verðbólgu í landinu úr 70–80%, eins og spáð var, niður í 40%, þá reynir víða á. Það reynir alls staðar á. Það reynir á atvinnuvegina alla. Það reynir á launafólkið í landinu. Og það reynir á fleiri aðila. Þannig hlýtur það að vera. Mér þætti fróðlegt að vita hvernig menn ætla sér að komast í gegnum þennan verðbólguvanda öðruvísi en það verði látið taka á einhvers staðar, einhvers staðar reyni á, vegna þess að spurningin um baráttuna gegn verðbólgunni er auðvitað ekki síst sú, hver eigi að borga kostnaðinn við að ná þjóðinni út úr þeim verðbólguvanda sem allir viðurkenna að við höfum búið við í bráðum 10 ár, frá því að hin mikla verðbólguholskefla skall hér yfir upp úr olíukreppunni fyrri á síðasta áratug.

Auðvitað er ljóst, og um það eru væntanlega allir sammála, að við eigum að vera vel á verði í atvinnumálum. Við eigum að gæta þess, að hér komi ekki til atvinnuleysis, og við eigum að tryggja það, að afkoman h já atvinnuvegunum sé þannig að þeir geti staðið við eðlilegar skuldbindingar sínar. Við sjáum öll, hv. alþm. svo og þjóðin öll, hvernig þessu er háttað í grannlöndum okkar þar sem um er að ræða geigvænlegt atvinnuleysi. Milljónir og aftur milljónir manna ganga atvinnulausar. Dæmi eru til þess, að þrjár kynslóðir hafi ekki fengið atvinnu, og í stórum fjölskyldum eru menn atvinnulausir árum eða jafnvel áratugum saman. Ég velt því stundum fyrir mér, hvaða orð stjórnarandstaðan hér mundi nota um atvinnuástandið á Íslandi ef það væri með svipuðum hætti og í grannlöndum okkar, t. d. Danmörku, þar sem sósíaldemókratar ráða ríkjum og hafa gert um langt skeið. Þar er um að ræða hrikalegasta atvinnuvandamál á Norðurlöndum. Þar sitja í fyrirrúmi samherjar hv. 2. þm. Reykn. og annarra Alþfl.-manna, sósíaldemókratar, og staðan er þar eins og raun ber vitni.

Ríkisstj. sú, sem nú situr í landinu, hefur gert það sem hún hefur getað til þess að halda uppi fullri atvinnu. Hún hefur reynt að vera á varðbergi í þeim efnum, og hún gerir sér alveg ljóst — og það gera væntanlega hv. þm. allir sér vel ljóst — að auðvitað getur til þess komið, þegar gripið er til aðgerða til að tryggja fulla atvinnu í landinu, að á sama tíma þurfi að slaka á örðum ákveðnum markmiðum í efnahagamálum. Mín skoðun er a. m. k. sú, hvað sem öllum öðrum líður, að full atvinna sé forgangsatriði, sé algert forgangsatriði í efnahagsstjórn þjóðfélagsins. Og sem betur fer hefur skapast um þetta forgangsatriði allgóð samstaða. Þó er ekki því að neita, að þær hagfræðikenningar hafa stundum heyrst, að nauðsynlegt sé að koma hér á því sem kallað er hæfilegt atvinnuleysi, til þess að menn haldi aftur af sínum kaupkröfum, og annað eftir því. Slíkar kenningar hafa heyrst. Þær hafa jafnvel heyrst frá tiltölulega ábyrgum forustumönnum í stórum stjórnmálaflokkum. En sem betur fer þora mjög fáir að kveða upp úr með þann ófögnuð hér nú orðið.

Mér fannst það mjög sláandi í ræðu hv. 2. þm. Reykn., að hann kom í raun og veru ekki með neinar ábendingar um úrræði í vandamálum atvinnuveganna. Ég heyrði ekki nokkurn hlut sem hann nefndi í þeim efnum. Hann spurði og spurði sjútvrh., eins og eðlilegt er, en að hann kæmi sjálfur fram með einhverjar ábendingar um það, hvernig hann vildi hafa hlutina, því fór víðs fjarri. Þó fannst mér hann sjá eitt ráð — og aðeins eitt. Það er gamla ráðið sem hefur verið gripið til hér fyrst af öllu á undanförnum árum og áratugum með þeim afleiðingum sem við þekkjum, þ. e. gengisfelling. Hv. 2. þm. Reykn. virtist ekki sjá neinn annan möguleika í þeim vandamálum sem nú er við að etja í okkar atvinnulífi. Það er ákaflega fróðlegt að þessi afstaða skuli koma fram frá þm. Alþfl. sem boðaði fyrir kosningarnar 1978 svokallaða gerbreytta efnahagsstefnu, en hefur átt erfitt með á undanförnum árum að skýra í hverju sú gerbreyting var fólgin.

