29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

Almennar stjórnmálaumræður

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Með hverjum deginum sem líður kemur það æ betur í ljós, í hvers konar vanda ríkisstj. er stödd um þessar mundir. Lengi framan af tókst henni að láta sem allt væri slétt og fellt, en seinni hluta þessa þings hefur sigið á ógæfuhliðina. Það er orðið næsta algengt að heyra ráðh. Framsfl. og Alþb. bera af sér sakir með því að kenna hver öðrum um það sem aflaga fer innan stjórnarinnar — og hvernig má líka annað vera þegar aldrei er hægt að ganga hreint til verks og framfylgja einni stefnu, alltaf verður að semja og láta undan og þeir, sem frekastir eru, ráða ferðinni?

Það hefur ekki farið fram hjá landsmönnum hverjir hafa undirtökin innan þessarar ríkisstj. Það eru Alþb.ráðh. Að undanförnu hef ég oft verið spurð að því, hvað sé eiginlega að gerast í þjóðmálum okkar Íslendinga. Á sama tíma og atvinnufyrirtækin berjast í bökkum er umr. á Alþingi öll um ríkisrekin fyrirtæki. Það ætti ekki að koma landsmönnum á óvart þó að yfirbragð allrar umr. í þingsölum mótist af umr. um ríkisafskipti á öllum sviðum, ef menn hafa í huga hverjir það eru sem ráða ferðinni innan þessarar ríkisstj.

Miklar umr. hafa orðið á Alþingi um húsnæðismálin að undanförnu og nú síðast í tengslum við frv. ríkisstj. um 6% nýjan skyldusparnað sem lagt var fram fyrir skömmu. Þessu skyldusparnaðarfrv. var ætlað að bjarga Byggingarsjóði ríkisins sem er nú tómur. Það var látið heita svo að nú ættu þeir, sem hæstar tekjur hafa, hátekjumennirnir í þjóðfélaginu, þeir menn sem leggja nótt við dag til þess að afla sér tekna, að koma ríkissjóði til hjálpar og lána sparifé sitt til þess að hægt væri að hækka lán til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn. Þarna var um að ræða áætlaðar tekjur upp á 35 millj. kr. Það upplýstist hins vegar að hér var um algera blekkingu fjmrh. að ræða. Byggingarsjóður er með yfirdráttarskuld hjá Seðlabanka sem nemur 40 millj. kr. og fjármagnið færi í að greiða þá skuld. Þetta skyldusparnaðarfrv. hefur ekki fengið þær undirtektir á Alþingi sem fjmrh. hafði búist við. Göfugmennska hans í garð ungu húsbyggjendanna hvarf eins og dögg fyrir sólu og árangurinn varð einungis sá, að það upplýstist hvernig ástandið er í húsnæðismálum undir forustu Alþb.-ráðherranna.

Það hefði vissulega verið tilefni til í þessum umr. að gera húsnæðismálum ítarleg skil eins og þau hafa þróast, en á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða er þess ekki kostur. Ég vil þó minna á þá staðreynd, að undir forustu Alþb. hefur þróunin orðið sú, að öll áhersla er lögð á að byggja félagslegar íbúðir, verkamannabústaði, og sú lánafyrirgreiðsla, sem er 90% lán, er á kostnað þeirra sem vilja byggja á eigin vegum, en þeirra lánahlutfall er aðeins 17.4% af kostnaðarverði staðalíbúðar.

Nú má enginn skilja orð mín svo, að ég sé á móti því að byggðar séu íbúðir á félagslegum grunni eða verkamannabústaðir. Síður en svo. Það á að sjálfsögðu að aðstoða þá, sem þess þurfa með, og gera það vel. En það á ekki að gerast á kostnað þeirra sem geta og vilja byggja á eigin vegum, eins og nú er gert. Það á ekki að draga úr sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna, heldur á þvert á móti að koma til móts við þá með því að veita þeim hagkvæm lán til langs tíma. Lán til þeirra einstaklinga, sem byggja í fyrsta sinn, þarf að hækka í 80% af kostnaðarverði íbúðar. Gera þarf raunhæft átak í húsnæðismálum aldraðra og fatlaðra og veita fé til frjálsra samtaka húsbyggjenda og einstaklinga, sem hyggjast reisa íbúðir þar sem sérstakt tillit er tekið til þarfa aldraðra og hreyfihamlaðra. Það þarf að gæta þess í skiputagi við úthlutun lóða að gefa eldri og yngri kynslóðum tækifæri til sambýlis og njóta þannig stuðnings hvor af annarri.

Á s.l. vetri fóru fram útvarpsumræður héðan frá Alþingi. Í lokaorðum sínum vék hæstv. félmrh. Svavar Gestsson að sveitarstjórnarkosningunum. Hann sagði að meginátökin yrðu á milli Sjálfstfl. og Alþb., kosningaúrslitin fælu ekki aðeins í sér dóm um liðna tíð, heldur yrðu þau líka afgerandi um stjórn landsins og sveitarfélaganna næstu árin. Hann sagðist fagna því, að Alþb. fengi tækifæri til að leggja verk sín fyrir kjósendur. Ég er ekki atveg viss um að ráðh. hafi verið eins glaður og hann lét yfir væntanlegum kosningum til sveitarstjórna. Alþb. lét það boð út ganga til flokksmanna sinna um svipað leyti, að nú skyldi höfuðáhersla lögð á að fella meiri hluta sjálfstæðismanna í sveitarstjórnum í nágrannabyggðarlögum höfuðborgarinnar. Til þess átti að beita öllum tiltækum ráðum og m.a. að knýja fram sameiginleg framboð vinstri flokkanna gegn sjálfstæðismönnum væri þess nokkur kostur, enda tryggara að sleppa skoðanakönnunum um fylgi Alþb. með því að þeir færu að bjóða fram einir sér og standa undir nafni. Að vísu varð sáralítill árangur af þessum tilraunum til að sameina vinstri menn í eitt framboð. Þó hefur Alþb. tekist að fá til liðs við sig nytsama sakleysingja á einstaka stöðum.

Góðir áheyrendur. Mér finnst full ástæða nú, þegar aðeins eru rúmar þrjár vikur til sveitarstjórnarkosninganna, að ítreka orð Svavars Gestssonar félmrh. og minna kjósendur á að það verður kosið milli þessara tveggja flokka í sveitarstjórnarkosningunum 22. maí n. k. Ég vil minna landsmenn á að þar sem Sjálfstfl. hefur stjórnað einn, verið einn til ábyrgðar, hefur verið vel stjórnað. Sjálfstæðismenn eru óhræddir að takast á við málin og stuðla að betra mannlífi þar sem einstaklingarnir og frumkvæði þeirra fær að njóta sín. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.