En hvernig hefur atvinnuástandið verið? Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu frá vinnumáladeild félmrn. fyrir septembermánuð 1981. Ég ætla að lesa inngangskafla þessarar skýrslu. Þar segir:

„Fyrstu 9 mánuði ársins voru skráðir atvinnuleysisdagar á öllu landinu samtals 76 305, en það svarar til þess, að 391 maður hafi að meðaltali verið skráður atvinnulaus á þessu tímabili. Skráð atvinnuleysi þessa 9 mánuði svarar til 0.36% af heildarmannafla, sem er sama hlutfall og meðaltal síðustu 5 ára á sama tímabili. Að venju voru flestir skráðir atvinnulausir í janúarmánuði, 870 manns á landinu öllu, en í ágústmánuði var talan lægst. Þá var hún komin niður í 180, en hækkaði á ný í sept. í 224. Fjöldi skráðra atvinnuleysisdaga nú er nálega sá sami og fyrstu 9 mánuði ársins 1979, en þá reyndust þeir 76 551 talsins. Á sama tímabili 1980 skráðust hins vegar 62 794 atvinnuleysisdagar eða 13 757 færri en nú, enda atvinnuástand óvenjugott fyrri hluta ársins 1980 og reyndar árið í heild með betri árum hvað atvinnu snertir.“

Ég vil í þessu sambandi rifja það sérstaklega upp, hvernig umræðum var háttað af hálfu stjórnarandstöðunnar um atvinnumál hér á Alþingi árið 1980. Svo segir í þessari skýrslu:

„Eins og áður er getið koma þessir fyrstu 9 mánuðir ársins svipað út að meðaltali og nokkur undanfarin ár þegar á heildina er litið. Á þetta jafnframt við um flesta landshluta aðra en Norðurland eystra. Þar reyndust skráðir atvinnuleysisdagar fyrstu 9 mánuði þessa árs 24 056, en voru 13 719 á sama tímabili í fyrra og 16 092 árið 1979. Sérstaklega var fyrri helmingur ársins erfiður á Norðurlandi eystra, en ástandið lagaðist verulega á þriðja ársfjórðungi og má í lok hans teljast svipað og undanfarin ár. Annars staðar á landinu hefur atvinnuástand verið svipað og áður. Á nokkrum stöðum hefur verið skortur á vinnuafli og munu hafa verið veitt atvinnuleyfi til 700 útlendinga á þessu 9 mánaða tímabili, þar af um 200 í fiskvinnslu.“

Lýk ég þar með tilvitnun í þessa skýrslu. Ég held að hún sé nægilegur vitnisburður um það, hvernig atvinnuástand hafi verið hér á landi það sem af er árinu. Og ég er þess fullviss, að ríkisstj. mun leggja á það verulega áherslu að tryggja hér atvinnuöryggi áfram. Atvinnuöryggið hlýtur að vera forgangsverkefni allra ríkisstjórna.

Hv. 1. þm. Vestf. gat þess, að Alþb. hefði verið mjög ötult við að stuðla að stóraukinni gróðamyndun banka, taldi að þar kvæði nokkuð við annan róm en áður í páfadóm og hérna væri um að ræða merkilega nýbreytni af hálfu Alþb. Síðasta heila árið sem hv. 1. þm. Vestf. var ráðh., árið 1977, var eigið fé Seðlabankans, sem hv. þm. fór um mjög vinsamlegum orðum hér áðan, 3 milljarðar kr. Síðan gerist það, að auðvitað hefur efnahagsstefna hv. þm. og hans flokks veruleg áhrif á stöðu bankanna árið 1978. Þó að vinstri stjórnin tæki þarna rösklega til hendinni frá 1. sept. 1978 fór ekki hjá því, að við ættum við að glíma ýmsar afleiðingar af pólitískum ákvörðunum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar meðan hann var ráðh. (MB: Vill ekki ráðh. nefna þá erfiðleika?) Ég gæti farið yfir það, jú, jú, það er velkomið, hv. þm. En ég ætla bara að geta þess, hvernig þetta var með Seðlabankann, vegna þess að á hann var minnst áðan af hv. 1. þm. Vestf. Hann hafði í eigin fé í lok ársins 1978 6.8 milljarða. Það jókst sem sagt um talsvert meira en 100% á síðasta árinu sem hann sat við stjórnvölinn. Það er því ekki nýlunda að mönnum þyki vænt um Seðlabankann, ef það er það sem ræður þessum stærðum.

Árið 1979 eða í lok ársins 1978 hafði verið skipt hér um stjórn, eins og ég gat um áðan. Hvað gerist þá? Enn þá heldur þessi eign Seðlabankans áfram að vaxa og 31. des. 1980 er eigið fé Seðlabankans komið upp í 37.9 milljarða kr. Á árinu 1980 er talið að heildarhagnaður ríkisbankanna einna hafi verið í kringum 30 milljarðar gamlir, þegar endurmatsreikningur Seðlabankans er tekinn með. Þarna hefur átt sér stað veruleg fjársöfnun í þjóðfélaginu, veruleg upphleðsla á fjármagni.

Ég er algerlega sammála hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni um það, að á þessum málum þarf að taka. Ég held að við þurfum að gera okkur það alveg ljóst, að ef á að tryggja hér sæmilega efnahagslega stöðu þjóðarbúsins getur svona lagað ekki gengið áfram. Það sjálfvirka upphleðslukerfi á fjármagni, sem virðist vera um að ræða í Seðlabankanum, er ekki hægt að skrifa frekar á reikning Alþb. en hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Hér er um að ræða fyrirkomulag sem var ákveðið með lögum fyrir 20 árum eða svo og hefur haldið áfram að hlaða upp á sig og aldrei meira en nú á þessum síðustu árum verðbólgunnar — aldrei meira en nú frá 1973–1974. Þarna virðast menn hafa komið sér upp fyrirkomulagi sem tryggir þá í raun og veru fyrir öllum áföllum og ákvörðunum stjórnvalda í efnahagsmálum oft og tíðum. Ég hef komist þannig að orði stundum í umræðum um verðbólgumál, að í rauninni séu tveir aðilar sem hafi sloppið við að leggja svo að segja nokkuð fram í sambandi við baráttuna gegn verðbólgu. Þar eru bankarnir fremstir. Þeir hafa grætt stórfé á undanförnum árum, verulega fjármuni. Núna hefur það gerst á liðnu ári, að innlánsaukning í bankana er 1 milljarður nýrra kr. umfram verðbólgu, 100 milljarðar gkr. eru raunveruleg innlánsaukning í bankana. Halda menn að þetta komi ekki einhvers staðar við í okkar efnahagslífi? Ég fyrir mitt leyti er atveg sannfærður um að þetta er ein ástæðan til þess, að við vissa erfiðleika er að etja í atvinnulífi okkar eins og sakir standa.

Það var fróðlegt t. d. í þessu sambandi að skoða stöðuna hjá ýmsum frystihúsum nú undanfarna daga. Ég hef farið yfir reikninga nokkurra frystihúsa, einstakra húsa, en ekki bara þessar meðaltalstölur Þjóðhagsstofnunar sem stöðugt eru framleiddar í miklum mæli. Þessir reikningar einstakra húsa sýna að þau eru ekki með verulegt rekstrarfé úr bönkunum. Þau eru með afurðalánin, þau eru með viðbótarlánin og önnur slík lögbundin lán, en að þessi hús séu með rekstrarfé úr bönkunum er mjög sjaldgæft. Hverjum skulda þessi frystihús? Þau skulda lífeyrissjóðum, bæjarfélögum, olíufélögum og slíkum aðilum. En að bankarnir hafi komið þarna til aðstoðar til viðbótar við hið sjálfvirka afurðalánakerfi, það er leitun á því. Þessir aðilar virðast vera með allt sitt á þurru. Og ég fagna því alveg sérstaklega, að Matthías bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., skuli með þeim hætti sem hann gerði hér áðan, taka undir stefnu Alþb. í bankamálum.